Fréttir

DV.is - Samkynhneigð pör frá Íslandi mega nú ættleiða börn frá Kólumbíu

Mynd/Getty
Mynd/Getty

Aníta Estíva Harðardóttir 
anita@pressan.is
18:30 › 31. október 2017
 
Fyrir stuttu opnaðist nýr valmöguleiki fyrir samkynhneigð pör á Íslandi til þess að ættleiða barn frá Kólumbíu. Íslendingar hafa ættleitt börn frá Kólumbíu í næstum þrjá áratugi en pör af sama kyni hafa hingað til ekki fengið leyfi til ættleiðingar.

„Það sem gerðist var að samkynhneigt par sem býr í Svíþjóð sótti um að ættleiða barn frá Kólumbíu, annar aðilinn er Kólumbískur ríkisborgari en samt fengu þau höfnun. Þau áfríuðu dómnum til Hæstaréttar í Kólumbíu þar sem málið var dæmt parinu í hag þar sem allir eiga að hafa sama rétt til ættleiðingar, sama hver kynhneigð þeirra er,“ segir Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar í viðtali við Gayiceland.

Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar
Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar


Kólumbía og Ísland hafa nú þegar gert samning sín á milli sem leyfir samkynhneigðum pörum að sækja um ættleiðingu barns en ættleiðingarferlið frá Kólumbíu hefur þó gengið hægt upp á síðkastið. Ferlið yfirhöfuð tekur langan tíma og hefur Kólumbía aðeins leyft ættleiðingar á börnum sem fæðast með sérþarfir eða börnum eldri en sjö ára.

„Íslensk ættleiðing hefur alltaf boðið upp á þjónustu fyrir hvern þann sem uppfyllir skilyrði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Á Íslandi getur hver sem er sótt um að ættleiða, hvort sem þeir eru skráðir í sambúð, giftir eða einhleypir, algjörlega óháð þeirra kynhneigð. Það er sú staðreynd að önnur ríki hafa ekki leyft ættleiðingu til samkynhneigðra sem hefur verið hindrunin. Nú þegar Kólumbía hefur gefið leyfi fyrir því, ekki bara sem kenningu heldur einnig í raun, þá eru samkynhneigðum pörum velkomið að reyna á. Nú þegar hefur engin sótt um; við greindum frá upplýsingunum fyrir nokkrum vikum síðan á heimasíðu okkar og bjuggumst við einhverjum viðbrögðum en það hefur ekkert samkynhneigt par sótt um enn og við höfum engin á biðlista.“

Samkynhneigð pör á Íslandi hafa átt rétt til þess að ættleiða frá árinu 2006 en því miður hefur engin erlend ættleiðing gengið í gegn enn.

Mynd/Getty
Mynd/Getty


„Það er ekki réttur hverrar manneskju að vera foreldri en það er réttur hvers barns að eiga foreldri. Þannig störfum við, hagsmunir annarra en barnanna eru alltaf í öðru sæti.“

Kristinn er hóflega bjartsýnn um að búið sé að brjóta hindrun samkynhneigðra til ættleiðingar.

„Ég er ekki viss um að þetta sé það tímamótaskref sem margir vonast eftir. Ef Kólumbía fyllist nú af ættleiðingarumsóknum frá samkynhneigðum pörum, þá er alltaf möguleiki á því að hægist verulega á ferlinu jafnvel þannig að engar ættleiðingar gangi í gegn yfirhöfuð, það eru ekki það margar í augnablikinu. En þetta gæti líka þýtt það að börn sem eru orðin sjö ára gömul og börn með sérþarfir, sem eru sjaldan ættleidd, muni fá fjölskyldu. Ef samkynhneigð pör eru tilbúin til þess að ættleiða þau börn þá er það hópurinn sem er tiltækur í augnablikinu.“

DV.is - Samkynhneigð pör frá Íslandi mega nú ættleiða börn frá Kólumbíu


Svæði