Samþykktir félagsins Íslensk ættleiðing
Samþykkt á aðalfundi 20. mars 2024
1. grein
Nafn félagsins
Félagið heitir Íslensk ættleiðing. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er:
að vinna að alþjóðlegum ættleiðingum með því markmiði að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 29. maí 1993.
að vinna að velferð og réttindamálum kjörfjölskyldna
að aðstoða fólk sem vill ættleiða börn erlendis frá
að standa fyrir fræðslu fyrir félagsmenn í formi fræðslufunda, námskeiða og fyrirlestra
að vinna að jöfnum rétti allra, burtséð frá uppruna
að auka þekkingu og skilning samfélagsins og stjórnvalda á ættleiðingu og kostum hennar fyrir barn og kjörfjölskyldu
að stuðla að velferð barna í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamninginn um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 29. maí 1993.
3. grein
Greiðslur
Félagið er ekki rekið í ágóðaskyni og má einungis inna af hendi fjárgreiðslur til mannúðarmála, fyrir utan nauðsynlegar fjárgreiðslur vegna kostnaðar ættleiðinga barna til Íslands.
4. grein
Félagsmenn
Félagsmenn eru einstaklingar sem skrá sig í félagið og greiða félagsgjald. Foreldrar geta skráð börn sín í félagið en fyrir þau er greitt hálft félagsgjald.
Stjórn getur ákvarðað að sá er ekki fer að samþykktum félagsins skuli tekinn af félagaskrá.
5. grein
Æðsta stjórn félagsins
Æðsta stjórn félagsins er í höndum lögmætra félagsfunda.
6. grein
Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í samráði við dómsmálaráðuneytið, ráða trúnaðarlækni og/eða lögfræðing til ráðgjafar. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag.
Formaður boðar og stýrir stjórnarfundi.
Stjórnarfundur telst lögmætur ef hann sækir meirihluti stjórnar.
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli félagsfunda.
Stjórnarmenn félagsins, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
Stjórnarmeðlimir, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins mega ekki taka þátt í afgreiðslu ættleiðingarmáls ef þeir eða menn þeim nákomnir eru aðilar málsins.
Komi upp aðstæður eða tilvik er varðar stjórnarmann þess eðlis að áframhaldandi stjórnaseta hans samrýmist ekki hagsmunum eða rekstri félagsins getur stjórn tekið ákvörðun um að víkja honum úr stjórn. Slík ákvörðun skal tekin með atkvæðagreiðslu á stjórnafundi. Hafi stjórnarmanni verið vikið úr stjórn í kjölfar atkvæðagreiðslu getur hann krafist þess að sú ákvörðun verði tekin fyrir á aðalfundi félagsins. Í kjölfarið getur stjórn boðað til aukafundar félagsmanna sbr. 7. gr. samþykktar ÍÆ og skal boða til slíks fundar innan við 14 daga frá því að krafa stjórnarmanns liggur fyrir. Stjórnarmaður telst vera í leyfi frá stjórnasetu þar til ákvörðun liggur fyrir á aðalfundi eða aukafundi, eftir atvikum. Stjórnarmaður sem brottvísun beinist að skal veitt færi á að tjá sig um málið áður en stjórn tekur ákvörðun. Að öðru leyti skal hann víkja við málsmeðferð og er ekki heimilt að taka þátt í atkvæðagreiðslu stjórnar.
7. grein
Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn fyrir marslok ár hvert. Skal hann boðaður bréflega eða með öðrum sannanlegum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara. Til aukaaðalfundar skal boða með sama fyrirkomulagi og til aðalfundar samkvæmt 7. mgr.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins skal lagður fram til samþykktar.
Kjör stjórnar.
Ákvörðun árgjalds.
Breytingar á samþykktum félagsins.
Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
Breytingar á stjórn félagsins skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu áður en 14 dagar eru liðnir.
Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins skulu berast stjórn félagsins skriflega í síðasta lagi 31. janúar ár hvert og skulu þær tilgreindar í fundarboði.
Framboð til stjórnarkjörs skulu berast skriflega til skrifstofu félagsins í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.
Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu endurskoðenda eða 2/3 félagsmanna. Skulu þeir boðaðir bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram tilefni fundarins.
8. grein
Framkvæmdastjóri
Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Stjórnin veitir og prókúruumboð fyrir félagið.
Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.
9. grein
Þjónusta
Félagsmenn njóta forgangs að þjónustu félagsins. Umsækjendur skuldbinda sig til að hlýta reglum félagsins varðandi meðferð ættleiðingarumsókna.
10. grein
Kosningaréttur og kjörgengi - félagaskrá
Skuldlausir félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins og eru kjörgengir til embætta á þess vegum. Börn sem eru á félagaskrá að beiðni foreldra og greiða hálft félagsgjald eru ekki kjörgeng og hafa ekki atkvæðarétt á félagsfundum.
11. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Gera skal ársreikning um starfsemi félagsins að ættleiðingarmálum og um aðra starfsemi er fram fer á vegum félagsins. Ársreikningur skal skoðaður og áritaður af löggiltum endurskoðanda og skal senda eintak hans til dómsmálaráðuneytisins samkvæmt reglugerð um ættleiðingarfélög.
12. grein
Breytingar
Samþykktum þessum má einungis breyta á aðalfundi sem og aukaaðalfundi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna eða aukinn meirihluta félagsmanna. Allar lagabreytingar skal bera undir dómsmálaráðuneytið áður en þær teljast endanlega samþykktar.
13. grein
Slit félagsins
Félagsfundur einn getur tekið ákvörðun um slit félagsins og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna eða aukinn meirihluta félagsmanna. Félagsfundur sem ákvörðun tekur um slit félagsins skal taka ákvörðun um ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.
Eignum félagsins má einungis ráðstafa til góðgerðarmála.