Fréttir

RÚV - Mörg samkynhneigð pör vilja ættleiða

Frá því lög sem heimila samkynhneigðum að ættleiða tóku gildi hér á landi árið 2006 hefur ekkert samkynhneigt par ættleitt barn. Anna Pála Sverrisdóttir, formaður samtakanna 78, segir að mörg pör vilji ættleiða.

Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi kemur fram að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hafi ættleitt barn saman frá því lögin tóku gildi, hvorki innan lands né erlendis frá. Sömu sögu er að segja í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en samstarfsríki þeirra þegar kemur að ættleiðingum eru fleiri en samstarfsríki Íslands.

„Það sem þarf að gerast er að ættleiðingasamningur verði gerður við ríki sem heimilar ættleiðingar samkynhneigðra. Það hefur orðið talsverð opnun á alþjóðavettvangi núna á undanförnum árum meðal annars þannig að ættleiðingar innanlands hafa verið að byrja,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir,  formaður Samtakanna 78. Fréttastofa fékk sömu upplýsingar þegar haft var samband við Íslenska ættleiðingu fyrr í vikunni.

Í svarinu innanríkisráðherra kemur fram að ráðuneytið hefur ekki haft frumkvæði að því að kanna hjá upprunaríkjum hvort villji sé fyrir því að koma á samkomulagi um ættleiðingar á börnum til samkynhneigðra. Aðeins eitt samkynhneigt par hér á landi hefur reynt að ættleiða barn frá því lögin tóku gildi.

Anna Pála segir að stjórnvöld, íslensk ættleiðing og hinsegin samfélagið þurfi að vinna saman að því að breyta þessu. 


Svæði