Gátlisti vegna umsóknar um forsamþykki
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að ættleiða barn erlendis frá þarf að fá forsamþykki til ákveðins lands. Yfirleitt líða um 6 - 12 mánuðir frá því að umsókn um forsamþykki fer frá ÍÆ þangað til sýslumaður gefur það út. Forsamþykki er staðfesting frá íslenskum yfirvöldum sem staðfesta að umsækjendur eru hæfir til að ættleiða barn. Öll erlend ríki fara fram á að forsamþykki fylgi umsókn um ættleiðingu. Forsamþykkið er gefið út af Sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu.
Íslensk ættleiðing móttekur umsókn um forsamþykki ásamt fylgigögnum, fer yfir hana og sendir til sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu. Panta þarf viðtalstíma og tekur viðtalið um 1 ½ klst. Áður en umsóknin er send þarf að greiða staðfestingargjald sem er 195.000 krónur. Þetta gjald eru ekki endurgreitt þó umsókn sé hafnað. Vottorð sem fylgja umsókn um forsamþykki mega ekki vera eldri en 3 mánaða.
Umsækjendur fá fræðslu um meginákvæði íslenskra og alþjóðlegra reglna um ættleiðingar á börnum milli landa. Íslensk ættleiðing og umsækjendur gera með sér samning vegna milligöngu um ættleiðingu með það að markmiði að gera grein fyrir gagnkvæmum réttindum og skyldum og stuðla að góðu og farsælu samstarfi.
ÍÆ gefur sér 5 daga til að fara yfir umsóknina og sendir svo til sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
Sýslumaðurinn sendir, eftir að hafa yfirfarið umsóknina, barnaverndaryfirvöldum í heimabyggð umsækjendanna beiðni um að kanna hagi þeirra. Sú vinna tekur nokkurn tíma og fer þannig fram að umsækjendur hitta félagsráðgjafa nokkrum sinnum og ræða við hann um ástæður ættleiðingarumsóknar, fjölskyldu sína, æsku, menntun og atvinnu, hjónabandið og væntingar til framtíðar með ættleiddu barni sínu. Í framhaldinu skrifar félagsráðgjafinn umsögn um umsækjendurna og á hún að vera góð kynning á væntanlegum kjörforeldrum og aðstæðum sem þeir geta boðið barni. Við gerð umsagnarinnar styðst félagsráðgjafi við leiðbeiningar í 15.gr reglugerðar um ættleiðingar og getur verið gagnlegt að kynna sér hana. Umsögnin er lögð fyrir barnaverndarnefnd sem ákveður hvort hún mælir með umsækjendunum. Niðurstaða nefndarinnar ásamt umsögninni er síðan send sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu veitir leyfi til ættleiðingar sbr. 1. gr. ættleiðingarlaga nr. 130 frá 1999, og gefur út forsamþykki vegna umsóknar um ættleiðingu erlends barns. Ættleiðingarnefnd er sýslumanninum og ráðuneytinu til ráðgjafar sé um einhver vafaatriði að ræða. Í ættleiðingarnefnd sitja lögfræðingur, læknir og sálfræðingur og er hún skipuð af dómsmálaráðherra.
Ef umsækjendur hafa ekki gert upp við sig hvaða landi þeir vilja ættleiða frá er hægt að tilkynna það til sýslumanns innan þriggja mánaða frá því umsókn er skilað.
Forsamþykki er gefið út til þriggja ára og er stílað á yfirvöld í ákveðnu landi. Eftir það þarf að sækja um að nýju. Heimilt er að sækja um framlengingu á forsamþykki í 1 ár ef sérstaklega stendur á.
Í forsamþykkinu kemur fram m.a. að væntanlegir kjörforeldrar teljist hæfir til að ættleiða barn frá tilteknu landi. Ekki er hægt að fá forsamþykki til fleiri en eins lands í einu. Einnig þarf að taka tillit til mismunandi reglna sem upprunaríkin setja.
Þegar forsamþykki liggur fyrir er komið að því að ganga frá formlegri umsókn um ættleiðingu til erlendra yfirvalda. Safna þarf ýmsum vottorðum, láta þýða umsögn barnaverndaryfirvalda, og fá viðeigandi stimpla á öll skjölin. Kröfur landanna um fylgigögn eru misjafnar og geta breyst með stuttum fyrirvara og því mikilvægt að fá leiðbeiningar ÍÆ áður en haldið er af stað í þessa vinnu. ÍÆ sér um að senda umsókn ásamt fylgigögnum til þess lands sem umsækjendur hafa valið.
Athugið að þau vottorð sem fara með umsókn um ættleiðingu til upprunaríkis eru ekki þau sömu og fara með umsókn til sýslumanns. Sakavottorð mega ekki vera eldri en 3 mánaða þegar umsóknin er send út og flest önnur vottorð mega ekki vera eldri en 6 mánaða. Barnaverndarskýrslan má ekki vera eldri en ársgömul og sálfræðimat/próf má ekki vera eldra en ársgamalt. Ef barnaverndarskýrslan er orðin eldri en ársgömul þarf að óska eftir viðbótarúttekt.
Ef breytingar verða í lífi umsækjanda er nauðsynlegt að láta vita af þeim breytingum.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu - Ættleiðingar barns erlendis frá
Vert er að taka fram að Íslensk ættleiðing er hvorki umsagnar- né úrskurðaraðili í ættleiðingarmálum.