Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Þjónustukannanir
Þjónustukönnun 2016
23.10.2016
Þjónustukönnun Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) var send á alla þá sem höfðu farið í gegnum ættleiðingarferlið og ættleitt á undanförnum tveimur árum. Könnunin innihélt lokaðar spurningar, þar sem þátttakendur þurftu að haka við þann valmöguleika sem átti best við, og einnig var þeim boðið upp á að koma með athugasemdir í opnum spurningum.
Meginmarkmið þjónustukönnunarinnar var að kanna viðhorf til þjónustu og viðmóts starfsmanna Íslenskrar ættleiðingar en einnig var leitast við að kanna ánægju með þjónustu skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík, Barnaverndarnefndar og Barnaspítala Hringsins. Tilgangur könnunarinnar var að kanna ánægjuna í ferlinu öllu, allt frá fyrsta viðtali á skrifstofu ÍÆ og þar til ættleiðingarferlinu lýkur.
Heilt á litið voru flestir ánægðir með þjónustu ÍÆ í öllu ferlinu, eða 87%. Niðurstöður gáfu jafnframt til kynna að þátttakendur voru ánægðir með fyrsta viðtalið hjá ÍÆ (85,7%) og einnig með viðmót starfsólks (88,9%). Slíkt hið sama má segja um viðhorf þeirra til félagsráðgjafa Barnaverndarnefndar en 92% sögðust vera ánægðir. Viðhorf þátttakenda til þjónustu sýslumannsembættisins í Reykjavík var neikvæðara. Fáir þeirra (15,4%) voru ánægðir með viðmót starfsfólks á skrifstofu sýslumanns og enn færri (11,5%) voru ánægðir með afgreiðsluhraða og veittar upplýsingar.
Heilt á litið voru þátttakendur ánægðir með fræðslunámskeiðin „Að taka á móti barni?,“ og „Fyrstu skrefin.“ Um það bil 69 til 71% voru ánægðir með upplýsingarnar sem þeir fengu á námskeiðunum og á bilinu 73-85% sögðu að fræðsla beggja námskeiðanna hafi nýst þeim þegar heim var komið.
Tæp 67% svarenda taldi starfsfólk ÍÆ hafa staðið sig vel í að aðstoða þá við undirbúning ferðarinnar til upprunalandsins og sögðu 70,9% að „Ferðahandbókin“ hefði jafnframt nýst þeim vel. Rétt innan við helmingur (45,8%) taldi sig þó hafa þurft á meiri stuðningi að halda við undirbúning ferðarinnar.
Svarendur voru afar ánægðir með þá þjónustu ÍÆ að bjóða upp á aðstandendafræðslu en allir sem svöruðu spurningunni (19 einstaklingar) voru ánægðir.
Lesa meira
Þjónustukönnun 2014
27.11.2014
Þjónustukönnun Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) var send á alla þá sem höfðu farið í gegnum ættleiðingarferlið og ættleitt á undanförnum tveim árum. Könnunin innihélt lokaðar spurningar, þar sem þátttakendur þurftu að haka við þann valmöguleika sem átti best við, og opnar spurningar.
Meginmarkmið þjónustukönnunarinnar var að kanna viðhorf til þjónustu og viðmóts starfsmanna Íslenskrar ættleiðingar en einnig var leitast við að kanna ánægju með þjónustu skrifstofu sýslumannsins í Reykjavík, barnaverndar og Barnaspítala Hringsins. Tilgangur könnunarinnar var að kanna ánægjuna í ferlinu öllu, allt frá fyrsta viðtali á skrifstofu ÍÆ og þar til ættleiðingarferlinu lýkur.
Niðurstöður gáfu til kynna að flestir voru mjög ánægðir með fyrsta viðtalið hjá ÍÆ og fannst námskeiðið “Er ættleiðing fyrir mig?” nýtast eftir að heim var komið.
Almennt voru þátttakendur ánægðir með tíman sem það tók ÍÆ að afgreiða forsamþykkis umsóknina og þær upplýsingar sem fengust varðandi forsamþykkisferlið. Viðhorf þátttakenda til þjónustu sýslumannsembættisins í Reykjavík var neikvæðara. Þátttakendur voru almennt óánægðir með tíman sem það tók skrifstofu sýslumanns að afgreiða umsóknina og óánægðari með þær upplýsingar sem fengust varðandi forsamþykkisferlið.
Þegar spurt var um ánægju með viðmót starfsmanna ÍÆ, sýslumanns og barnaverndar virðast flestir vera ánægðastir með viðmót starfsmanna skrifstofu ÍÆ.
Áður en farið var til upprunalandsins og forsamþykki hafði fengist hafði lítill hluti þátttakenda nýtt sér þjónustu Barnaspítalans og voru allir ánægðir eða mjög ánægðir með það viðmót sem þeir höfðu fengið þar.
Flestir sem svöruðu voru einnig ánægðir með námskeiðið “Fyrstu skrefin” og meirihluti sagði að Ferðahandbókin hefði nýst sér vel.
Þegar kom að undirbúningi fyrir ferðina til upprunalandsins sagðist minnihluti þátttakenda hafa kosið meiri undirbúning vegna ferðarinnar. Öllum fannst þeir vel eða mjög vel upplýstir um umsóknarferlið til upprunalandsins og það sama átti við um ánægju með upplýsingar sem fengust frá starfsfólki ÍÆ varðandi undirbúning ferðarinnar.
Eftir að heim var komið þurfa allir að hitta lækni á Barnaspítala Hringsins a.m.k. einu sinni. Allir sem svöruðu voru mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu þar, nema einn sem var ánægður. Þátttakendur voru einnig almennt ánægðir með viðmót félagsráðgjafa sem sá um eftirfylgni.
Nánast allir þátttakendur sögðust vera ánægðir eða mjög ánægðir með þá þjónustu sem þeir fengu frá starfsfólki ÍÆ í öllu ferlinu, engin var óánægður.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.000 krónur fyrir einstakling.