Fréttir

Mbl - Unnið að gerð reglna fyrir ættleiðingarfélög

Í dóms og kirkjumálaráðuneytinu er nú unnið að gerð almennra reglna fyrir ættleiðingarfélög sem haft geta milligöngu um ættleiðingar fólks hér á landi á börnum frá öðrum löndum.  Hér á landi er starfandi eitt löggilt ættleiðingarfélag, Íslensk ættleiðing, en sótt hefur verið um löggildingu fyrir annað félag, Alþjóðlega ættleiðingu. Sú beiðni er nú til meðferðar í ráðuneytinu. 

Ættleiðingar á börnum milli landa eiga samkvæmt íslenskum lögum að fara fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Aðeins í sérstökum undantekningartilvikum má heimila ættleiðingu á barni frá útlöndum án milligöngu slíks félags. Í öllum tilvikum verða væntanlegir kjörforeldrar að fá útgefið sérstakt forsamþykki til ættleiðingar frá sýslumanni. 

Samkvæmt lögum um ættleiðingar þarf að tiltaka í löggildingarskjali til hvaða ríkis eða ríkja hún taki en ættleiðingarfélag má aðeins starfa í öðru Haagsamningsríki ef stjórnvöld beggja ríka hafa heimilað það.   

Ísland er aðili að Haagsamningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 og fer um ættleiðingar á erlendum börnum samkvæmt meginreglum hans og ákvæðum laga um ættleiðingar.

Ættleiðingar á börnum milli landa byggja á samstarfi yfirvalda í viðkomandi ríkjum. Upprunaríkin, þ.e. ríkin sem börnin koma frá, hafa öll ákveðnar reglur um skilyrði sem væntanlegir kjörforeldrar verða að uppfylla og það eru upprunaríkin sem velja kjörforeldra fyrir tiltekið barn sem bíður nýrrar fjölskyldu.  

Samkvæmt íslenskum lögum geta hjón, einstaklingar í staðfestri samvist eða einstaklingar í óvígðri sambúð ættleitt barn saman. Einnig má leyfa einhleypum einstaklingum að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á. Öll samstarfsríki Íslendinga til þessa hafa þó sett kröfu um að væntanlegir kjörforeldrar, nema í einstaka tilfellum einhleypar konur, séu í hjúskap.


Svæði