Fréttir

Hamingjustund

Fyrsta stund fjölskyldunnar saman
Fyrsta stund fjölskyldunnar saman

Í dag hittum við litla sálufélagan okkar í fyrsta skiptið. Það er erfitt að lýsa þessari ógleymanlegu stund, en svona sterkar tilfinningar höfum við aldrei fundið áður!
Við vöknuðum alltof snemma í morgun, í geðshræringu, með fiðring í maganum, skjálfta í höndunum og tárakirtlarnir voru frekar ofvirkir. Við áttum að mæta á barnaheimilið kl. 9:00 (vorum reyndar mætt kl. 8:00... og biðum fyrir utan, við vildum alls ekki vera of sein!). Við áttum klukkutíma fund með forstöðukonunni og fleirum þar sem við fengum fleiri myndir af Martin og upplýsingar um hvernig persóna hann er. 
Síðan kom að þeirri stundu að forstöðukonan fór að sækja Martin. Spenningurinn var svakalegur og munum við aldrei gleyma þeirri stund þegar Martin kom labbandi í áttina til okkar. Hann var feiminn og hlédrægur og labbaði löturhægt til okkar og tók við gröfu sem við gáfum honum. Það var erfitt að halda aftur af tárum á þessari stundu.
Þessi fyrsti dagur sem við vorum saman sem fjölskylda gekk vonum framar. Það tók Martin ekki langan tíma að fara í leiki með mömmu og pabba og kúra í fanginu á okkur. Við vorum saman allan daginn, settum hann í rúmið í hádegislúrnum, komum svo aftur til hans eftir lúrinn og þá kom hann hlaupandi og hlægjandi í fangið á mömmu sinni. Erfiðast var að leggja hann í rúmið um kvöldið og þurfa að fara frá honum yfir nóttina. En morguninn eftir þegar við komum aftur til hans þá hljóp hann hlægjandi í fangið á okkur.
Við erum svo ævinlega þakklát fyrir litla sálufélagann okkar.

Umsókn Steins og Selmu var samþykkt af yfirvöldum í Tékklandi 7. apríl 2015 og voru þau pöruð við Marin 30. september 2016. Þau voru því á biðlista tæpt eitt og hálft ár, eða 17 mánuð.
Þetta er er fjórða fjölskyldan sem sameinast á þessu ári og börnin orðin fimm. Nú hafa 31 börn verið ættleidd frá Tékklandi til Íslands.

Svæði