Fáðu fréttir og tilkynningar frá ÍÆ á netfangið þitt.
Flýtilyklar
Bækur á íslensku
Máttur tengslanna - Höfundar: Karyn B.Purvis, Ph.D., David R.Cross, Ph.D og Wendy Lyons Sunshine
01.01.2014
Að ættleiða barn er einstök upplifun í lífi hverrar fjölskyldu, upplifun sem er jákvæð en getur um leið verið krefjandi. Lykillinn að því að takast á við þau verkefni sem fylgja ættleiðingunni felst í því að sinna börnunum af nærgætni, virða forsögu þeirra og bakgrunn og sýna þeim óendanlega væntumþykju og skilning á þeim aðstæðum sem þau bjuggu við í upphafi.
Bókin er skrifuð af tveimur sálfræðingum sem hafa sérhæft sig í rannsóknum tengdum ættleiðingum og tengslamyndun.
Bókin getur aðstoðað við að:
• Byggja upp kærleiksrík tengsl við ættleidda barnið eða fósturbarnið.
• Takast á við hegðunarvandamál og námsörðugleika með árangursríkum hætti.
• Aga barnið á kærleiksríkan máta án þess að það upplifi að því sé ógnað.
Lesa meira
Hinn launhelgi glæpur, kynferðisbrot gegn börnum - Ritstjóri: Svala Ísfeld Ólafsdóttir
01.01.2011
Hinn launhelgi glæpur er framlag til umræðu um kynferðisbrot gegn börnum og skerfur til frekari skilnings á orsökum þeirra og afleiðingum. Í bókinni er á þriðja tug greina, flestar ritrýndar, þar sem fjallað er um viðfangsefnið á forsendum ólíkra fræðigreina, svo sem lögfræði, læknisfræði, hjúkrunarfræði, félagsfræði, sálarfræði, uppeldisfræði, afbrotafræði og félagsráðgjafar. Bókin nýtist við kennslu á háskólastigi á ýmsum sviðum félagsvísinda og lögfræði auk þess að vera handbók fyrir alla sem starfa að málefnum barna og láta sig velferð þeirra varða.
Lesa meira
Velferð barna - Höfundar: Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason
01.01.2010
Bókin er safn greina eftir tólf höfunda um málefni barna, gildismat og ábyrgð gagnvart börnum í íslensku samfélagi. Vigdís Finnbogadóttir ritar inngang.
Lesa meira
Óskabörn - Höfundur: Sigrún María Kristinsdóttir
01.01.2009
Ættleiðing er viðkvæmt og afdrifaríkt ferli fyrir lítið barn sem eflaust mun allt sitt líf velta reglulega fyrir sér uppruna sínum og örlögum. Viðmælendur Sigrúnar Maríu Kristinsdóttur eru fagfólk, ættleiddir einstaklingar og fjölskyldur þeirra.
Miklu máli skiptir að hugað sé að öllum þáttum allt frá því kjörforeldrar ákveða að ættleiða barn og að sérfræðingar á borð við kennara, leikskólakennara, barnalækna og félagsfræðinga, séu samtaka í ættleiðingarferlinu og kynni sér það frá öllum hliðum.
Sigrún María tekur hér saman mikilvægar upplýsingar varðandi alla þessa þætti. Meðal þess sem hún fjallar um er umsókn foreldra, ferðirnar út til að sækja börnin, þroski barnanna og uppeldi. Einnig er fjallað um huglægu þættina og þær tilfinningar og hugsanir sem bærast innra með börnunum og kjörforeldrunum.
Viðmælendur Sigrúnar Maríu eru fagfólk, ættleiddir einstaklingar og fjölskyldur þeirra. Sögurnar í bókinni eru einlægar, heiðarlegar og upplýsandi svo bókin er í senn yfirgripsmikill leiðarvísir og hvetjandi lesning fyrir alla sem hafa áhuga á efninu, þekkja til ættleiddra barna eða tengjast þeim á einhvern hátt.
Lesa meira
Árin sem enginn man - Höfundur: Sæunn Kjartansdóttir
01.01.2009
Við munum ekki eftir fyrstu mánuðunum í lífi okkar, jafnvel ekki fyrstu tveimur til þremur árunum. Þó hafa rannsóknir í taugavísindum og athuganir á sálarlífi fullorðinna leitt æ betur í ljós að einmitt þessir mánuðir og ár hafa varanleg áhrif á allt líf okkar þaðan í frá. Þá er heilinn í örustum vexti og galopinn fyrir áhrifum umhverfisins, öll reynsla ungbarnsins hefur bein áhrif á sjálfsmynd þess og samband við aðra. Alúð og örvandi umönnun er endurgoldin með ótrúlegum þroska. Samskipti okkar við annað fólk og reynsla síðar á ævinni skiptir líka máli en ekkert jafnast á við fyrstu tengslin því þau veita mikilvæga undirstöðu undir allt lífið framundan. Árin sem enginn man er brýn bók fyrir foreldra ungra barna og alla þá sem annast lítil börn.
Lesa meira
Með lífið að láni - Höfundar: Jóhann Ingi Gunnarsson og Sæmundur Hafsteinsson
01.01.2005
Hvert stefnir þú í lífinu?
Hvernig gengur þér að ná markmiðum þínum?
Með lífið að láni er kærkominn leiðarvísir fyrir alla sem hafa metnað til að ná árangri og njóta lífsins til fulls.
Höfundar beina sjónum að kjarna málsins, atriðum sem alls staðar eiga við og snerta okkur öll.
Þessi atriði eru í raun lykillinn að árangri á flestum sviðum mannlífsins.
Í bókinni má finna lifandi og hnitmiðaðar lýsingar á spurningum, viðfangsefnum og aðferðum sem skipta geta sköpum í lífi fólks, svo sem:
að byggja upp sjálfstraust
að tileinka sér færni í mannlegum samskiptum
að setja sér markmið og ná þeim
árangur og hugarfar
aðalatriði góðs uppeldis
einkenni góðs hjónabands
að leysa deilur
að lifa í sátt við staðreyndir lífsins
Í bókinni er fjöldi dæma, verkefna og leiðbeininga sem auðvelt er að tileinka sér og vísa leið að aukinni lífsfyllingu
Lesa meira
Hvað mikið er nóg? - Höfundur: Dr. Jean Illsley Clarke
01.01.2004
Allir foreldrar hafa sömu markmið. Þeir vilja gefa börnunum sínum það besta af öllu. En þrátt fyrir góðan hug veitum við börnunum okkar oft miklu meira en þau þola með góðu móti og förum að ofdekra þau. Í bókinni skýra uppeldisfræðingarnir Dr.Clarke, Dr.Dawson og Dr.Bredehoft í fyrsta skipti hvernig ofdekur, ofnæring og ofgnótt án skynsamlegra marka hindrar börnin í að öðlast mikilvæga færni til að læra það sem þau þurfa til að geta þrifist sem hamingjusamt og heilbrigt fullorðið fólk. Bókin er full af snjöllum ráðum, sönnum sögum og áhrifamiklum aðferðum til að geta forðast-eða laga-orsakir ofdekurs, þar á meðal:
Hvernig hægt er að átta sig hvort maður ofdekrar og hvað er til ráða ef svo er.
Hvernig kenna má barninu hvað orðið "nóg" þýðir.
Ráð til að setja ákveðnar reglur og mörk.
Hvað ber að gera þegar vinir eða ættingja ofdekra börnin þín.
Hvernig rjúfa á vítahringinn ef þú hefur verið ofdekrað barn.
Það eru ekki slæmir foreldrar sem ofdekra; raunar stafar ofdekur af hjartagæsku einni saman. Hvað mikið er nóg? veitir þér innsýn og stuðning til að geta alið upp börnin á ástríkan og áhrifaríkan hátt þannig að börnin geti lifað fullu og hamingjusömu lífi. Dr. Sigrún Júlíusdóttir ritar formála.
Lesa meira
Kjörfjölskyldan - Höfundar: Amalia Carli og Monica Dalen
01.01.2003
Sú spurning vaknar hjá mörgum hvort kjörbörn séu ekki eins og önnur börn. Upplifa kjörforeldrar ekki sömu gleði og sorgir og allir aðrir foreldrar? Það að lifa með barni felur í sér svipaða tilfinningu hjá öllum, óháð því hvernig barnið er komið inn í fjölskylduna. En það er á margan hátt öðruvísi að verða foreldrar við ættleiðingu barns en við fæðingu.
Lesa meira
Að hreyfa sig og hjúfra - Höfundur: Þóra Þóroddsdóttir
01.01.2001
AÐ HREYFA sig og hjúfra heitir bók eftir Þóru Þóroddsdóttur sjúkraþjálfara sem nýlega er komin út. Bókin er þýdd úr færeysku af höfundi, sem búið hefur í Færeyjum síðustu ár.
Bókin er að sögn Þóru um skynjun okkar allra og þjóðveginn eða hraðbrautina sem við flest kjósum að fara. "Hún er um leiðina, sem barnið velur óafvitandi til vaxtar og þroska og um það hvernig við sækjum á brattann og þreifum fyrir okkur til að ná áttum og lifa í samhljómi við líðandi stund,"
Þóra hefur verið sjúkraþjálfari í færeyska skólakerfinu og sinnt þar fyrst og fremst hreyfifötluðum börnum, börnum með alvarlega en afmarkaða og skilgreinda fötlun. Smám saman lengdist biðlisti þeirra barna sem ekki höfðu fengið greiningu og höfðu ekki sjáanlega fötlun, m.a. barna sem voru líkamlega lingerð og þunglamaleg, höfðu veikt sjálfsálit, viðkvæm og áttu erfitt með að einbeita sér en voru að öðru leyti venjuleg og greind börn. Þóra segir að þessi börn hafi fyllt huga sinn og hún hafi fundið hjá sér hvöt til að grípa í taumana og segja frá.
Í bókinni kallar hún þessi börn skynreiðubörn, en hún hafi valið orðið reiða sem andstæða óreiðu. "Þetta eru börn sem eiga erfitt með að vinna úr þeirri fjölbreytilegu reynslu sem við í sífellu og látlaust verðum fyrir þannig að úr verði skipulögð heild," sagði Þóra en hún telur að ekki færri en eitt til tvö börn í hverri bekkjardeild og hverri leikskólastofu eigi í þessum örðugleikum.
Þóra segir flest skynreiðubörn hafa átt of væra fósturtilveru og þau fæðist reynslusnauð á tveimur skynsviðum, snertiskyni og þyngdarskynsviði. Þau reyni ekki að vinna upp það sem þau hafi farið á mis við heldur fara sér hægt og verjast áframhaldandi áreiti.
Í bókinni er stuðst við rannsóknir og niðurstöður erlendra fræðimanna, en undirrót textans er skoðun Þóru og meðferð á u.þ.b. 250 færeyskum börnum
Lesa meira
Barnauppeldi - Höfundur: June Thompson
01.01.2000
Hagnýtar leiðbeiningar handa uppalendum. Í bókinni er m.a.kennt: að koma á fastmótuðum venjum, til dæmis hvað varðar svefn, hreinlæti og klæðnað; að stuðla að heilbrigðum þroska og læra að þekkja einkenni sjúkdóma; að sinna tilfinningalegum þörfum barnsins, efla traust og sefa ótta þess; að gera leiktímann skemmtilegan án þess að slakað sé á kröfum um öryggi. Bókin er afar aðgengileg, textinn studdur miklu myndefni.
Lesa meira
Ambáttin - Höfundur: Catherine Lim
01.01.1999
Bókin Ambáttin kom út fyrir síðustu jól en seldist gjörsamlega upp á nokkrum vikum og náðist ekki að prenta á ný fyrir árslok. En hér kemur hún aftur fyrir þá fjölmörgu sem misstu af henni fyrir síðustu jól. Þetta er magnþrungin saga um líf ambáttar í Singapore fyrr á öldinni. Hún var keypt barnung af ríkri höfðingjafjölskyldu og skyldi hlutskipti hennar það sama og annarra ambátta, að þóknast í einu og öllu. En ambáttin Han er greind og viljasterk og neitar að láta kúga sig og líf hennar markast af miklum átökum. Bókin fékk frábæra dóma bæði hér á Íslandi sem og um allan heim.
Lesa meira
Kínverskir skuggar - Höfundur: Oddný Sen
01.01.1997
Kínverskir skuggar er örlagasaga Oddnýjar Erlendsdóttur frá Breiðabólsstöðum á Álftanesi sem átti viðburðaríkari og sérstæðari ævi en flestar íslenskar samtíðarkonur hennar. Árið 1909 hélt hún út í heim, tvítug að aldri, og dvaldi fjarri ættjörðinni í nær þrjá áratugi; fyrst í Skotlandi og síðan hinum megin á hnettinum, í Kína, föðurlandi mannsins sem hún giftist. Sonardóttir hennar, Oddný Sen , dregur í bók sinni upp persónulega mynd af þessari aldamótastúlku af Álftanesinu sem örlögin báru yfir höf og lönd.
ODDNÝ Erlendsdóttir dvel ur rúman áratug í Edinborg við nám og störf og þar kynnist hún kín verskum námsmanni, Kwei Ting Sen, sem hún giftist árið 1917. Fimm árum síðar flytja þau til Kína með son sinn, Erlend Ping Hwa, og setjast að í borginni Amoy. Umskiptin eru mikil fyrir Oddnýju og þungt áfall ríður yfir er Erlendur sonur hennar smitast af hundaæði og deyr, sex ára gamall. Hjónin hafa þá nýlega eignast annan son og fáum árum síðar fæðist þeim dóttir. Sonarmissirinn er Oddnýju þungbær og henni gengur ekki vel að laga sig að háttum tengdafjölskyldu sinnar í Kína. Árekstrar eru óhjákvæmilegir og með árunum koma brestir í hjónaband þeirra Kwei Tings. Dag einn er ókunn kona stödd á heimili þeirra þegar Oddný kemur heim.
Lesa meira
Barnasálfræði - frá fæðingu til unglingsára - Höfundar: Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal
01.01.1995
Barnasálfræði var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 og er nú orðin sígildur vegvísir handa uppalendum og öðrum sem sinna málefnum barna.
Bókin fjallar um þroska barna frá fæðingu til unglingsára. Annars vegar er lýst eðlilegum þroskaferli og farið gegnum þróunina ár fyrir ár til 12 ára aldurs. Hins vegar er tekið á einstökum atriðum. Má þar nefna kafla um foreldrahlutverkið og annan um mótun barns í fjölskyldu, þar sem meðal annars er rætt um einkabörn og tvíbura. Staldrað er við breytingar og álag sem komið geta upp í lífi barna, sálræna erfiðleika og hegðunarvandræði og loks afmarkaða þætti, til dæmis svefnvenjur, aga, ofbeldi, leik og sköpun, kynhlutverk, vináttu og fleira.
Höfundar bókarinnar, sálfræðingarnir Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, búa yfir víðtækri þekkingu og margháttaðri reynslu sem þær miðla hér áfram til lesenda á afar aðgengilegan hátt. Eftir þær liggja einnig bækurnar Nútímafólk, Sálfræði einkalífsins, Í blóma lífsins og Ást í blíðu og stríðu.
Lesa meira
Kona eldhúsguðsins - Höfundur: Amy Tan
01.01.1991
Pearl hefur í upphafi sögunnar reynt sem heitast að forðast kínverskan uppruna sinn. Siðirnir og hjátrúin fara bæði í taugarnar á henni og bandarískum eiginmanni hennar. Þurr fjarlægð, án þess að þær vilji það báðar, hefur ríkt í sambandi hennar og mömmu hennar. Það verður hlutverk Helenar að koma atburðunum af stað og einn daginn setjast Pearl og Winnie niður og Winnie segir dóttur sinni stórbrotna sögu sína, alveg frá því hún er lítil stelpa í Kína og þangað til hún fer til Bandaríkjanna um það leyti sem kommúnistar eru að sigra landið.
Og saga Winnie er engin venjuleg saga fyrir Íslending á síðari hluta tuttugustu aldar en vafalaust sameiginleg þeim Kínverjum sem lifðu umbrotatíma fyrri hluta aldarinnar.
Winnie fæðist inn í ríka fjölskyldu. Mamma hennar, sem er önnur eiginkona pabba hennar, hverfur skýringalaust af heimilinu þegar Winnie er sex ára. Þar með flyst stelpan til fjölskyldu föðurbróður síns, verður einhvers konar stjúpdóttir og fær að gjalda fyrir hugsanlegan glæp mömmu sinnar. Örlög hennar eru algjörlega í höndum annarra og hjónaband hennar er verk fjölskyldu hennar og fjölskyldu eiginmannsins, Wen Fu. Þessi Wen Fu gerist flugmaður í heimsstyrjöldinni síðari og Winnie flyst stað úr stað með honum. Hún kynnist Helen sem líka er eiginkona flugmanns og höfundar vináttu þessara tveggja kvenna eru kannski þær sjálfar og kannski neyðin og erfiðleikarnir sem þær upplifa. En a.m.k. stjórna ekki gamlar hefðir eða reglur sambandi Winnie og Helenar sem er eitt eftirtektarverðasta sambandið í bókinni og þó víðar væri leitað.
"Það var eftir að ég giftist að ég hitti Helen. Og ég get sagt þér að við erum ekki sömu manneskjur og við vorum 1937. Hún var kjáni og ég var sakleysingi. Og eftir þetta ár hélt hún áfram að vera kjáni og þráaðist við. En ég glataði sakleysi mínu og sá alltaf eftir því sem ég glataði. Og vegna þess að ég glataði svona miklu man ég svona mikið. Hvað Helen snertir hún heldur bara að hún muni" (bls. 160).
Uppruni Helenar og Winnie er ólíkur. En þó sú síðarnefnda sé komin af því sem kallað er "fínu fólki" er staða þeirra svo til jöfn undir því óeirðaskýi sem lá yfir Kína á þessum tíma. Hvort sem þeim líkar betur eða verr verða þær að standa saman til að hafa það af.
Lesa meira
Leit
Gerast félagi
Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið var stofnað af áhugafólki um málefnið árið 1978 og hefur reksturinn lengst af verið borinn uppi af sjálfsaflafé og miklu sjálfboðastarfi félagsmanna.
Árgjald Íslenskrar ættleiðingar er 4.000 krónur fyrir einstakling.