Fréttir

Reynslusaga - eftir Sigrúnu Önnu og Gunnar

Anna Sigrún, Katrín, Gunnar og Óskar
Anna Sigrún, Katrín, Gunnar og Óskar

Það var í mars 2014 sem við hjónin ákváðum að hefja okkar ættleiðingarferli. Ári áður höfðum við rætt þennan möguleika enda hafði okkur ekki gengið sem skyldi að stofna fjölskyldu. Þá ræddum við að við ætluðum ekki í neinar læknisfræðilegar meðferðir eða athuganir. Nánir vinir okkar voru í ættleiðingarferli sjálf og við ákváðum að fylgjast með þeim og taka svo ákvörðun.

Daginn sem vinir okkar fengu símtalið sitt fundum við að við vorum tilbúin og í apríl 2014 hófum við að safna gögnum fyrir forsamþykkið. Við vorum alveg ákveðin svo við héldum bara áfram með umsóknina þrátt fyrir að ekki væri von á næsta „Er ættleiðing fyrir mig?“ námskeiðið fyrr en seint um haustið, en til að fá forsamþykki þarf að fara á eða vera skráður á svona námskeið. Það fór því svo að við fengum forsamþykki í september 2014, mánuði áður en við fórum á fyrri hluta námskeiðsins og vorum því eðlilega komin mun lengra í ferlinu en aðrir á námskeiðinu. Við sáum örlítið eftir að hafa ekki athugað með næstu námskeið þegar við vorum enn að íhuga ættleiðingu því það reyndist okkur erfitt að finnast við ekki á sama stað og aðrir á námskeiðinu. Við hefðum þá mögulega sótt næsta námskeið á undan frekar.

Eftir að forsamþykkið var komið í gegn fórum við í að undirbúa umsóknina út, við höfðum valið Tékkland og tekið ákvörðun um að sækja um að ættleiða systkini á aldrinum 0-4 ára. Við vorum ekki að flýta okkur í þessu svo það var ekki fyrr en í janúar 2015 sem við vorum tilbúin að senda umsóknina í þýðingu. Þann 20. apríl 2015 var umsóknin okkar samþykkt í Tékklandi og biðin hófst. Okkur finnst mikilvægt að nefna að við sátum ekki heima og biðum eftir símtalinu. Við frestuðum engu, hættum ekki við nein plön vegna þess að við vorum að bíða. Við héldum áfram með lífið, ferðuðumst, fluttum, skiptum um vinnu vitandi að einn daginn kæmi símtalið og ekki fyrr en þann dag myndi lífið byrja að snúast um það.

Sá dagur kom þann 1. febrúar 2017. Það var ekkert í heiminum sem hefði getað undirbúið okkur fyrir tilfinningarússíbanann sem fór í gang þegar Kristinn hjá Íslenskri ættleiðingu hringdi í okkur í hádeginu þann dag og tilkynnti okkur að við hefðum verið pöruð við rúmlega 19 mánaða tvíbura, stelpu og strák. Fyrst þurftum við að lesa upplýsingarnar um börnin áður en við samþykktum og fengum sendar myndir ... en í hjartanu vissum við strax að þetta væru börnin okkar og það staðfestist bara enn frekar þegar myndirnar birtust á skjánum hjá okkur.

Við flugum út þann 19. febrúar ásamt mömmu Önnu, en við fengum hana til að koma með fyrstu 10 dagana til að sjá um þvott og eldamennsku og aðra praktíska hluti svo við gætum einbeitt okkur að börnunum og tengslamynduninni við þau. Að morgni 21. febrúar mættum við á fund á barnaheimilinu í bænum Karlovy Vary og fengum loksins loksins loksins eftir hann að hitta börnin okkar. Þau hlupu ekki beint í fangið á okkur, voru örlítið tortryggin fyrstu mínúturnar en jafnframt forvitin um okkur. Okkur fannst það mjög jákvætt, vildum í raun ekki endilega að þau myndu hlaupa beint í fangið á okkur, ókunnugu fólki. Eftir ca 10 mínútur máttum við þó halda á þeim og uppfrá því hélt sambandið bara áfram að styrkjast. Næstu 4 daga eyddum við öllum vökutíma barnanna með þeim á barnaheimilinu, böðuðum þau, gáfum þeim að borða og settum í rúmið og á fjórða deginum fluttu þau alfarið til okkar. Að sjálfsögðu var þessi aðlögunartími erfiður fyrir okkur foreldrana en mjög mikilvægur fyrir börnin og við fundum það vel á þessum fjórum dögum hvernig tengslin styrktust og það var okkur líka mikilvægt að gera þetta í takt við þeirra líðan.

30709400_10155157073190194_5895282950987055104_n.jpg

Fjórum dögum eftir að þau fluttu til okkar var okkur frjálst að flytja okkur yfir til Brno þar sem við biðum næstu vikur eftir að úrskurðurinn væri kominn og þau mættu fara með okkur til Íslands. Bílferðin þangað tók 4 klst og var mjög erfið. Börnin höfðu aldrei farið í bíl áður, voru mjög hrædd og grétu mikið.

Í Brno höfðum við leigt frábæra íbúð á góðum stað og það munaði svo miklu í þessari bið. Tíminn flaug áfram, tengslin við börnin styrktust með hverjum deginum og öllum leið vel. Við vorum dugleg að ferðast með lestum og strætó og vöndum börnin við allskyns ferðamáta. Þegar úrskurðurinn loksins féll gerðist það óvænt og við fengum bara 2 klukkustundir til að vera mætt fyrrir dómara. Gleðin var mikil yfir að mega fara heim og við pöntuðum okkur flug 2 dögum seinna frá Prag með millilendingu í Kaupmannahöfn, tókum lest þangað og gistum eina nótt á meðan yndislega Marta, þýðandi og túlkur og engill í mannsmynd, gekk frá skjölum fyrir okkur.

 

Ferðalagið heim gekk eins og í sögu og við lentum á Íslandi 29. mars algjörlega úrvinda á sál og líkama og alsæl yfir að vera komin heim. Eftir smá stopp í Reykjavík og í sveitinni hjá ömmu og afa komum við loksins heim á Reyðarfjörð 1. apríl 2017 sem fjögurra manna fjölskylda.

Nú er liðið rétt rúmlega ár síðan við komum heim. Fjölskyldunni líður vel saman, allt er eins og það á að vera. Börnin eru í leikskóla, foreldar í vinnu og það er ótrúlegt að hugsa til þess að það sé einungis liðið eitt ár. Við höfum fengið fyrirspurnir frá nokkrum aðilum um hvort við mælum með að ættleiða fleiri en eitt barn í einu og í hreinskilni sagt þá mælum við ekki með því við neinn. Við mælum með því að fólk fari í mikla sjálfskoðun áður en það tekur þá ákvörðun og geri ráð fyrir að þetta verði erfiðara en þau sjá fyrir sér og taki svo ákvörðun út frá því. Við sjáum alls ekki eftir okkar ákvörðun og hefðum ekki viljað gera þetta neitt öðruvísi en þetta er erfitt. Það er alltaf erfitt að ættleiða barn, sama hversu vel gengur. Yndislegt en erfitt. Ættleiðing er samt sem áður alveg dásamleg leið til að eignast börn og ef við fáum spurninguna hvort við mælum með ættleiðingu þá er svarið alltaf það sama: Já, 100%.

Við segjum oft að við höfum dottið í lukkupottinn að hafa verið pöruð saman við Óskar og Katrínu en í raun hlýtur þetta að hafa verið skrifað í skýin því við getum ekki ímyndað okkur að eiga einhver önnur börn. Þessi fjögurra manna fjölskylda átti alltaf að sameinast, það getur bara ekki annað verið.

16809159_10154096011055194_2109152081_n.jpg
 
30706425_10155153070015194_2899704134322094080_n.jpg
 
30728482_10155157073120194_6615893710666203136_n.jpg
 
 
30705248_10155157073135194_4323674256111042560_n.jpg
 
30741980_10155157073170194_9213063247760982016_n.jpg
 
30724972_10155157073225194_3245261951529385984_n.jpg
 
30710845_10155157073245194_2794079386591035392_n.jpg
 
30724967_10155153070050194_7990132758322085888_n.jpg
 
30711080_10155157073215194_4895912870878904320_n.jpg

Svæði