Fréttir

Aðalfundur 2017

Samkvæmt samþykktum Íslenskrar ættleiðingar skal aðalfundur félagsins vera haldinn fyrir lok mars. Að þessu sinni var aðalfundurinn haldinn 9. mars á Hótel Hilton. Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður félagins hóf fundinn með skýrslu stjórnar. Í skýrslunni var farið yfir það helsta sem hefur drifið á daga félagsins síðastliðið ár og var þar af nógu að taka. Þá voru ársreikningar félagsins lagðir undir fundinn og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Fjórir höfðu boðið sig fram í fjögur laus sæti í stjórn félagins og voru því allir sjálfkjörnir. Stjórn félagsins skipa því Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður, og meðstjórnendurnir Ari Þór Guðmannsson, Dagný Rut Haraldsdóttir, Lára Guðmundsdóttir, Lísa Björg Lárusdóttir, Magali Mouy og Sigurður Halldór Jesson.

Fundurinn tók svo afstöðu til félagsgjalds, en lagt var til að halda því óbreyttu að sinni, sú tillaga var samþykkt. Félaginu höfðu borist breytingartillögur við samþykktir félagsins og voru þær bornar upp til samþykktar. Allar tillögurnar hlutu brautargengi og hafa þær verið tilkynntar til Innanríkisráðuneytisins.

Reynsla stjórnarinnar af börnum er talsverð, en samtals eiga þau 10 börn, þar af 6 ættleidd, 2 frá Tékklandi og 4 frá Kína. Svo eiga ættleiddir fulltrúa í stjórninni, en Lísa Björg var ættleidd frá Indónesíu fyrir margt löngu.

Menntun þeirra er einnig fjölbreytt, en í stjórninni höfum við tvo lögfræðinga, sáttamiðlara, grunnskólakennara, alþjóðamarkaðsfræðing, auðlindafræðing og hjúkrunarnema með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum.

Aldrei hefur búseta stjórnarinnar verið fjölbreyttari, en nú eiga fulltrúar austurlands, suðurlands og höfuðborgarsvæðisins sæti í stjórn félagsins.


Svæði