Að koma heim með barnið sitt er mikil upplifun og stór stund. Tíminn fyrir og eftir ættleiðingu er bæði langur og krefjandi, en auðvitað gefandi þegar barnið er komið. Tilfinningaleg tengsl barns við foreldri sitt skipta öllu máli í lífi þess. Þar er einna mikilvægast næmi foreldris á þarfir barns síns og stöðu þess hverju sinni. Slík hæfni foreldis er sérstaklega mikilvægt fyrir ættleidd börn vegna bakgrunns þeirra sem einkennist oft af tengslarofi og miklu álagi.
Afleiðingarnar geta reynt verulega á nýju foreldrana sem krefst bæði úthalds og þolinmæði. Í þessari stöðu er mikilvægt að vita að foreldrar ættleiddra barna eiga oft erfitt með að leita sér utanaðkomandi hjálpar með barn sitt þegar eitthvað bjátar á. Ástæðan er m.a. matsferlið á foreldrafærni þeirra sem var jú m.a. forsenda fyrir að ættleiðingin gæti átt sér stað.
Það að leita sér hjálpar eykur líkurnar á velferð barns og fjölskyldu. Við erfiðar aðstæður skiptir stuðningur og skilningur náinna ættingja, vina og annarra eins og Íslenskrar ættleiðinga miklu máli. Félagið er ávallt til þjónustu reiðubúið fyrir foreldra og ættleidd börn þeirra, sem koma oft við á skrifstofu félagsins rétt eftir heimkomuna.
Starfsmaður Íslenskrar ættleiðingar hringir auk þess a.m.k. þrisvar í fjölskyldu eftir heimkomuna. Hringt er fyrst eftir viku eftir að komið er heim, síðan eftir mánuð og að lokum eftir þrjá mánuði. Markmiðið er að athuga hvernig gengur hjá fjölskyldunni, bjóða aðstoð ef þurfa þykir og viðhalda góðum tengslum milli foreldra, barna og félags. Íslensk ættleiðing niðurgreiðir þjónustu félagsráðgjafa fyrir félagsmenn sína. Litið er á þjónustuna sem ráðgjöf en ekki meðferð.
Þá eru reglulega haldnir fyrirlestrar tengdir ættleiðingarmálum. Auk þess felst í því mikill stuðningur að hitta aðrar fjölskyldur ættleiddra barna og er Íslensk ættleiðing kjörin vettvangur fyrir slíkt. Við hvetjum þig að hika ekki við að hafa samband við starfsfólk skrifstofu félagsins, sem óþreytandi veita góð ráð þegar eftir þeim er leitað.
Eftirfylgniskýrslur
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast gerð svokallaðra eftirfylgniskýrslna sem eru gerðar eftir að barn hefur verið ættleitt hingað til lands. Um er að ræða upplýsingar um stöðu barns eftir komu til landsins. Eftirfylgniskýrslur eru gerðar að ósk upprunaríkisins og sendar þangað. Mismunandi er eftir upprunaríki hversu margar slíkar skýrslur eru gerðar. Sýslumaður hefur samband við foreldra þegar vinna við slíka skýrslu hefst.