Fréttir

Rannsókn

Hvernig farnast ættleiddum börnum erlendis frá á Íslandi?

 

Kæra foreldri/forráðamaður

Nú fer fram rannsókn á heilsu og líðan ættleiddra barna á Íslandi. Fyrirmynd hennar er rannsókn sem Dr. Dana Johnson gerði á fjölþjóðlegu ættleiðingarþýði í Minnesotafylki í Bandaríkjunum á árunum 2001 til 2002.

Gildi þessarar rannsóknar felst fyrst og fremst í því að auka skilning á líðan ættleiddra barna á Íslandi og aðstæðum þeirra auk þess sem rannsóknin getur gefið upplýsingar um hvort þau og kjörforeldrar þeirra fái viðeigandi þjónustu. Mikil þörf er á þessum upplýsingum þar sem sambærilegra gagna hefur ekki áður verið aflað á Íslandi.

Á næstunni verður þessi könnun send til foreldra allra ættleiddra barna á Íslandi á aldrinum 1 árs til 18 ára. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Íslenska ættleiðingu sem hefur aðstoðað við útsendingu spurningalistanna og munu nöfn og aðrar upplýsingar um þátttakendur ekki berast til rannsakenda.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Málfríður Lorange taugasálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild LSH.  Aðrir rannsakendur eru Dagbjörg B. Sigurðardóttir sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum, Kristín Kristmundsdóttir félagsráðgjafi, Björg Sigríður Hermannsdóttir nemi, Linda Björk Oddsdóttir nemi og Jakob Smári prófessor í sálfræði við HÍ.

Að sjálfsögðu er foreldrum ekki skylt að svara könnuninni en eftir því sem fleiri og ítarlegri svör berast því marktækari verður rannsóknin og betur verður hægt að auka þekkingu og skilning á þörfum ættleiddra barna og foreldrum þeirra.


Svæði