Fréttir

Ættleiðingar frá hamfarasvæðunum

Skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar hafa að undanförnu borist margar fyrirspurnir frá fólki sem vill kanna möguleika á ættleiðingum frá hamfarasvæðunum í Asíu.

Það mun taka viðkomandi stjórnvöld langan tíma að finna fjölskyldur barnanna. Ef börnin reynast munaðarlaus þarf að leita að fjarskyldum ættingjum eða vinum fjölskyldunnar sem gætu tekið við forsjá barnanna. Stjórnvöld landanna hafa lýst því yfir að börn af flóðasvæðunum verði ekki ættleidd fyrr en nokkur tími hefur liðið, ef ekki finnast skyldmenni sem geta tekið við þeim. Á Indlandi hefur nú verið komið upp nýjum barnaheimilum til að taka við börnum sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Indónesísk stjórnvöld bönnuðu ættleiðingar úr landi árið 1983 og þurfa útlendingar að búa í Indónesíu í 3 ár áður en þeir geta ættleitt þar. Ættleiðingum frá Sri Lanka fækkaði mjög fyrir 1990 því þarlend stjórnvöld vildu ekki að landið yrði þekkt fyrir að geta ekki séð um börnin sín. Ættleiðingar frá Tælandi eru ekki margar á ári miðað við fólksfjölda og sama má segja um Indland.
Fagfólk hefur einnig bent á að þau börn sem lent hafa í skelfilegri lífsreynslu eins og hamförunum séu of viðkvæm til að hægt sé að leggja á þau að flytjast til nýs lands, taka upp nýtt tungumál og allar aðrar breytingar sem fylgja ættleiðingu til annarra landa.

Því eru ekki líkur á að ættleiðingum frá þessum löndum fjölgi á næstunni þrátt fyrir erfitt ástand. Á Íslandi búa börn og ungmenni sem ættleidd hafa verið frá Indónesíu, Sri Lanka, Indlandi og Tælandi. Við, fjölskyldur þeirra, stöndum í mikilli þakkarskuld við stjórnvöld sem heimiluðu okkur að eignast þessi óskabörn.

Þegar um stríðsátök er að ræða er miðað við að eftir að friður kemst á líði um 2 ár þar til óhætt sé að finna nýjar fjölskyldur fyrir börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar. Hvort svo langur tími líður núna er ekki ljóst en ÍÆ mun fylgjast með þróun mála.

Þeir sem vilja aðstoða ættu að hafa samband við hjálparstofnanir, svo sem Rauða krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Unicef, ABC hjálparstarf og SOS barnaþorpin. Sem stendur koma peningagjafir að mestum notum fyrir þá sem lentu í þessum hræðilegu hamförum.


Svæði