Félagsfundur 07.04.1979
Félagsfundur haldinn í félaginu Ísland-Kórea 7. apríl '79 kl. 14.
Aðalumræðuefni fundarins, opnun nýrra ættleiðingaleiða, stofnun nýs félags og lög þess. Gylfi Guðjónsson setti fundinn, og gerði grein fyrir nýjustu fréttum af ættleiðingamálum. Hann útskýrði í stórum dráttum frá þeim leiðum sem hugsanlega komu til greina og einnig því að ekki væri hægt að nota nafnið Ísland-Kórea þegar verið væri að reyna að opna nýjar leiðir til annara landa. Nokkrar umræður urðu um hið nýja nafn og komu nokkrar uppástungur og var að síðustu samþykkt einróma nafnið "Íslensk ættleiðing".
Síðan sagði Gylfi frá því að líklegast yrðu helst um að ræða börn frá Bombey, Máritíu og jafnvel Filipseyjum líka, kostnaður væri lílega eitthvað í kring um 1 mill. og þá miðað við að farið væri frá Kaupmannahöfn. Kostnaður gæti orðið eitthvað minni, ef sótt yrðu fleiri en eitt barn í einu.
Gylfi sagði frá að kona sem er milliliður á Bombey væri að fara til Kaupmannah. og að Hollis kæmi til með að koma Gylfa Guðmundssyni í samband við hana. Gylfi Guðmundsson kemur til með að vera í Kaupmannahöfn einhvern tíma og ætlar hann að vera okkur til aðstoðar þar, vera í sambandi við Hollis og láta okkur vita strax ef eitthvað nýtt gerist.
Var ákveðið á fundinum að röðinni á umsóknum væri haldið eins og unt væri og voru umsækjendur kvattir til að láta stjornina vita sem fyrst hvort ætti að kalla umsóknir þeirra til baka frá Noregi.
Lög félagsins voru lesin upp og voru þau samþykkt.
Voru síðan almennar umræður um málin og var fundi slitið um kl. 17.
Fundinn sátu 26 félagsmenn.
Lög félagsins Íslensk ættleiðing
1. gr.
Félagið heitir Íslensk ættleiðing.
2.gr.
Tilgangur þess er:
a) Að aðstoða fólk, sem vill ættleiða börn erlendis frá.
b) Að vinna að auknum félagslegum réttindum kjörforeldra.
c) Að efla tengsl með þeim fjölskyldum, sem ættleitt hafa börn.
3.gr.
Félagar geta allir orðið, sem náð hafa lögaldri og óska að vinna að málefnum félagsins.
4.gr.
Stjórn er skipuð, formanni, gjaldkera og ritara, og skulu þeir kosnir, hver fyrir sig, á aðalfundi ár hvert. Þá skulu kosnir tveir varamenn og tveir endurskoðendur.
5.gr.
Aðalfundur skal haldinn í október ár hvert og skal hann boðaður skriflega, með minnst þriggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi skal þáfarandi stjórn gera grein fyrir störfum sínum og leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins. Aðalfundur ákveður árgjald hverju sinni.
6.gr.
Til að umsækjandi geti notið fyrirgreiðslu af hálfu félagsins, verður hann að vera skuldlaus félagi.
7.gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta fundarmanna, eða hreinan meirihluta félagsmanna.
8.gr.
Ákvæði til bráðabirgða: Fram til aðalfundar í október '79 skal félagið líta sömu stjórn og félagið Ísland-Kórea og hafa með því sameiginlegan fjárhag.