Fréttir

40 ára afmæli Íslenskrar ættleiðingar

15.janúar 1978 var stofnfundur félagsins haldinn í Norræna húsinu. Félagið hlaut nafnið Ísland – Kórea og var síðan sameinað félaginu Ísland – Guatemala og hlaut hið sameinaða félag nafnið Íslensk ættleiðing árið 1983. Árið 2010 var félagið svo sameinað Aðþjóðlegri ættleiðingu. Á þessum 40 árum síðan félagið var stofnað hefur margt breyst.

Í upphafi byggðist allt starf Íslenskrar ættleiðingar upp á sjálfboðavinnu félagsmanna og annarra velunnara, ekki var skrifstofa og flestir stjórnarfundir voru haldnir heima hjá stjórnarmönnum. Vendipunktur varð í starfi félagsins þegar skrifstofa var opnuð árið 1988, en þegar hafið var samstarf við Indland var eitt af skilyrðum þeirra að félagið væri með skrifstofu. Mikil hluti starfsins hélt þó áfram að vera í sjálfboðavinnu, t.d. fræðsla og stjórnarstörf. Árið 1993 kom svo jákvætt svar frá Fjárlaganefnd Alþingis um að félagið fengi árlegan styrk frá hinu opinbera en fyrir það hafði eina tekjulind félagsins verið félagsgjöld.

Miklar breytingar urðu í heimi ættleiðingarmála á þessum árum. Árið 1993 var gerður Haag samningurinn um vernd barna og ættleiðingar á milli landa en Ísland gat ekki gerst aðili að þeim samningi fyrr en ný ættleiðingarlög komu árið 2000. Með aðild að samningnum er tryggð samvinna aðildarríkjanna um ættleiðingar barna. Sama ár, 1993, kemur Íslensk ættleiðing að stofnun Euradopt – regnhlífarsamtök ættleiðingarfélaga í Evrópu. Og tveimur árum síðar gengur félagið í samtök norrænna ættleiðingarfélaga NAC. Það hefur verið og er mjög mikilvægt fyrir lítið félag eins og okkar að komast í samstarf við önnur félög til að efla allt starf.

Kjörforeldrar áttu ekki rétt á fæðingarorlofi áður en frumvarp um það var samþykkt á Alþingi 1995. 2006 kemur Ættleiðingarstyrkur en fram að því töldu stjórnvöld að sá styrkur sem félagið sjálft fékk væri nóg, ekki þyrfti sérstaklega að styrkja kjörforeldra.

Eins og í öllum félögum hafa skapast deilur, komið fram ólíkar hugmyndir sem ekki allir voru kannski sáttir við á sínum tíma, en ég held að við getum öll verið sammála því að sú þróun sem átt hefur sér stað innan félagsins sé mjög jákvæð.

Í desember 2013 var undirritaður þjónustusamningur milli Innanríkisráðuneytis og Íslenskrar ættleiðingar. Baráttan sem átt hafði sér stað á árunum á undan hafði skilað sér að hluta. Samningurinn tryggði fjármögnun félagsins til 2 ára og gjörbreyti aðstöðu þess til að sinna þeim verkum sem því er ætlað skv. lögum og reglugerðum. Þessi samningur og framlög til félagsins úr fjárlögum mörkuðu tímamót í sögu ættleiðinga, vöktu og vekja athygli erlendis því með þessu eru fjármögnun og gæði ættleiðingarstarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga. Hið Íslenska módel er orðið vel þekkt, þjónustusamningurinn við ráðuneytið sem tryggir rekstur félagsins þannig að fræðsla, ráðgjöf, stuðningur og þjónusta er tryggð.

Um síðustu áramót var komið að endurnýjun á þjónustusamningnum. Teljum við að margt í samningnum þurfa að laga að breyttu umhverfi og erum enn þeirrar skoðunar að það fjármagn sem félagið fær vegna hans, nægi ekki til að sinna öllum lögboðnum verkefnum. En eins og við vitum öll hafa miklar breytingar átt sér stað í íslenskum stjórnmálum síðasta árið og munu næstu mánuðir vera nýttir til að kynna þeim aðilum sem koma nýir að, málaflokkinn.

Starf og þjónusta félagsins miðar að því að sinna félagsmönnum eins vel og kostur er enda eru þeir félagið. Eitt af markmiðum Íslenskrar ættleiðingar er að tryggja góða faglega þjónustu. Nú starfa bæði sálfræðingur og félagsráðgjafi ásamt starfsmanni skrifstofu og framkvæmdarstjóra. það mikil breyting frá 1988 þegar einn starfsmaður var í hlutastarfi. Uppbygging á fræðslustarf hefur verið í mikilli endurskoðun síðustu mánuði, farið hefur verið af stað með Barna – og unglingastarf aftur, auk þess sem fræðsla til væntanlegra kjörforeldra verður efld. Félagið þarf að vera tilbúið að taka þátt í þeirri þróun sem á sér stað hverju sinni og leita að nýjum leiðum til að aðstoða og fræða félagsmenn.

Í viðræðum okkar við ráðuneytið í tengslum við endurskoðun á þjónustusamningnum hefur komið fram að ráðuneytið telji mikilvægt að félagið haldi áfram að leggja áherslu á að veita félagsmönnum víðtæka ráðgjöf og þjónustu eftir ættleiðingu, þar sem sá stuðningur er gríðarlega mikilvægur þáttur í ættleiðingarferlinu. Í gæðahandbók Haag-stofnunarinnar er meðal annars vísað til þess að ættleiðing sé ekki einn einstakur atburður sem lýkur eftir að ættleiðing fer fram heldur er um lífslangt ferli einstaklings að ræða.

Og lýsir þetta vel stöðu ættleiðingarmála í dag, ættleiðingum fer fækkandi og biðin er orðin lengri. Þessar breytingar eru ekki bara að eiga sér stað hjá okkur heldur í öllum heiminum. Rúmlega 1.000 börn hafa verið ættleidd til landsins, þó ekki öll í gegnum félagið, og á síðustu árum hafa ættleiðingar verið um 6 á ári. Áherslan hefur færst mun meira frá því að sjá um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og stuðning til bæði væntanlegra foreldra á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. Fleiri eru farnir að huga að því hvaða áhrif ættleiðingin getur hafa haft og aðrir eru farnir að huga að uppruna sínum og vilja leggja í þá vegferð að leita uppruna síns og þessir aðilar þurfa aðstoð félagsins. Og Íslensk ættleiðing þarf tækifæri og fjármagn til að mæta því.

Frá því að ég kom að félaginu fyrir 7 árum hefur mikil þróun átt sér stað, sérstaklega er viðkemur allri fræðslu og fjárhagslegum stöðugleika félagsins. En félagið er ekkert án félagsmanna sinna og hefur síðustu ár dregið úr þátttöku þeirra í starfi félagsins, ég vona að félagsmenn fari að nýta sér alla þá fræðslu sem þeim stendur til boða og það góða starfsfólk sem við höfum aðgang að.

Ég vil fyrir hönd félagsins þakka öllum þeim sem hafa komið að þeirri þróun sem átt hefur sér stað frá því að félagið var stofnað fyrir 40 árum síðan.

Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður Íslenskrar ættleiðingar

 


Svæði