Fréttir

RÚV - Ættleiðingar færast til Reykjavíkur

Sýslumanninum í Reykjavík hefur verið falin umsjón með veitingu leyfa til ættleiðinga. Sýslumaðurinn í Búðardal óskaði eftir því í sumar að verkefnið færi frá embættinu. Formaður Íslenskrar ættleiðingar segir að sýslumenn ættu ekki að hafa umsjón með þessum málaflokki.

Hörður Svavarsson, formaður íslenskrar ættleiðingar segir að sýslumannsembættin séu í eðli sínu gamaldags yfirvald þar sem ekki ríki sérþekking á málefnum barna. Þess vegna ættu ættleiðingamál ekki heima hjá slíku embætti.

Sýslumanninum í Reykjavík hefur verið falin umsjón með veitingu leyfa til ættleiðinga samkvæmt nýrri reglugerð innanríkisráðherra sem tók gildi um áramót. Frá árinu 2006 hefur Sýslumaðurinn í Búðardal farið með veitingu leyfa til ættleiðinga. Stjórn Íslenskrar ættleiðingar segir breytingarnar jákvæðar. Hörður segir að litið sé á þetta sem bráðabirgðaráðstöfun. Ekki sé verið að breyta neinum reglum, sýslumaðurinn sem tekur við verkefninu vinni væntanlega eftir sömu reglum og sýslumaðurinn í Búðardal.

Hörður segir að huga þurfi að framtíðarskipulagi fyrir málaflokkinn. Nú er starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins að vinna að nýrri ættleiðingalöggjöf. Hörður vonast til þess að þegar því er lokið verði ættleiðingar færðar í nýja stofnun, þar sem starfsmenn hafi sérþekkingu á málefnum barna:

„En sýslumannsembættin eru í eðli sínu svolítið gamaldags yfirvald, þar sem menn eru vel að sér í lögfræði en hafa ekki sérþekkingu á málefnum barna.“

Sýslumaðurinn í Búðardal óskaði eftir því í sumar að málaflokkurinn færi frá sínu embætti. Áslaug Þórarinsdóttir, sýslumaður í Búðardal sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja gefa upp ástæðuna fyrir því. Í fréttabréfi íslenskrar ættleiðingar segir að félagið óttist að flutningurinn muni ekki fela í sér kerfisbreytingu heldur aðeins tilfærslu á verkefnum milli landshluta.

http://www.ruv.is/frett/attleidingar-faerast-til-reykjavikur


Svæði