Undirbúningsnámskeiðið - Er ættleiðing fyrir mig?

Námskeiðið er fyrir fólk sem er að taka fyrstu skrefin í ættleiðingarferlinu og er hannað til að hjálpa til við að taka ákvörðun um hvort ættleiðing barns sé skuldbinding sem fólk treystir sér í.  Námskeiðið er ekki um ferla í ættleiðingarmálum og ekki er fjallað um einstök lönd, heldur er kastljósinu varpað á þær áskoranir sem foreldrar geta mögulega þurft að takast á við hjá ættleiddum börnum.

Fólk sem bíður eftir ættleiðingu er skylt að sækja fræðslunámskeiðið sem Íslensk ættleiðing gengst fyrir, skv. reglugerð dómsmálaráðuneytisins. Íslensk ættleiðing er rekið án hagnaðarsjónarmiða og hagnast ekki af gjöldum þeim sem tekin eru fyrir þjónustu þess. Samkvæmt þjónustusamningi við dómsmálaráðuneytið skulu námskeiðsgjöld standa undir kostnaði við námskeiðið. Félagið greiðir leiðbeinendum í samræmi við taxta Framvegis, miðstöð símenntunar en rukkar ekki umsýslugjald eða annan kostnað en þann kostnað sem hlýst af því að halda námskeiðið.

Staðfestingargjald á námskeiðið er 20.000 krónur fyrir þátttakanda, en námskeiðið kostar alls 82.000 krónur á mann. Til þess að vera skráður á námskeið þarf staðfestingargjaldið að vera greitt. Staðfestingargjald er óafturkræft.

Námskeiðið er í tveimur hlutum en eftir á að ákveða dagsetningu fyrir 2025.


Um hvað er námskeiðið?:

Námskeiðið leitast við að svara mikilvægum spurningum um ættleiðingar eins og:

  • Er ættleiðing fyrir mig? 
  • Hvernig er að vera kjörforeldri? 
  • Hver er munurinn að eignast barn eða ættleiða það? 
  • Hvaða ábyrgð felst í því að vera foreldri ættleidds barns? 
  • Get ég staðið undir þeirri ábyrgð? 

Farið er m.a. í aðdraganda, undirbúning ættleiðinga og líf barnsins áður en ættleiðingin á sér stað.  Sýnt er myndband um líf barna á munaðarleysingjaheimilum erlendis og skoðað hvað börnin þar fara á mis við og hvort mögulegt er að bæta þeim það upp. 

Gögn send:
Nokkru fyrir námskeiðið fá þátttakendur sent fræðsluhefti rafrænt sem Íslensk ættleiðing hefur látið þýða og laga að íslenskum aðstæðum.
Eru þátttakendur beðnir um að lesa ritið vel fyrir þátttöku á námskeiðinu enda byggir námskeiðið fyrst og fremst á virkri þátttöku umsækjenda.

Undirbúningsnámskeiðið er sniðið eftir erlendu fræðsluefni og lagað að íslenskum aðstæðum.

Á námskeiðinu er þátttakendahópurinn blandaður, óháð því frá hvaða landi ættleitt er.

Námskeiðið er 28 klst. og er tvískipt

Stundvísi:

Námskeiðið hefst stundvíslega á auglýstum tímum og getur ekki hafist fyrr en allir þátttakendur eru mættir.  Það getur verið skynsamlegra fyrir fólk sem sér sér ekki fært að mæta  á auglýstum tíma að bóka sig á næsta námskeið.

Þín þátttaka skiptir máli:
Gæði námskeiðsins og jákvæð útkoma fyrir þátttakendur byggist að stórum hluta á virkni þeirra sjálfra.

Námskeiðsgjald:
Námskeiðið kostar 82.000 krónur á mann.

Leiðbeinendur:                                  

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir

Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, skólastjóri
Þórgunnur er grunnskólakennari að mennt B.ed. Hún lauk svo meistaranámi MA Stjórnun menningar- og mennastofnanna við Háskólann á Bifröst árið 2011. Þórgunnur hefur starfað um árabil sem kennari við grunn- og gagnfræðiskóla en frá 2000 hefur hún starfað sem skólastjóri, fyrst við Grunnskóla Ólafsfjarðar og frá 2010 við Borgarhólsskóla á Húsavík.  Þórgunnur er móðir tveggja barna,  annað ættleitt frá Kólumbíu. Hún hefur því persónulega reynslu af ættleiðingum. 

 

Rut Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur
Rut lauk námi í félagsráðgjöf með starfsréttindum 2006 og lauk námi í fjölskyldumeðferð vorið 2020. Rut vann lengst af hjá Barnavernd Reykjavíkur, en er einnig með reynslu á sviði Félagsþjónustu.
Hún hóf fyrst störf sem verktaki hjá Íslenskri ættleiðingu árið 2013 og sá þá um að gera eftirfylgnisskýrslur. Í apríl 2017 kom hún til starfa hjá félaginu í fullt starf og hennar hlutverk er að sinna ráðgjöf/meðferð, stuðningi og fræðslu hjá félaginu ásamt því að kenna á námskeiðinu. Rut er tveggja barna móðir. 

 

 

Svæði