Árin sem enginn man - Höfundur: Sæunn Kjartansdóttir
Við munum ekki eftir fyrstu mánuðunum í lífi okkar, jafnvel ekki fyrstu tveimur til þremur árunum. Þó hafa rannsóknir í taugavísindum og athuganir á sálarlífi fullorðinna leitt æ betur í ljós að einmitt þessir mánuðir og ár hafa varanleg áhrif á allt líf okkar þaðan í frá. Þá er heilinn í örustum vexti og galopinn fyrir áhrifum umhverfisins, öll reynsla ungbarnsins hefur bein áhrif á sjálfsmynd þess og samband við aðra. Alúð og örvandi umönnun er endurgoldin með ótrúlegum þroska. Samskipti okkar við annað fólk og reynsla síðar á ævinni skiptir líka máli en ekkert jafnast á við fyrstu tengslin því þau veita mikilvæga undirstöðu undir allt lífið framundan. Árin sem enginn man er brýn bók fyrir foreldra ungra barna og alla þá sem annast lítil börn.
Höfundurinn Sæunn Kjartansdóttir er sjálfstætt starfandi sálgreinir sem hefur langa reynslu af einstaklingsmeðferð og handleiðslu fólks í heilbrigðisþjónustu. Hún er höfundur bókarinnar Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi (1999).
„Sæunn talar tæpitungulaust um ábyrgð foreldra í þessari bók. Fyrst í stað virðist hún óvægin í þeirra garð, en um leið sýnir hún umburðarlyndi þess sem veit að ekkert foreldri er fullkomið. Og vilji maður vanda sig í foreldrahlutverkinu er gríðarlegan fróðleik og mannskilning að finna í bók Sæunnar. Ég vildi bara óska að ég hefði lesið hana tíu árum fyrr.“
Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona og móðir
„Börn eru ekki fjárfesting og tími er ekki peningar. Barn er barn í stuttan tíma og tími með barni geymist þótt það séu árin sem gleymast. Sæunn Kjartansdóttir gerir okkur meðvituð um mikilvægi tímans sem geymist.“
Andri Snær Magnason, rithöfundur og faðir