Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Fræðigreinar
Yfirlýsing frá NAC
01.11.2023
Eftir norræna ættleiðingarráðstefnu sem haldin var á Íslandi 15.september 2023 hefur verið stjórn Nordic Adoption Council sent út yfirlýsingu.
Lesa meira
Hlaðvarpið
29.09.2023
"Allt um ættleiðingar" er hlaðvarp um allt sem tengist ættleiðingum. Selma Hafsteinsdóttir móðir ættleidds drengs og meðlimur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar fór af stað í upphafi árs með hlaðvarpið, og hefur Selma fengið marga til sín. Sumir segja frá sinni persónulegu reynslu af ættleiðingum, bæði foreldrar og uppkomnir ættleiddir.
Lesa meira
„Mamma, ég vildi að mamma mín og pabbi á Indlandi gætu komið í afmælið mitt“ : hversu mikilvæg er þekking ættleiddra barna á upprunamenningu sinni. Höfundur Lena Gunnlaugsdóttir
11.09.2015
Nú á dögum heyra ættleiðingar innanlands á Íslandi nánast sögunni til og eru ættleiðingar á milli landa sífellt algengari. Því fylgir mikill munur upprunamenningar ættleiddra barna og foreldra þeirra en þekking á henni getur skipt sköpum þegar kemur að sjálfsmynd barna. Í ritgerð minni leita ég svara við því hversu mikilvæg þekking ættleiddra barna er á upprunamenningu sinni. Í henni er fjallað um sögulega sýn og hugmyndafræði ættleiðinga almennt á Vesturlöndum sem og á Íslandi og tengslamyndun ættleiddra barna við foreldra og aðra sem þeim tengjast. Aðalkaflinn er um sjálfsmynd ættleiddra barna, hlutverk foreldra og leikskóla í að fræða ættleidd börn um uppruna sinn, mismunandi viðhorf foreldra til fræðslunnar og loks hvert fólk getur leitað sér upplýsinga um málefnið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að opin umræða heima fyrir sem og annars staðar efli sjálfstraust ættleiddra barna sem gerir þeim kleift að takast betur á við þá fordóma og misrétti sem þau kunna að mæta.
Lesa meira
„...ættleidd börn hafa með sér auka ferðatösku í gegnum lífið" : þjónustuþörf ættleiddra barna við upphaf grunnskóla. Höfundur Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir
24.06.2014
Markmið rannsóknarinnar var að kanna þjónustuþörf barna sem ættleidd eru erlendis frá til Íslands þegar þau hefja grunnskóla og hverjar hugsanlegar sértækar þarfir þeirra eru. Rannsóknin var unnin með það að markmiði að auka almenna þekkingu á málefnum ættleiddra barna í grunnskólum á Íslandi. Rannsóknin fór fram á tímabilinu júní 2012 til október 2012 og fylgir eigindlegum rannsóknarhefðum: Viðtöl voru tekin við sex foreldrapör sem samtals eiga tólf ættleidd börn. Jafnframt voru tekin viðtöl við sex kennara sem allir höfðu reynslu af móttöku ættleiddra barna erlendis frá í bekkinn sinn á fyrstu árum grunnskólans. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að reynsla og upplifun fyrir ættleiðingu geta haft áhrif á líf ættleiddra barna í langan tíma eftir ættleiðingu.
Lesa meira
Biðin og þráin eftir barninu : reynsla fólks af ófrjósemi og ættleiðingu. Höfundur Guðný Birna Guðmundsdóttir
30.05.2014
Bakgrunnur rannsóknar: Ófrjósemi hefur áhrif á milljónir manna um heim allan. Það teljast mannréttindi fyrir barn að alast upp hjá fjölskyldu en á sama tíma eru það ekki talin mannréttindi að verða foreldri. Einungis eitt ættleiðingarfélag er til á Íslandi og hefur það í tímans rás fengið takmörkuð fjárframlög frá hinu opinbera miðað við umfang starfseminnar.
Tilgangur rannsóknar: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu fólks af ófrjósemi og ættleiðingu.
Rannsóknaraðferð: Stuðst var við fyrirbærafræðilega rannsóknaraðferð. Viðtölin voru 13 í heildina, en þátttakendur voru 10 hjón eða einstaklingar, samtals 13 manns, á aldrinum 29-53 ára. Allir þátttakendur áttu það sameiginlegt að hafa upplifað ófrjósemi og ættleiðingu eða vera í ferli að bíða eftir barni til ættleiðingar. Rannsóknarspurningin var: Hver er reynsla fólks af ófrjósemi og ættleiðingu?
Helstu niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknar voru að ófrjósemi er átakanlegt og erfitt ástand andlega, líkamlega og fjárhagslega.
Ófrjósemismeðferðir reyndust þátttakendum mjög erfiðar og jafnvel erfiðari en ættleiðingin og biðin eftir barninu. Depurð var þekkt hjá mörgum þátttakendum bæði vegna ófrjósemi og barnleysis. Forsamþykkisferlið á Íslandi er of langt, of dýrt og oft á tíðum ósanngjarnt. Biðtími eftir barni til ættleiðingar erlendis frá er mjög langur og stóru ættleiðingarlöndin eru að draga úr ættleiðingum úr landi. Flestir þátttakendur treystu sér ekki til að ættleiða íslenskt barn þar sem að þær ættleiðingar eru opnar. Þátttakendum fannst stuðning vanta eftir að heim var komið bæði frá Félagi Íslenskrar ættleiðingar og frá heilbrigðisþjónustunni.
Ályktun: Rannsóknin sýnir að reynsla af ófrjósemi og ættleiðingu getur tekið mjög á þá sem við á. Mikill kostnaður og margra ára bið einkennir það ferli sem bíður þeirra sem ættleiða barn í dag. Væntanlegir kjörforeldrar þurfa aukinn stuðning og efla þarf þekkingu í samfélaginu varðandi ófrjósemi og ættleiðingar. Styrkja þarf þátt heilbrigðisþjónustunnar varðandi þjónustu við ættleidd börn.
Lykilhugtök: Ófrjósemi, ættleiðingar, biðtími, kjörforeldrar, kjörbarn.
Lesa meira
Hver er ég, hvaðan kem ég? Um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Höfundur Snjólaug Aðalgeirsdóttir
07.05.2014
Fjölskylduformið hefur breyst í gegnum tíðina og í kjölfarið hafa barneignir og hvernig þeim er háttað breyst að sama skapi. Börn geta eignast stjúpforeldra, kjörforeldra, eru tekin í fóstur og verið getin með tæknifrjóvgun. Lagaleg áhrif skipta meira máli þegar um nýja tækni og ættleiðingar er að ræða og oft þarf að skera úr um hver er faðir og móðir barnsins. Með tilkomu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálans, hefur verið einblínt á að börn njóti þeirra réttindi að þekkja uppruna sinn, geti fengið umönnun beggja foreldra og að ávallt sé hugsað um hvað barninu er fyrir bestu. Íslensk barnalög styðjast við Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og kemur þar fram að börn eigi að þekkja báða foreldra sína en þó eru önnur ákvæði í lögum um tæknifrjóvgun sem segja að gjafi geti notið nafnleyndar ef hann óskar þess, sem gerir það að verkum að barn getur ekki alltaf leitað uppruna síns.
Svíþjóð, Bretland, Austurríki, Sviss, Þýskaland, Holland, Nýja Sjáland og Ástralía eru dæmi um lönd sem hafa aflétt nafnleynd á gjöfum og því geta börn alltaf leitað uppruna síns ef þau óska þess. Rannsóknir sýna að börn vilja þekkja uppruna sinn því þau telja mikilvægt að þekkja hvar ræturnar liggja, vita hvort þau eigi systkini, og hver heilsufarssaga gjafa er til að þau þekki sig betur og geti skilgreint sig á réttan hátt. Þetta telja þau stuðla að betra lífi en fara ekki endilega fram á að umgangast líffræðilega foreldra. Þetta á einnig við börn sem ættleidd eru.
Lesa meira
Því ætti það ekki að gerast aftur? Sorgarferli ættleiddra einstaklinga. Höfundur Kristín Skjaldardóttir
02.05.2014
Sorgarferli ættleiddra einstaklinga hefur lítt verið rannsakað og fátt er um rannsóknarrit á akademískum vettvangi þar sem skýrar vísbendingar er að finna um það hvað valdi slíku sorgarferli. Til dæmis er ekki ljóst hve hátt hlutfall ættleiddra einstaklinga gengur í gegnum sorgarferli eða hvað skilur á milli þeirra sem glíma við það og þeirra sem gera það ekki. Í þessari ritgerð er fjallað um þetta ferli og hvernig foreldrar og félagsráðgjafar geti lagt þeim lið sem finna sig knúna til að vinna úr því. Fjallað er um hugtökin áfall, sorg, sorgarferli og tengslarof í tengslum við ættleiðingu barna og hvaða áhrif hún hefur á líf þessara einstaklinga. Því næst er lýst þeim aðferðum sem henta til að aðstoða ættleidda einstaklinga, börn og fullorðna, í gegnum sorgarferli sitt, og eru á færi foreldra og félagsráðgjafa að vinna með.
Niðurstöður leiða í ljós að ekki ganga allir ættleiddir einstaklingar í gegnum sorgarferli vegna ættleiðingar sinnar heldur líta þeir jákvæðum augum á hana og telja hana af hinu góða. Þeir einstaklingar sem berjast við sorg vegna ættleiðingar velta því einkum fyrir sér af hverju líffræðilegir foreldrar gátu ekki átt þá og hvernig þeir foreldrar séu að upplagi og uppruna. Niðurstöður sýna einnig mikilvægi þess að kjörforeldrar tjái sig opinskátt um ættleiðinguna, að þeir séu tilbúnir til að ræða hana við börn sín og að börnin skynji vilja kjörforeldra sinna til að ræða þessi mál við þau. Loks kemur fram að félagsráðgjafar, sem hafa tileinkað sér þekkingu á sorg og sorgarferli í fjölskylduráðgjöf, eru vel til þess fallnir að veita ættleiddum einstaklingum, börnum og fullorðnum, aðstoð leiti þau eftir henni.
Lesa meira
„... ég er fædd í Kína en á heima á Íslandi og ég er ættleidd og ég er stolt af því ...“ Tvímenningarlegur heimur ættleiddra barna. Höfundur Jórunn Elídóttir
10.02.2014
Í þessari grein og rannsókn sem hún segir frá er athygli beint að tvímenningarlegri félags- mótun ættleiddra barna og tengslum þeirra við upprunalandið en um það efni hefur lítið verið fjallað hér á landi. Höfundur á telpu ættleidda frá Kína og áhugi á þessu málefni vaknaði í kjölfar ættleiðingar, þegar takast þurfti á við margvíslegar spurningar, sjónarmið og uppeldislega þætti í daglegu lífi, en ætla má að umfjöllun um tvímenningarlega félagsmótun eigi erindi við alla sem standa í svipuðum sporum. Fræðileg umræða greinarinnar tekur mið af því og snertir nokkra af þeim þáttum sem hafa verið rannsakaðir undanfarin ár og varða þennan málaflokk. Jafnframt eru kynntar niðurstöður rannsóknar þar sem raf- ræn spurningakönnun var send til tíu telpna á Íslandi sem allar voru ættleiddar frá Kína. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í viðhorf telpnanna til tengsla við Kína og upp- runans þar og reynslu þeirra af því að vera ættleiddar þaðan. Í rannsókninni er sjónum beint að litlum hópi telpna en telja verður líklegt að margt af því sem hún leiðir í ljós um telpurnar tíu geti einnig átt við um önnur ættleidd börn og fjölskyldur þeirra. Ættleiðingar milli landa hafa aukist mikið síðastliðinn áratug og hópur ættleiddra barna er nokkuð fjölmennur í mörgum löndum (Tessler, Tuan og Shiao, 2011). Til Íslands hafa verið ætt- leidd yfir 600 börn. Byrjað var að ættleiða börn frá Kína árið 2002 og í nóvember 2013 hafði 171 barn verið ættleitt þaðan. Árlega hafa að jafnaði verið ættleidd til landsins um fimmtán börn af erlendum uppruna en ættleiðingum hefur fækkað síðustu ár. Í nóvember 2013 höfðu átta börn verið ættleidd á því ári með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar; fjögur frá Tékklandi, eitt frá Tógo og þrjú frá Kína (Hagstofa Íslands 2008; Íslensk ættleiðing, vefpóstur, 22.11. 2013).
Lesa meira
Kjörfjölskyldan - Ættleidd börn og foreldrar þeirra. Höfundur Ester Gunnarsdóttir
01.06.2013
Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf
Umsjónarmaður: Anni G. Haugen
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Júní 2013
Útdráttur
Heimildaritgerð þessi byggir umfjöllun sína á þeim pörum sem glíma við ófrjósemi og
ákvörðun þeirra um að ættleiða barn. Hugtakið ættleiðing er skoðað út frá sjónarhorni
fjölskyldunnar þar sem áhersla er lögð á kjörbarnið.
Í okkar samfélagi er litið á barneignir sem ákveðið samfélagslegt viðmið. Á Íslandi er
viðhorf til barneigna jákvætt en því miður eiga ekki öll pör kost á að eignast barn án aðstoðar
vegna ófrjósemis. Sú staðreynd getur verið mikið áfall fyrir pör í fjölskyldu hugleiðingum.
Sum pör leggja mikið á sig til að stofna til fjölskyldu og ganga oft í gegnum mikla erfiðleika til
þess að verða foreldrar en þau úrræði sem almennt eru í boði vegna ófrjósemis eru
glasafrjóvgun, staðgöngumæðrun eða ættleiðing. Í því sambandi er yfirleitt litið á ættleiðingu
sem lokaúrræði eftir að aðrar leiðir hafa verið reyndar án árangurs. Rannsóknir hafa sýnt að
ættleiðingarferlið er langt, andlega erfitt og kostnaðarsamt fyrir væntanlega kjörforeldra,
ættleiðing er því ekki á færi allra. Pör sem taka þá ákvörðun að ættleiða sjá í flestum tilfellum
ekki eftir því þegar barnið er komið heim, en þrátt fyrir að ættleiðingarferlið sjálft sé
yfirstaðið er ekki þar með sagt að allri vinnu sé lokið. Við tekur aðlögun bæði foreldra og
barns ásamt uppeldinu sjálfu. Þeir foreldrar sem taka ákvörðun um að ættleiða þurfa að
undirbúa sig andlega fyrir komu barnsins og væntra þarfa þess. Því er mjög mikilvægt að pör
sem ætla sér í barneignir sama eftir hvaða formi sem það er taki ákvörðunina í sameiningu.
Helstu niðurstöður ritgerðarinnar sýndu að ferlið sem fylgir ættleiðingu reynir í
flestum tilfellum mikið á andlega líðan væntanlegra kjörforeldra en rannsóknir sýna að
tíminn, orkan og allt erfiðið sem fylgir ættleiðingarferlinu hafi verið vel þess virði þegar upp
er staðið. Rannsóknir sýndu einnig að flest þeirra barna sem ættleidd eru milli landa ná að
þroskast vel bæði félagslega og andlega. Stærsti áhrifaþátturinn er aldur barns við
ættleiðingu, en því yngra sem barnið er við ættleiðingu þess minni líkur eru á vandamálum.
Fáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar hér á landi í tengslum við ættleiðingar og því eru
niðurstöður ritgerðarinnar að mestu byggðar á erlendum rannsóknum.
Lesa meira
Leikskólinn og ættleidd börn. Höfundur Diljá Agnarsdóttir
01.06.2013
Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði
Leiðsögukennari: Hanna Ragnarsdóttir
Kennaradeild
Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Júní 2013
Útdráttur
Í þessari ritgerð er fjallað um leikskóladvöl barna sem ættleidd hafa verið til Íslands erlendis frá og hvaða þætti í aðlögun og starfi leikskóla beri að leggja áherslu á. Þá er skoðað hvaða gildi barnabókmennir geta haft í leikskólastarfinu fyrir þennan fjölbreytta hóp barna. Margar rannsóknir hafa verið gerðar um hagi og þroska ættleiddra barna og hér er reynt að draga saman einhverja af þeim fjölmörgu þáttum er lúta að fyrstu kynnum barnanna að skólakerfinu eftir ættleiðingu. Farið er yfir hvað felst í ættleiðingu barna á milli landa og hvaða stuðningur er í boði fyrir kjörforeldra fyrir og eftir ættleiðinguna. Góð tengslamyndun barnsins við kjörforeldra og samstarf foreldra og leikskólakennara er mikilvægur grunnur að farsælli aðlögun barnsins og foreldra þess að leikskólanum. Börnin eru misjafnlega stödd í þroska við ættleiðinguna en búa yfir mikilli aðlögunarhæfni og eru fljót að ná jafnöldrum sínum í málþroska sem og almennum þroska. Barnabækur eru góð leið til að styðja við þroska barnanna og ættu leikskólar að hafa bókaskost sinn fjölbreyttan og gera ættleiðingarferlinu skil með vönduðum bókum um málefnið.
Leikskólar á Íslandi mættu vera betur í stakk búnir til að huga sérstaklega að málefnum ættleiddra barna t.d. með útgáfu á fræðsluefni fyrir kennara.
Lesa meira
Hvernig vegnar ættleiddum börnum af erlendum uppruna á mið- og efsta stigi í grunnskóla? Höfundur Sigríður Ingvarsdóttir
28.02.2013
Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á hvernig börnum sem ættleidd hafa verið erlendis frá og dvalið hafa þar á stofnun, vegnar námslega og félagslega á miðstigi og efsta stigi grunnskólans. Rannsóknin var eigindleg viðtalsrannsókn sem byggði á ellefu hálfopnum viðtölum við sjö umsjónarkennara og þrjá sérkennara á miðstigi og efsta stigi í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Viðtölin voru tekin í apríl–júní 2012. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ákveðinn hópur ættleiddra barna af erlendum uppruna sem dvalið hafa á stofnun, er í aukinni hættu að eiga við námserfiðleika, athyglisbrest með eða án ofvirkni og/eða málþroskavanda að stríða. Munurinn á málþroska ættleiddu barnanna í rannsókninni var mikill og spannaði allt frá góðum málþroska til alvarlegs málþroskavanda. Í niðurstöðum kemur fram að meirihluti nemenda er í góðum tengslum við foreldra, kennara og bekkjarfélaga að mati viðmælenda en það stangast á við fjölmargar erlendar rannsóknir sem benda til hins gagnstæða. Þótt ákveðinn hópur ættleiddra barna sem dvalið hafa á stofnun, sé í aukinni áhættu varðandi náms- og hegðunarerfiðleika sem og frávika í málþroska þá eiga þessi börn, að mati viðmælenda í rannsókninni, oft sterkara tilfinningalegt bakland í foreldrum en mörg önnur börn. Miklar líkur eru á því að þessi öflugi stuðningur foreldra vinni gegn áhættuþáttum og getur orðið hornsteinn að velgengni barnanna bæði félagslega og tilfinningalega. Niðurstöður sýna jafnframt að efla þarf verulega þekkingu og skilning skólafólks á þeim erfiðleikum sem mörg börn, ættleidd erlendis frá, kunna að glíma við.
Lesa meira
Alþjóðlegar ættleiðingar og siðferðileg álitamál. Höfundur Telma Hlín Helgadóttir
01.02.2013
Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf
Umsjónarmaður: Anni G. Haugen
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Febrúar 2013
Útdráttur
Í þessari heimildarritgerð verður fjallað um alþjóðlegar ættleiðingar og ástæður þess að
börnum eru fundin heimili í öðru landi en þau fæðast í og hvaða skýringar liggja þar að baki.
Einnig verður gerð grein fyrir siðferðilegum álitamálum sem tengjast alþjóðlegum
ættleiðingum.
Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að meginástæður fyrir alþjóðlegri ættleiðingu barna
eru fjölþættar en þær helstu eru fátækt, ríkjandi óskir og viðhorf í upprunaríkjum um að
eignast sveinbörn, ójöfnuður á milli uppruna- og viðtökuríkja og mismunun einstaklinga
vegna kyns eða stöðu. Börn eru einnig gefin til ættleiðinga af kynforeldrum sem vilja tryggja
börnum sínum möguleika á betri framtíð en þau sjá fram á að geta boðið þeim sjálf. Helstu
siðferðilegu álitamál er tengjast alþjóðlegum ættleiðingum er að stór hluti þeirra barna sem
eru alþjóðlega ættleidd eiga foreldra á lífi og hefur verið hafnað við fæðingu vegna kynferðis
eða stöðu. Upp hafa komið mál þar sem viðskiptalegir hagsmunir virðast hafa verið látnir
ráða för og ekki farið að lögum og alþjóðasamningum. Alþjóðlegar ættleiðingar hafa einnig
verið bitbein á vettvangi alþjóðastjórnmála. Þau siðferðilegu álitamál sem upp hafa komið
sýna fram á mikilvægi þess að vel og faglega sé staðið að alþjóðlegum ættleiðingum og að
hagsmunir barna skulu hafðir í forgrunni.
Lykilorð: Alþjóðlegar ættleiðingar, börn, siðferði, fátækt, mismunun, félagslegt réttlæti
Lesa meira
Kjörfjölskyldur ættleiddra barna af erlendum uppruna á Íslandi : undirbúningur, fræðsla og stuðningur. Höfundur Snjólaug Elín Sigurðardóttir
17.12.2012
Í þessari ritgerð er sagt frá rannsókn sem fjallar um kjörfjölskyldur ættleiddra barna af erlendum uppruna á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla þekkingar á reynslu og aðstæðum þessara fjölskyldna til að auka skilning á stöðu hópsins í íslensku samfélagi. Áhersla var lögð á að kanna reynslu kjörforeldra af því að ættleiða barn af erlendum uppruna og að skoða sambandið milli undirbúnings, fræðslu og stuðnings að ættleiðingu lokinni og líðan fjölskyldna. Stefnumótun íslenskra stjórnvalda varðandi ættleiðingar var skoðuð, sem og fyrirkomulag undirbúningsfræðslu fyrir verðandi kjörforeldra og eftirfylgd og stuðningur að ættleiðingu lokinni. Gagna var aflað með viðtölum við kjörforeldra og fagaðila. Fræðilegur grundvöllur var sóttur í rannsóknir og rit um kjörfjölskyldur, kjörforeldra og kjörbörn, undirbúningsfræðslu fyrir væntanlega kjörforeldra og þörf kjörfjölskyldna fyrir eftirfylgd, ráðgjöf og stuðningi, svo kallaða PAS-þörf. Helstu niðurstöður eru að kjörfjölskyldur á Íslandi hafa, líkt og kjörfjölskyldur í öðrum löndum, ákveðna sérstöðu meðal fjölskyldna og lýtur sérstaðan að tilurð fjölskyldnanna, reynslu og fortíð kjörforeldra og kjörbarna sem og hið mikilvæga en jafnframt krefjandi uppeldis- og umönnunarverkefni kjörforeldranna. Sérstaðan hefur í för með sér þörf fyrir sértæk úrræði af hálfu samfélagsins í formi sértækrar undirbúnings- og uppeldisfræðslu og stuðningsþjónustu. Undirbúningsfræðsla fyrir væntanlega kjörforeldra uppfyllir ekki fræðsluþörf allra foreldra og þörf er á áframhaldandi þróun og útfærslu hennar og annarrar fræðslu. Skipulögð eftirfylgd eftir ættleiðingu sambærileg þeirri eftirfylgd sem aðrir íbúar landsins hafa aðgang að eftir fæðingu barns er ekki til og annar stuðningur er ófullnægjandi í núverandi mynd og uppfyllir ekki væntingar og þarfir foreldranna sem þátt tóku í þessari rannsókn. Sumir þeirra lýstu því að erfitt væri að finna úrræði við hæfi fyrir börnin og að þeir hafi mætt skilningsleysi fagfólks á sérþörfum fjölskyldunnar sem tengdust ættleiðingarreynslunni. Sérhæfð fræðsla um kjörfjölskyldur er lítil í grunn- og símenntun þeirra faghópa sem sinna þeim í starfi, til dæmis leikskólakennara, grunnskólakennara og faghópa innan félags- og heilbrigðiskerfis. Rannsóknir sýna skýrt fram á mikilvægi aðgengilegra stuðningsúrræða fyrir velferð kjörfjölskyldna bæði í ættleiðingarferlinu sjálfu sem og eftir ættleiðingu. Lög og reglugerðir kveða á um að ríkið beri ábyrgð á að undirbúa væntanlega ættleiðendur á fullnægjandi hátt fyrir ættleiðingu og að styðja við fjölskyldurnar að ættleiðingu lokinni með viðeigandi eftirfylgd og þjónustu. Hér virðast því vera um fjölskyldur að ræða sem fara á mis við þjónustu og stuðning sem samfélagið ber ábyrgð á að veita þeim.
Lykilhugtök: Ættleiðing, kjörfjölskylda, kjörforeldrar, kjörbarn, ættleidd börn, uppeldi ættleiddra barna, undirbúningur væntanlegra kjörforeldra, ættleiðingarfræðsla, eftirfylgd, ráðgjöf og stuðningur eftir ættleiðingu, þjónusta eftir ættleiðingu.
en
This thesis describes a study about adoptive families of internationally adopted children in Iceland. The purpose of the study was to gather information about the experiences and cirumstances of these families in order to understand the group‘s status in Icelandic society. The main focus was on investigating the adoption experience of adoptive parents and the relationship between preparedness before adoption, adoption education, post-adoption support and the well-being of these families. Various important aspects were investigated: Icelandic adoption legislation, the mandatory adoption preparation course for prospective adopters and available post-adoption support. Data was gathered through interviews with adoptive parents and professionals. The theoretical basis of the study was founded on research and writings about adoptive families, adoptive parents, adopted children, preparational education for prospective adopters and about adoptive families' need for follow-up, counseling and post-adoption support. The main findings were that adoptive families in Iceland have, like adoptive families in other countries, a uniqueness pertaining to the way the families are created, the past experiences of both the adoptive parents and the adopted child and the parent's important but challenging task of raising and caring for the adopted child. This uniqueness leads to a need for specific resources in the form of specific adoptive parental education and adoption support services. The current adoptive parent preparational education does not fulfill all parents' educational needs and there is a need for continued development and further customization of the current adoptive educational curriculum and other educational resources. There is no organized follow-up after adoption comparable with the health-service provided to other families in the country after child-birth. Other support service is unsatisfactory and did not satisfy the expectations and needs of those parents participating in this study. Some parents described difficulties in finding appropriate resources for their child and reported a lack of understanding among professionals regarding the family's specific needs pertaining to the adoption experience. Specialized adoption education is scarse in undergraduate- and continuing education of professionals serving adoptive families, e.g. kindergarten teachers, elementary school teachers and professionals within social- and healthcare. Research clearly shows the importance of readily available resources of support for the well-being of adoptive families both through the adoption process as well as post-adoption. Legislation and regulation stipulate that the state is responsible for preparing prospective adopters in a satisfactory manner prior to adoption and to support the adoptive families after adoption with appropriate follow-up and post-adoption support-service. These families therefore, seem to be missing out on service and support that society is responsible for providing them.
Key words: Adoption, adoptive family, adoptive parents, adopted children, adoptive parenting, preparation for prospective adoptive parents, adoption education, follow-up, counseling, post-adoption support, post-adoption services (PAS).
Lesa meira
Kjörforeldrar á Íslandi - einkenni þunglyndis og stuðningur í kjölfar alþjóðlegra ættleiðinga. Höfundur Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir
01.12.2012
Lokaverkefni til MA-gráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda
Leiðbeinandi: Hrefna Ólafsdóttir
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Desember 2012
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort einkenni þunglyndis væru merkjanleg meðal kjörforeldra sem ættleitt hafa börn milli landa og tíðni þeirra einkenna. Í erlendum rannsóknum hafa slík einkenni verið skilgreind sem ættleiðingarþunglyndi. Annað markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig þátttakendur skilgreindu þörf sína fyrir þjónustu fagaðila eða annarra um stuðning og ráðgjöf í kjölfar ættleiðinga. Rannsóknaniðurstöður voru settar í samhengi við niðurstöður sambærilegra erlendra rannsókna. Rannsóknin var framkvæmd á haustmánuðum 2012 og var notuð megindleg aðferðafræði. Gagnaöflun fór fram með rafrænum spurningalista sem lagður var fyrir þá kjörforeldra sem ættleitt hafa barn milli landa með milligöngu félagsins Íslensk ættleiðing á árunum 2007-2012 (n=144). Alls svöruðu 79 þátttakendur, 20 karlar og 59 konur og var svarhlutfall 54,9%. Spurningar um bakgrunn og ættleiðinguna voru lagðar fyrir þátttakendur ásamt sjálfsmatskvarða, Patient Health Questionnaire (PHQ-9) sem metur einkenni þunglyndis samkvæmt greiningarviðmiðum DSM-IV-TR. Niðurstöður leiddu í ljós að einkenni þunglyndis voru ekki merkjanleg hjá 81,4% þátttakenda, væg einkenni voru merkjanleg hjá 17,1% þeirra og miðlungs einkenni mældust hjá 1,4% þátttakenda. Enginn þátttakandi mældist með alvarleg eða mjög alvarleg einkenni þunglyndis. Ekki reyndist vera tölfræðilega marktækur munur milli kynjanna. Tíðni einkennanna var sambærileg tíðni í erlendum rannsóknum. Þátttakendur leituðu eftir aðstoð til maka og annarra kjörforeldra í mun meira mæli en til fagaðila. Ástæður þess að þátttakendur leituðu til fagaðila var vanlíðan kjörbarns, tengslamyndun eða vanlíðan annarra fjölskyldumeðlima. Niðurstöður sýndu jafnframt að þátttakendur hefðu kosið þjónustu fagaðila í mun meira mæli en þeir fengu.
Lesa meira
Aðgengi að og upplifun hreyfihamlaðs fólks af foreldrahlutverkinu. Höfundur Aðalbjörg Gunnarsdóttir
12.09.2012
Í þessari meistararitgerð er gerð grein fyrir upplifun hreyfihamlaðra foreldra af foreldrahlutverkinu og aðgengi hreyfihamlaðs fólks að foreldrahlutverkinu í þeim tilfellum þar sem hreyfihamlaðar konur geta ekki gengið í gegnum meðgöngu og fæðingu vegna skerðingar sinnar. Sérstök áhersla er á aðgengi að foreldrahlutverkinu í gegnum ættleiðingakerfið og löggjöf sem snýr að ættleiðingu barna erlendis frá. Um eigindlega rannsókn er að ræða sem byggir á greiningu opinberra gagna og opinna viðtala við 11 hreyfihamlaða einstaklinga, átta foreldra og þrjá barnlausa einstaklinga. Þá var tekið viðtal við starfsmann sem vinnur í ættleiðingakerfinu. Helstu niðurstöður sýna að aðgengi hreyfihamlaðs fólks sem ekki getur átt börn að foreldrahlutverkinu í gegnum ættleiðingar er takmarkað. Til að möguleiki þeirra verði meiri, það er að draumur þeirra um barn rætist og að þeir fái tækifæri til að upplifa foreldrahlutverkið þarf að eiga sér stað viðhorfsbreyting í garð hreyfihamlaðs fólks varðandi
Lesa meira
Að sníða sér fjölskyldu eftir viðmiðum samfélagsins - Ættleiðingar á Íslandi. Höfundar Elsa Rós Smáradóttir og Sigrún Alda Sigfúsdóttir
01.02.2012
Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf
Umsjónarkennari: Hrefna Ólafsdóttir
Leiðbeinandi: Margrét Grímsdóttir
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Febrúar 2012
Útdráttur
Í þessari heimildaritgerð, sem er lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla
Íslands, verður tekin til umfjöllunar fjölskyldan í nútímasamfélagi og sú áhersla sem
lögð er á barneignir í íslensku samfélagi. Ættleiðingar eru oft síðasta úrræðið ef
barneignir ganga ekki vandræðalaust fyrir sig og verður fjallað um þær sérstaklega.
Það er óskráð viðmið á Íslandi að parsamböndum fylgi barneignir og áherslan á
barneignir í samfélaginu er í samræmi við það. Það sést meðal annars á því að á Íslandi
hefur fæðingartíðni verið rúmlega tvö börn að meðaltali á ævi hverrar konu en það er
hærra hlutfall en gengur og gerist í Evrópu. Á Íslandi er það yfirleitt litið hornauga
þegar par velur sér barnleysi því það fer í bága við viðmið samfélagsins. Það er þó ekki
öllum ætlað að eignast börn á náttúrulegan hátt og samfélagið lítur í flestum tilvikum
á ófrjósemi sem vandamál sem þurfi að leysa. Því getur myndast álag á par eða
einstaklinga sem standa frammi fyrir því vali að annaðhvort sætta sig við ófrjósemi eða
leita annarra leiða til að eignast barn. Ef sú leið er valin að leita annarra leiða eru
nokkrar úrlausnir í boði fyrir parið eða einstaklinginn. Ættleiðingar eru oft síðasti
kosturinn sem er nýttur. Þegar þar er komið við sögu hefur viðkomandi oft gengið í
gegnum ýmislegt, svo sem tæknifrjóvganir og þá streitu sem þeim fylgir, til að uppfylla
óskina eftir barni. Ættleiðingar eru langt ferli sem reynt getur á einstaklinginn og
kostnaður er mikill. Ættleiðingar eiga að vera verndarúrræði fyrir barn, sumir vilja þó
meina að þær þjóni fremur hagsmunum pars sem þráir að eignast barn.
Félagsráðgjafar geta nýtt menntun sína til að veita pörum og einstaklingum ráðgjöf
vegna erfiðleika tengdum ófrjósemi. Þeir gegna einnig mikilvægu hlutverki við að meta
hæfni verðandi kjörforeldra til að sinna uppeldishlutverkinu.
Lesa meira
Undirbúningur fyrir kjörforeldra - Fyrir og eftir ættleiðingu á erlendu barni. Höfundur Thelma Rós Ólafsdóttir
01.02.2012
Lokaverkefni til BA gráðu í félagsráðgjöf
Umsjónarkennari: Anni G. Haugen
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Febrúar 2012
Útdráttur
Heimildaritgerð þessi fjallar um undirbúning fyrir þá sem óska eftir að sækja um ættleiðingu á
erlendu barni og hvort að stuðningur sé til staðar fyrir kjörforeldra eftir að kjörbarnið kemur til
þeirra. Rannsóknarspurning ritgerðarinnar snýr að því að bera íslensku undirbúningsnámskeiðin sem
í boði eru fyrir íslenska kjörforeldra saman við undirbúningsnámskeið sem eru haldin á
Norðurlöndunum. Fjallað verður um ættleiðingarferlið frá því að ákvörðun um ættleiðingu á erlendu
barni er tekin og hlutverk félagsráðgjafa í því ferli. Við gagnaöflun fyrir ritgerð þessa var notast við
veraldarvefinn, samansafn greina og bækur er tengdust málefninu. Niðurstöður ritgerðarinnar sýndu
fram á að undirbúningsnámskeiðin sem í boði eru fyrir þá sem sækja um ættleiðingu á barni erlendis
frá eru sambærileg þeim námskeiðum sem haldin eru á Norðurlöndunum en aftur á móti er lítið um
stuðing við kjörforeldra sem hafa fengið kjörbarnið til sín eftir að ættleiðing hefur gengið í gegn. Þá
kom einnig fram að börn sem hafa verið ættleidd fá ekki markvissan stuðning og ekki heldur
væntanlegir kjörforeldrar sem eru að bíða eftir barni nema í formi þess að þeir halda sambandi við
aðra umsækjendur sem eru einnig að bíða eftir kjörbarni.
Lesa meira
Ættleiðingar og þjónustuþörf kjörfjölskyldna eftir ættleiðingu. Höfundur Birna Blöndal
22.06.2011
Eftirfarandi ritgerð fjallar um kjörfjölskylduna og þjónustuþörf hennar eftir ættleiðingu. Í því samhengi þarf að skoða þau málefni sem helst tengjast kjörfjölskyldum og því að hvaða leiti þjónustuþörf hennar er frábrugðin þörfinni hjá öðrum fjölskyldum. Sérstaða kjörfjölskyldunnar er mikil og úrræði sem hún þarfnast að sama skapi sértæk. Geðtengsl spila stóran þátt í aðlögun kjörbarna og mörg þeirra þurfa sérstaka aðstoð til þess að þau nái að mynda geðtengsl við nýja fjölskyldu og því ekki hægt að skoða þessi mál án þess að fara í gegnum geðtengslamyndun og hvað getur farið úrskeiðis. Málefni tveggja kjörfjölskyldna eru skoðuð, tekin viðtöl við þær og borin saman sú þjónusta sem þær fengu og framtíðarsýn þeirra og óskir hvað það varðar eftir ættleiðingu.
Í Danmörku var hrundið af stað tilraunverkefni í tengslum við ráðgjöf og stuðning við kjörfjölskyldur eftir heimkomu. Skoðað verður hvernig staðið var að því og hvernig þótti til takast. Hér á Íslandi er nýbúið að vinna stóra og ítarlega skýrslu fyrir dómsmála-og mannréttindaráðuneytið þar sem farið er ofan í saumana á því hvernig staðið er að ættleiðingum á Íslandi. Hér verður aðeins tæpt á þessari skýrslu og þá hvaða þætti er mikilvægt að bæta og breyta. Höfundur tekur saman í lokin, eftir að hafa skoðað alla þessa þætti, hvaða breytingar á þjónustu hann telur að séu nauðsynlegar svo vel sé að þessum málum staðið og kjörfjölskyldan fái tækifæri til þess að njóta þess stuðnings og fræðslu sem hún hefur þörf fyrir.
Lesa meira
Ættleiðingarþunglyndi - vanlíðan kjörforeldra í kjölfar ættleiðingar. Höfundur: Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir
01.06.2011
Lokaverkefni til BA gráðu í félagsráðgjöf
Umsjónarkennari: Anni G. Haugen
Leiðbeinandi: Dóra S. Juliussen
Félagsráðgjafardeild
Félagsvísindasvið Háskóla Íslands
Júní 2011
Útdráttur
Efni þessarar heimildaritgerðar er ættleiðingarþunglyndi og vanlíðan kjörforeldra í kjölfar ættleiðingar á barni erlendis frá. Markmiðið með ritgerðinni er að auka vitund um þessa tegund þunglyndis, einkenni, áhættuþætti og afleiðingar ásamt því að skoða hvað er til ráða. Fjallað er almennt um ættleiðingar, ástæður þeirra og það undirbúningsferli sem á sér stað hér á landi í sambanburði við hin Norðurlöndin áður en barn er ættleitt. Aðlögun kjörbarns að nýju lífi er mikilvæg og þar skipta hlutir eins og tengslamyndun og líðan kjörforeldra máli. Rannsóknir hafa í gegnum tíðina aðallega beinst að aðlögun kjörbarna í kjörfjölskyldum og líðan kjörbarnsins en fáar rannsóknir beina sjónum sínum að líðan kjörforeldra í kjölfar ættleiðingar. Hér á landi hefur engin slík rannsókn verið framkvæmd. Ættleiðingarþunglyndi líkist fæðingarþunglyndi og hefur að einhverju leyti sömu orsök og einkenni. Ættleiðingarþunglyndi getur haft slæmar afleiðingar fyrir kjörbarnið þar sem það hefur brotna fortíð að baki. Erlendar rannsóknir sýna að til að minnka líkur og draga úr ættleiðingarþunglyndi skiptir stuðningur, fræðsla og ráðgjöf höfuðmáli. Félagsráðgjafar og annað heilbrigðisstarfsfólk getur komið kjörfjölskyldum til aðstoðar með því að fylgja þeim eftir að ættleiðingu lokinni.
Lesa meira
Ættleiðingar á Íslandi í þágu hagsmuna barns. Höfundur Hrefna Friðriksdóttir
15.03.2011
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið samdi við Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni um að gera úttekt á löggjöf um ættleiðingar og framkvæmd ættleiðingarmála á Íslandi og skila ráðherra skýrslu þar að lútandi. Stofnuninni var falið að fjalla sérstaklega um íslenskar reglur með hliðsjón af Haagsamningnum frá 1993 og framkvæmd í ættleiðingarmálum á öðrum Norðurlöndum.
Lesa meira
Ættleiðing erlendra barna á Íslandi Aðlögun og samskipti í fjölskyldum og leikskólum. Höfundar Hanna Ragnarsdóttir og Elsa Sigríður Jónsdóttir
29.10.2010
Greinin fjallar um fyrstu niðurstöður úr eigindlegri langtímarannsókn á högum, aðbúnaði og aðlögun ættleiddra barna og fjölskyldna þeirra á Íslandi. Tuttugu fjöl- skyldur, sem hafa ættleidd börn frá útlöndum, taka þátt í rannsókninni sem hófst árið 2005. Tíu barnanna í rannsókninni voru ættleidd árið 2002 og önnur tíu árið 2004. Á um það bil tveggja ára fresti eru tekin viðtöl við foreldra og kennara í leik- og grunn- skólum barnanna. Einnig er fyrirhugað að taka viðtöl við börnin sjálf. Áætlað er að rannsóknin standi fram á unglingsár barnanna. Rannsókninni er m.a. ætlað að skilja reynslu foreldra af því að ættleiða barn frá útlöndum, varpa ljósi á hvernig móttöku barnanna var háttað og hvernig börnunum gengur að aðlagast nýju samfélagi. Í greininni verður sérstakri athygli beint að aðlögun og tengslum barnanna í fjölskyldum og leikskólum ásamt væntingum foreldra og leikskólakennara til grunnskólagöngu þeirra.
Lesa meira
“...fyrst og fremst venjuleg börn með óvenjulegan bakgrunn...„ Börn ættleidd frá Kína; tengsl við upprunalandið og þekking foreldra. Höfundur Jórunn Elídóttir
29.10.2010
Þegar barn er ættleitt breytist veröldin á margvíslegan hátt. Kjörforeldrar kynnast nýju landi og menningu og eftir því sem tíminn líður verður það hluti af tilverunni þó misjafnt sé hversu mikið hver og einn tengist upprunalandinu. Með ættleiðingunni
opnast foreldrum líka nýr heimur af fróðleik og upplýsingum um landið sem barnið kemur frá, fólkið þar, ástæður þess að börn eru ættleidd og fleira. Segja má að ákveðin smáveröld skapist í kringum ættleiðinguna þar sem margt er sagt, ýmislegt lesið, annað fréttist en oft virðist vera um að ræða umræður, fullyrðingar og jafnvel órökstuddan fróðleik. Á veraldarvefnum er að finna mjög margt er varðar áhrif ættleiðingar á börn og hvað leiðir séu bestar að fara þegar barn er ættleitt og heim er komið. Þetta eitt og sér er eins og frumskógur að feta sig í gegnum fyrir fólk sem oft er leitandi að leiðum og áherslum í umönnun og uppeldi barna sinna. Oft eru þetta misvísandi ráðleggingar,
jafnvel mýtur, sögur í bland við ágætis hugmyndir, en fyrir margan má ætla að erfitt sé að meta hvað er rétt t.d. hvers má vænta er varðar áhrifa ættleiðingarinnar á barnið (Narad og Mason, 2004). Fyrstu börnin voru ættleidd frá Kína til Íslands árið 2002 en
fyrstu börnin ættleidd frá Kína voru til Bandaríkjanna 1992 þegar ný lög tóku gildi í Kína er varðar alþjóðlegar ættleiðingar (CCAA, 2005). Á seinni árum hafa verið gerðar margar rannsóknir er varða ættleidd börn frá Kína sem og önnur börn ættleidd frá
öðrum löndum. Ætla má að það sé að verða til góður grunnur til að byggja á þegar verið er að ræða áhrif ættleiðingar á börn almennt og þá einnig börn ættleidd frá Kína (Christoffersen, Hammen, Andersern og Jeldtoft, 2008.
Sú rannsókn sem er hér til umfjöllunar var framkvæmd á vormánuðum 2009 með það að markmiði að auka þekkingu um ættleidd börn og málefni er snertir þennan hóp barna. Rannsóknin tók til margra ólíkra þátta er varðar upplifanir og skoðanir foreldra
barnanna sem tóku þátt í rannsókninni. Þeir þættir sem dregnir verða fram hér snúa m.a. að tengslum við upprunalandið og bakgrunni barna sem ættleidd eru frá Kína.
Lesa meira
„Hvað gerir gott foreldri?“ Hreyfihamlaðar konur og barneignir. Höfundur Aðalbjörg Gunnarsdóttir
03.05.2010
Ritgerðin fjallar um viðhorf hreyfihamlaðra kvenna á barneignaaldri til fjölskyldulífs og barneigna og byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar sem unnin var frá hausti 2008 til vors 2009. Tilgangur verkefnisins var að skoða hvaða hugmyndir barnlausar hreyfihamlaðar konur hefðu til barneigna, löngun þeirra til að eignast barn í framtíðinni og væntingar til fjölskyldulífs. Sjónum var beint að styrkleikum þeirra og hvað mögulega hindraði þær í að verða mæður. Þátttakendur rannsóknarinnar voru sex barnlausar hreyfihamlaðar konur fæddar á árunum 1970-1987. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hreyfihamlaðar konur þrá að fá að upplifa móðurhlutverkið líkt og ófatlaðar konur. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að miklir fordómar ríki gagnvart hreyfihömluðum konum í barneignahugleiðingum. Þannig fundu konurnar fyrir fordómum frá samfélaginu, fjölskyldu og vinum, heilbrigðiskerfinu og gildandi lögum og reglugerð um ættleiðingar. Neikvæð viðhorf og fordómar höfðu áhrif á sumar konurnar sem tóku þátt í rannsókninni sem birtist í vantrú þeirra á eigin hæfni en aðrar konur brugðust við þessum fordómum með því að leggja áherslu á styrkleika sína og lausnamiðaða hugsun. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að endurskoða þurfi ákveðna þætti í löggjöf um málefni fatlaðra og lögum og reglugerð um ættleiðingu með tilliti til mannréttindasamnings um réttindi fatlaðs fólks þar sem lögð er áhersla á jafnan rétt og bann við mismunun.
Lesa meira
Máltaka ættleiddra barna - Samanburður á hefðbundinni máltöku barna og máltöku ættleiddra barna. Höfundur Gerður Guðjónsdóttir
01.05.2010
Ritgerð til B.A.-prófs við
Íslensku-og menningardeild
Almenn málvísindi
Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Sigríður Sigurðardóttir og Ingibjörg Símonardóttir
Ágrip
Í þessari ritgerð verður fjallað um máltöku ættleiddra barna af erlendum uppruna og hún
borin saman við máltöku barna fæddra í landinu. Í hefðbundinni máltöku ganga
börn í gegnum svipuð stig við tileinkun móðurmáls síns. Það sem skilur að máltöku
ættleiddra barna og hefðbundna máltöku er það rof sem verður á máltöku
ættleiddra barna við ættleiðingu. Settar eru upp tvær rannsóknarspurningar. Hver
er munurinn á eðlilegri máltöku og máltöku ættleiddra barna af erlendum uppruna
og hefur aldur ættleiðingar áhrif á máltöku ættleiddra barna.
Í ljós kom að lítill munur er á hefðbundinni máltöku barna og máltöku
ættleiddra barna. Það sem skilur að er að erlend ættleidd börn læra nýtt mál við
komu til nýs lands. Klippt er þá á máltöku sem átti sér stað í heimalandi þeirra og
ný máltaka hefst. Mörg börn þegja fyrstu vikurnar við komu til nýs lands en
nokkrum vikum eða mánuðum seinna eru þau flest farin að mynda orð og
setningar. Með markvissri málörvun frá foreldrum gengur flestum ættleiddum
börnum vel við nýja máltöku. Ákveðin atriði verður þó að hafa í huga þegar kemur
að máltöku þeirra, en þau skilja t.d. það sem sagt er við þau mun bókstaflegra en
börn sem alast upp við hefðbundna máltöku.
Aldur ættleiðingar getur haft áhrif á máltöku barna en því fyrr sem þau eru
ættleidd því betur gengur máltakan. Í ritgerðinni er einnig fjallað um áhrif
stofnanavistar á málþroska barna en oftast er það vegna lítillar örvunar sem
máltöku þeirra seinkar. Gerð var samanburðarrannsókn á málþroska þriggja
kínverskra ættleiddra stúlkna og málþroska þriggja íslenskra stúlkna á sama aldri
og fæddra á Íslandi. Í ljós kom að lítill sem enginn munur var á málþroska þessara
tveggja hópa en mælingar áttu sér stað þegar stúlkurnar voru 3;6 árs gamlar.
Lesa meira
Ófrjósemi: Þróun og áhrif úrræða til barneigna. Höfundur Sædís Arnardóttir
01.02.2010
Félagsráðgjafardeild
BA-ritgerð
Ófrjósemi: Þróun og áhrif úrræða til barneigna
Sædís Arnardóttir Febrúar 2010
Umsjónarmaður: Guðný Björk Eydal
Leiðbeinandi: Helga Sól Ólafsdóttir
Nemandi: Sædís Arnardóttir
Kennitala: 120784-2429
Útdráttur
Þessi ritgerð fjallar um ófrjósemi, þau úrræði sem í boði eru fyrir ófrjósama einstaklinga ásamt þeim sálrænu, félagslegu og fjárhagslegu áhrifum sem þessi úrræði hafa á einstaklingana. Ófrjósemi er líkamlegt ástand þar sem líkamlegar ástæður eru fyrir því að einstaklingar geta ekki eignast börn. En ófrjósemi hefur á sama tíma víðtæk áhrif á sálarlíf og félagslíf viðkomandi. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka hvernig þau úrræði sem standa ófrjósömum einstaklingum til boða hafa þróast í gegnum tíðina og í öðru lagi að varpa ljósi á þau áhrif sem þessi úrræði geta haft á þá einstaklinga sem til þeirra grípa. Ritgerðin er heimildaritgerð þar sem heimildir eru sóttar víðsvegar að, en áhersla er lögð á fræðilegar rannsóknir og greinar. Niðurstöður ritgerðarinnar sýna að þróunin á frjósemismeðferðum hefur verið mjög hröð og eru möguleikarnir til barneigna margir. Ættleiðingum hefur fækkað þar sem erfiðara er að ættleiða en áður fyrr, af sökum hertra reglna og færri barna til ættleiðinga, en á móti hefur tæknifrjóvgunum fjölgað til muna. Frjósemismeðferðir taka þó sinn toll af einstaklingunum en streita í kjölfar meðferða er algeng, ásamt félagslegri einangrun, samviskubiti, kvíða og þunglyndi. Félagsráðgjafar geta hjálpað einstaklingum að takast á við þá erfiðleika sem fylgja ófrjósemi, en til þess að geta sett sig í spor þeirra og veitt þeim faglega ráðgjöf þurfa þeir að þekkja þau úrræði sem í boði eru ásamt þeim áhrifum sem þessi úrræði geta haft á einstaklingana.
Lesa meira
,,Það væri gott að vera ekki alltaf sérfræðingurinn" : eigindleg rannsókn á þjónustu við ættleidd börn af erlendum uppruna í ung- og smábarnavernd : upplifun foreldra. Höfundar Ásgerður Magnúsdóttir og Þuríður Katrín Vilmundardóttir
11.07.2008
Ættleiðing barns getur verið góð lausn á barnleysi fyrir marga. Á undanförnum þrjátíu árum hafa verið ættleidd um 550 börn af erlendum uppruna til Íslands. Börnin hafa búið við misjafnan aðbúnað í heimalandi sínu fyrir ættleiðingu og hafa ólíkar þarfir í ung- og smábarnavernd.
Lesa meira
Mamma, ég er súkkulaðiís og þú ert vanilluís - Aðlögun ættleiddra barna á leikskóla og hlutverk tengslamyndunar við kjörforeldra. Höfundur Sigurlaug H. Traustadóttir
01.06.2008
Lokaverkefni til BA prófs í félagsráðgjöf
Leiðbeinandi: Anni G. Haugen
Sigurlaug H. Traustadóttir
Kt. 260282-4689
Félagsvísindadeild
Háskóla Íslands 2008
Útdráttur
Í þessari ritgerð fjalla ég um ættleiðingu barna hingað til lands. Hvaða skilyrðum skal
fullnægt við ættleiðingu, reglugerðir sem gilda, hlutverk leikskólanna sem taka við
þessum einstaklingum á þeirra fyrstu æviárum. Ég ræddi við foreldra nokkurra
ættleidda barna um þeirra sameiginlegu reynslu, sigra og vonbrigði og verður hér
fjallað um helstu niðurstöður þessara eigindlegu viðtala. Voru foreldrarnir sammála
um að þörf væri á að auka skilning á sérþörfum ættleiddra barna og ýmislegt mætti
lagfæra í sjálfu ættleiðingarferlinu. Tengslamyndun hefur áhrif á ýmislegt í lífi barna
og einnig síðar á ævinni, því vildi ég kanna hvort og með hvaða hætti mætti finna
orsakasamband milli tengslamyndunar við foreldra og þess hvernig barnið aðlagast
leikskólanum. Í ljós komu vísbendingar um að slíkt samband gæti verið til staðar, auk
þess sem þörf á sveigjanleika, varðandi aðlögunartíma, kom skýrt fram. Einnig er
fjallað um hlutverk félagsráðgjafa í ættleiðingarferlinu og hvernig hann getur veitt
foreldrunum stuðning eftir að ættleiðingarferlinu er lokið og barnið komið heim.
Lesa meira
The Relationship between Attachment and Development in Internationally Adopted Children: Is Love a Necessary Ingredient for a Healthy Development? Höfundur Þóra Huld Magnúsdóttir
15.02.2007
The purpose of this thesis was to investigate whether the lack of selective attachment - the lack of a relationship with a responsive caregiver - could be considered to be the primary cause of disturbances of attachment in internationally adopted children. Studies along with literature on the subject were examined and the findings from that examination indicated that this variable can indeed be considered to be the primary cause of disturbances of attachment. Internationally adopted children that have been lacking a consistent and responsive caregiver, appear to be in danger of having to deal with disturbances in attachment and related difficulties. That conclusion is furthermore in accordance with the ecological attachment theory of John Bowlby and his emphasis on selective attachments and the consequences of the failure to develop selective attachment relationships. Finally, intervention to help adopted children and their families was discussed and revealed that methods that focus on improving the child-caregiver relationship seem to be most effective. Interestingly, using those kinds of methods is also in accordance with ecological attachment theory.
Lesa meira
Hvernig farnast ættleiddum börnum erlendis frá á Íslandi? Höfundar Björg Sigríður Hermannsdóttir og Linda Björk Oddsdóttir
01.10.2006
BA-ritgerð í sálfræði,
Félagsvísindadeild
Háskóla Íslands
Október 2006
Leiðbeinendur: Dagbjörg E. Sigurðardóttir, Jakob Smári,
Kristín Kristmundsdóttir og Málfríður Lorange.
Markmið rannsóknarinnar var fyrst og fremst að auka skilning á almennri líðan
ættleiddra barna á Íslandi og aðstæðum þeirra. Auk þess var vonast til þess að hún gæti
gefið upplýsingar um hvort þau og kjörforeldrar þeirra fengju viðeigandi þjónustu.
Foreldrar 33 drengja og 76 stúlkna svöruðu spurningalista sem þeir fengu sendan og
voru það um 40% af úrtakinu. Niðurstöðurnar voru að mestu í samræmi við niðurstöður
erlendra rannsókna á ættleiddum börnum og sýndu að á heildina litið farnast þeim vel.
Eins og búist var við var tíðni einhverfueinkenna og einkenna athyglisbrests og ofvirkni
hærri en hjá íslenskum börnum almennt. Það sem helst kom á óvart var að erfiðleikar
við tengslamyndun virtust vera sjaldgæfir og að kynþroski virtist hefjast á sama tíma og
hjá íslenskum börnum ólíkt því sem erlendar rannsóknir hafa bent til. Þar sem innan við
helmingur foreldra hafði svarað þegar unnið var úr niðurstöðum rannsóknarinnar væri
áhugavert að kanna hvort breyting verður á þeim ef fleiri svör berast.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.000 krónur fyrir einstakling.