RÚV - Úttekt á ættleiðingum í Danmörku
Danska ríkisstjórnin hefur fyrirskipað heildarúttekt á fyrirkomulagi ættleiðinga í landinu eftir að í ljós kom að blekkingum var beitt til að fá eþíópíska foreldra til að láta börn sín frá sér. Málið minnir um margt á hneyksli sem upp kom í Tsjad árið 2007.
Stjórnvöld í Danmörku stöðvuðu fyrir helgi allar ættleiðingar frá Eþíópíu á vegum DanAdopt, annarra stærstu ættleiðingarsamtaka landsins. Ástæðan er sú að í ljós hefur komið að foreldrar hafi verið blekktir eða beittir óeðlilegum þrýstingi til að láta börn sín frá sér.
Í nokkrum tilfellum voru dánarvottorð fölsuð til að gefa til kynna að börn, sem í raun og veru ættu foreldra, væru munaðarlaus. Eftir að hafa fundað með yfirmönnum helstu félagsmálastofnana landsins tilkynnti danski félagsmálaráðherrann að heildarúttekt yrði gerð á fyrirkomulagi ættleiðinga í landinu.
Danska ættleiðingarhneykslið vekur óneitanlega upp hugrenningatengsl við mál sem upp kom árið 2007. Þá voru fulltrúar franskra hjálparsamtaka stöðvaðir við að flytja 103 börn frá Afríkuríkinu Tsjad. Fullyrt var að börnin væru munaðarlaus og kæmu frá Darfur-héraði í Súdan en í raun höfðu þau verið lokkuð frá foreldrum sínum í Tsjad. Nokkrir starfsmenn samtakanna voru dæmdir í fangelsi vegna málsins en þeim voru síðar gefnar upp sakir.