Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar
Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar var haldinn 20 mars sl. og mættu um 55 manns á hann. Kosið var í stjórn og hefur nýja stjórnin nú komið saman og skipt með sér verkum.
Formaður: Ingibjörg Jónsdóttir
Varaformaður: Karl Steinar Valsson
Gjaldkeri: Pálmi Finnbogason
Ritari: Arnþrúður Karlsdóttir
Meðstjórnendur: Ingibjörg Birgisdóttir, Kristjana Jóhannsdóttir og Helgi Jóhannesson sem er nýr í stjórn.
Reikningar félagsins fyrir síðasta ár voru samþykktir athugasemdalaust og árgjald fyrir 2007 var ákveðið kr. 4.500 og verður það innheimt í apríl.
Ákveðið var að skoða áfram hvort og hvernig hægt er að koma við kosningu fyrir fólk sem ekki býr á Reykjavíkursvæðinu.
Meðal ábendinga sem fram komu á fundinum var hvort halda mætti aðalfund um helgi til að auðvelda utanbæjarfólki að taka þátt.
Einnig heyrðust raddir óánægðra einhleypra umsækjenda með breytingar á reglum í Kína sem gerir þeim ekki kleyft að ættleiða þaðan.
Eftir kaffihlé hélt Ketil Lehland, sem hefur áratugareynslu í ættleiðingarmálum og er nú sérstakur ráðgjafi norska ættleiðingarfélagsins Adopsjonsforum, erindi um breytingar í ættleiðingarmálum að undanförnu, m.a. fjölgun umsókna á heimsvísu á sama tíma og færri börn eru ættleidd sem hefur leitt til sífellt stækkandi biðlista og mjög langs biðtíma í flestum löndum. Ketill sýndi m.a. tölur frá mörgum löndum og útskýrði þá þróun sem hefur orðið, en einnig fjallaði hann um stöðu einhleypra umsækjenda sem er í öllum nágrannalöndunum mjög erfið og sem dæmi má nefna að norsku félögin taka ekki lengur við umsóknum frá einhleypum. Einnig eru færri möguleikar fyrir eldri umsækjendur, þá sem eru ekki heilsuhraustir, hafa litla menntun og fleiri hópa.
Fljótlega mun úrdráttur úr erindi Ketils verða birt hér á síðunni.