Fréttir

40 ára afmælismálþing Íslenskrar ættleiðingar

Þann 16. mars mun félagið halda uppá 40 ára afmæli sitt með metnaðarfullu málþingi. Margir áhugaverðir fyrirlestar verða á málþinginu og hefur fagfólk í málaflokknum tekið vel við sér og mun fjölmenna á málþingið. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun heiðra félagið með opnunarávarpi ráðstefnunnar. Í kjölfar forsetans mun formaður félagsins segja frá því helsta sem hefur gerst í 40 ára sögu Íslenskrar ættleiðingar, en þar hefur margt gott fólk komið við sögu.  

Aðalfyrirlesarinn, Sarah Naish mun svo taka við keflinu og verja klukkustund í að segja málþingsgestum frá aðferðum sem hún hefur þróað í samvinnu við samstarfsfólk sitt í vinnu með börnum sem glíma við tengslavanda og foreldrum þeirra. 

Eftir kaffihlé mun Jórunn Elídóttir velta vöngum um hvers vegna ímyndunaraflið skipti ættleidd börn máli. Jórunn ætti að vera félagsmönnum vel kunn, en hún hefur ritað greinar fyrir félagið og komið fram á fræðslufundum Íslenskrar ættleiðingar. Hildur Ósk Gunnlaugsdóttir verður með síðasta erindi málþingsins, en hún hefur verið að rannsaka líðan fullorðinna ættleiddra í meistararitgerð sinni í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Hildur Ósk hefur mikla innsýn inní reynsluheim ættleiddra, þar sem hún er sjálf ættleidd frá Indlandi. 

Boðið verður uppá hringborðsumræður að erindunum loknum. 

Til þess að ljúka ráðstefnunni mun Kristín Ósk Wium Hjartardóttir ásamt börnum sínum flytja nokkur lög og ættu því allir að geta liðið inn í helgina orkumiklir og fullir innblæstri. 

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, tvöfaldur Edduverðlaunahafi stýrir málþinginu


Svæði