Umsókn til Tékklands
Eftir að öllum gögnum vegna umsóknar hefur verið safnað saman fara þau í þýðingu og í Notarius stimplun hjá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu og Apostille stimplun hjá Utanríkisráðuneytinu. Því næst er umsókn send með ábyrgðarpósti til UMPOD, ættleiðingaryfirvalda í Tékklandi.
Ef umsókn er samþykkt berst staðfesting frá UMPOD til umsækjenda og skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar.
Ættleiðingaryfirvöld í Tékklandi geta óskað eftir frekari upplýsingum vegna umsóknar. Þau geta líka hafnað umsókn.
Upplýsingar um barn berast - pörun
Þegar upplýsingar um barn berast þarf að kanna gögnin til hlítar. Íslensk ættleiðing sér um að senda gögn í þýðingu.
Eftir að gögn berast úr þýðingu eru þau send til sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu. Þaðan fara gögnin til yfirlestrar hjá lögfræðingi og lækni. Sérfræðingar hjá Íslenskri ættleiðingu yfirfara gögnin einnig.
Stundum þarf að óska eftir meiri gögnum eða útskýringum á þeim gögnum sem berast.
Ef öll gögn eru í lagi er verðandi foreldrum boðið á fund á skrifstofu félagsins til að kynna sér þau. Ef þau samþykkja pörun og 17.gr. c samþykki skv. Haagsamningi er gefið út eru ættleiðingaryfirvöld í Tékklandi upplýst um það.
Stuttur tími líður frá því að upplýsingar um barn berast og þar til foreldrarnir fara út til að sækja það, eða um 2-8 vikur. Dvöl í Tékklandi er um 8 vikur, en árið 2017 lengdist dvölin í Tékklandi vegna reglugerðarbreytinga. Áður var ákvörðun um að barn fari í fóstur tekin af starfsfólki UMPOD en nú er ákvörðunin í höndum dómstóla.
Kynningarfundur
Áður byrjaði ferðin á heimsókn til ættleiðingaryfirvalda í Brno (núllfundur) en í dag fer þessi fundur fram rafrænt á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar. Umsækjendur geta því ferðast beint í héraðið sem barnaheimilið er í stað þess að fara fyrst til Brno.
Þarna gefst tækifæri til að spyrja spurninga og kynnast fortíð barnsins eins og hægt er.
Fyrsti fundur
Umsækjendur fara á "fyrsta fund" á barnaheimilinu þar sem þeir byrja á að hitta starfsfólk barnaheimilis, lögfræðing, sálfræðing og svo kemur loksins að því að hitta barnið. Yfirleitt dvelja foreldrar í íbúð á meðan á dvöl stendur, en á sumum barnaheimilum er lítil íbúð þar sem hægt er að dvelja fyrstu vikurnar. Á barnaheimilinu fer fram aðlögun og tíminn sem foreldrar fá að hitta barnið eykst hægt og rólega þar til starfsfólk barnaheimilis metur að barnið sé tilbúið að fara alveg til foreldra.
Annar fundur
Eftir um 2 vikur fer fram "annar fundur" í íbúð foreldra og þegar foreldrar fá leyfi er farið til Brno þar sem er dvalið í um 6 vikur á meðan málið fer fyrir dóm. Í Brno þarf að fara með barnið til að fá vegabréf og skrifa undir samning varðandi fóstur. Fyrst þá mega foreldrarnir fara úr landi með barnið.
Dvölin í Tékklandi
Á meðan beðið er eftir leyfi til að ferðast heim til Íslands nýtir fjölskyldan tímann til að kynnast. Sérfræðingar Íslenskrar ættleiðingar fylgja fjölskyldunni eftir á meðan dvölinni stendur.
•Reynsla síðustu ára hefur sýnt að þessi stuðningur frá félaginu hefur hjálpað mikið í aðlögunarferlinu á meðan fjölskyldan er að kynnast.
•Engar spurningar eru rangar spurningar.
•Þessi dvöl getur tekið mjög á alla aðila og því mikilvægt að muna að þrátt fyrir að ættleiðing sé hamingjustund eru erfiðleikar sem koma upp.
Lagaleg ættleiðing
Ættleiðingin fer ekki fram í Tékklandi, heldur eftir að barnið er komið til foreldra sinna á Íslandi. Sækja má um ættleiðingu eftir að þriðja skýrslan hefur verið send til yfirvalda í Tékklandi og fjölskyldan hefur verið saman í sex mánuði á Íslandi. Því getur liðið um ár þangað til að endanlega er gengið frá ættleiðingu og réttaráhrif staðfest á Íslandi.