Stjórnarfundur 12.12.2008
Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 12. desember 2008, kl. 20:00
10. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Finnur, Freyja og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðstu fundargerð og gerðu athugasemdir við hana. Ritari mun senda breytta fundargerð á stjórnarmenn. Breytingar voru það miklar að ákveðið var að samþykkja hana á næsta stjórnarfundi
Fundur með dómsmálaráðuneyti
Ingibjörg J. og Guðrún hittu fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu á fundi í byrjun desember. Á fundinum kom fram að ráðuneytið ætlar að leitast við að gera tvíhliðasamning um ættleiðingar milli Íslands og Makedóníu.
Þá voru fræðslumál rædd og kostnaður við undirbúningsnámskeiðin sem ÍÆ er skuldbundið til að halda fyrir þá sem ættleiða í fyrsta sinn en þátttaka í námskeiðinu er forsenda fyrir útgáfu á forsamþykki. ÍÆ hefur haft töluverðan kostnað af þessum námskeiðum og ræddar voru tillögur um hvernig mætti halda kostnaði í lágmarki. Dómsmálaráðuneytið er mjög ánægt með námskeiðin og vill að ÍÆ sjái áfram um þau.
Dómsmálaráðuneytið tilkynnti á fundinum að það hefði sótt til fjárlaganefndar um 6,5 milljónir fjárframlag til ÍÆ fyrir næsta ár en stjórn ÍÆ hafði farið fram á 12 milljónir í fjárframlag. Ekki er enn vitað hvort það framlag verður skorið frekar niður.
Fjárhagsáætlun
Ráðstafanir til að draga úr kostnaði eru helstar þær að minnka launakostnað og húsaleigu. Búið er að semja við starfsmenn um að lækka starfshlutfall og segja upp leigu á húsnæðinu og er verið að leita að ódýrara húsnæði.
Hækkun gjalda vegna ættleiðinga rædd. Ljóst er að gera verður breytingu á innheimtu gjaldanna, gjöldin verður að hækka og fjölga verður greiðslunum í samræmi við lengingu biðtíma. Til hliðsjónar við breytingar á gjaldtökunni er höfð gjaldtaka annarra ættleiðingarfélaga á norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir að greitt verði innritunargjald um leið og fólk skráir sig á biðlista eftir barni, biðlistagjald fyrir hvert ár í biðtíma og lokagreiðsla áður en barn er sótt.
Millifærslur
Vegna erfiðleika með gjaldeyrismillifærslur ætlar Finnur að taka að sér að tala við Seðlabankann og óskað eftir að liðkað verði til vegna sérstakra aðstæðna fyrir ættleiðendur.
NAC ráðstefna 2009
Aðalfundur NAC og ráðstefnan verður 3. til 6. september í Reykjavík. Ingibjörg B. er búin að senda bréf til formanns NAC og skýrði út í hvaða aðstöðu ÍÆ er vegna bankahrunsins. Búið er að fá tilboð frá Ice Travel um hótel fyrir ráðstefnugesti og fundarsal. Ingibjörg B. mun sjá um að gera samninga við Ice Travel fyrir hönd ÍÆ í næstu viku.
Endurútgáfa forsamþykkis
Komið er svar frá dómsmálaráðuneytinu við bréfi ÍÆ þar sem farið var fram á undanþágu fyrir þá sem eru á biðlista og þurfa á nýtt samþykki vegna langs biðtíma og fara yfir 45 ára aldursviðmörk á biðtímanum. Ráðuneytið er ekki tilbúið til að rýmka frekar þær reglur sem búið var ákveða.
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari