Fréttir

Ferð til Tékklands

Þann 8. maí s.l. lagði sendinefnd Íslenskrar ættleiðingar, ásamt fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, land undir fót og hélt til Tékklands. Tilgangur ferðarinn var fyrst og fremst að að hitta miðstjórnavald Tékklands og styrkja böndin við samstarfsaðila

Fundað var með miðstjórnvaldinu þar sem sendinefndin fékk kynningu frá þeim og þeirra starfi, frá deildarstjóra alþjóðlegra ættleiðinga. Dómsmálaráðuneytið kynnti starf ráðuneytisins og helstu aðila sem tengjast ættleiðingarmálaflokknum á Íslandi, s.s. Sýslumannsembættið og Barnavernd.  Íslensk ættleiðing hélt svo kynningu á Íslenska ættleiðingamódelinu sem mikil ánægja var með og lærðu Tékkarnir eitt og annað um skipulag málaflokksins og samfélagsuppbyggingu á Íslandi.

Sendinefndin fékk kynningu á starfi barnaverndar Brno, en það er næst stærsta borg Tékklands og þar eru höfuðstöðvar ættleiðingamálaflokksins. Íslensk ættleiðing var með kynningu á starfi Barnaverndarnefndanna á Íslandi og fengu báðir aðilar góða innsýn í helstu strauma og stefnur í barnaverndarmálum.

Í Brno er safn um sögu Rómafólks og fékk sendinefndin  leiðsögn um safnið (Museum of Romani Culture). Safnið er  virkilega áhugavert og var heimsóknin mjög lærdómsrík.

Það sem stóð þó upp úr í ferðinni var að fá að heimsækja barnaheimilið í Most. Þar voru móttökurnar frábærar og kynntist hópurinn betur faglega starfinu þar og starfsfólki.

Ferðin heppnaðist afar vel og var mjög lærdómsrík. Það er því ekki spurning um að ferðin skilar aukinni þekkingu inn í félagið.


Svæði