DV - Fóstur og ættleiðing verði hjá sama embætti
Forstöðumaður Barnaverndarstofu vill láta breyta reglum:
Fóstur og ættleiðing verði hjá sama embætti
- óeðlilegt ef fyrrverandi veikindi hindra ættleiðingu
Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, er ósáttur við að hans embætti hafi ekki með ættleiðingarmál að gera.
Þær reglur gilda um fósturráðstafanir að barnaverndarnefndum er óheimilt að ráðstafa fyrr en að fenginni umsögn Barnaverndarstofu. Það er til að tryggja að samræmt mat sé á þeim kröfum sem gerðar eru til hæfis fósturforeldra í landinu öllu, enda ekki eðlilegt, að mati Braga, að svoleiðis vinna dreifist á 50 barnaverndarnefndir í landinu. „Ef við lítum hins vegar á ættleiðingar sem eru í eðli sínu alveg sambærilegar ráðstafanir þá ber svo við að hæfismatið liggur ekki hjá Barnaverndarstofu heldur í umsókn viðkomandi barnaverndarnefnda. Siðan fer matið inn í dómsmálaráðuneytið en ég tel að þetta ætti allt að vera á sömu hendi þannig að sambærilegar reglur giltu um þetta hæflsmat," segir Bragi. „Þetta á allt að vera á einni hendi þannig að sömu aðferðir og fagþekking sé viðhöfð. Ég sé engin rök fyrir því að hafa tvö aðskilin kerfi í gangi. Það gæti bitnað á fagþekkingu. Ættleiðingarmál voru til umræðu á Alþingi i fyrradag. ísólfur Gylfi Pálmason, þingmaður Framsóknarflokksins, kallaði það hróplegt óréttlæti að manneskja sem hefði veikst alvarlega fengi ekki að ættleiða barn, jafnvel þótt hún væri búin að ná sér af sjúkdómnum og ætti fullfrískan maka. Bragi er sammála þingmanninum um að þetta sé óeðlilegt ef rétt sé. „Ég álít að ef allt annað er í góðu lagi eigi fyrrverandi veikindi ekki að vera frágangssök. Þetta kemur á óvart ef rétt er en ég þekki þessi mál ekki gjörla þar sem þetta er aðskilið frá rekstri Barnaverndarstofu," segir Bragi. Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sagði m.a. í umræðunum á Alþingi að þessi mál væru viðkvæm en skjóta mætti vafaatriðum til sérstakrar nefndar og væri þar um mikla réttarbót að ræða. -BÞ