Mbl - Af skattlagningu barneigna
Það voru mörg sporin sem stíga þurfti í tengslum við þessa barneign mína. Það þurfti að fara milli stofnana hér heima, sækja alls konar vottorð og umsagnir um að við hjónin værum líkamlega og andlega fær um að ala önn fyrir barninu okkar þegar þar að kæmi.
Þegar umsóknin okkar um barneignina fór til Kína tók við löng bið, u.þ.b. meðgöngulöng, þar sem kínversk stjórnvöld mátu umsókn okkar og leituðu dóttur okkar uppi. Svo barst okkur mynd. Eftir nokkurra vikna, afar langa og óþreyjufulla bið lögðum við af stað í ferðalag þvert yfir hnöttinn, hittum loksins telpuna okkar og komum með hana heim.
Þvílík hamingja.
En kveðjurnar sem við og stúlkan litla höfum fengið frá stjórnvöldum síðan heim var komið hafa verið frekar nöturlegar. Ferðalag eins og hér er að framan lýst er alls ekki ókeypis: skjalavinnslan öll kostar sitt, skráningargjöld af ýmsum toga leggjast þar ofan á, greiða þarf styrk til barnaheimilisins í Kína og síðast en ekki síst borga fyrir ferðina þegar barnið er sótt. Samtals eru þetta u.þ.b. milljón krónur sem tínast til. Íslenska ríkið kemur ekki til móts við þennan kostnað á nokkurn hátt. Það var meira að segja svo, að styrkur sem við hjónin fengum frá stéttarfélögum okkar (sem við höfum auðvitað greitt til með skattlögðum krónum okkar gegnum tíðina) var skattlagður að fullu, á þeirri forsendu að um persónuleg útgjöld hafi verið að ræða. Tekið skal fram að styrkurinn náði engan veginn að koma til móts við útgjöldin vegna ættleiðingarinnar
Þegar ég las svo um hremmingar nýbakaðrar móður hér á landi þegar hún eignaðist dóttur sína fyrr á árinu varð ég hugsi. Mér fannst sem sé verðlagning ríkisvaldsins á barneign hennar áhugaverð. Tæpar 800.000 kr. Það er það sem hvert barn, sem íslensku samfélagi áskotnast eftir tiltölulega venjubundnum leiðum, kostar okkur skattgreiðendur (að vísu þurfti þessi móðir að njóta aðstoðar skurðstofu við sína barneign). Ég hef reyndar ekki tölu yfir þær upphæðir sem foreldrar eru styrktir um þegar ekki þarf að leita liðsinnis skurðstofu vegna barneigna, en þær hljóta þó að vera töluverðar, enda mæðraeftirlit og öll aðstaða til barneigna sem betur fer betri hér en víðast hvar annars staðar í heiminum. Þetta er kostnaður sem við horfum alls ekki í og greiðum með gleði úr sameiginlegum sjóðum okkar. Þetta er jafnframt kostnaður sem íslenska ríkið sparar sér þegar börn eru ættleidd erlendis frá. Íslenska ríkið fær meira að segja aukasporslu þegar svo er gert, getur skattlagt styrki sem foreldrar ættleiddra barna afla sér vegna barneignarinnar.
Það er þannig hængur á gjafmildi ríkisins gagnvart þeim foreldrum sem eignast börn sín gegnum íslenska heilbrigðiskerfið, sé tekið mið af reynslu okkar hjóna. Þar sem barneign okkar og kostnaður af henni er af skattayfirvöldum talin "persónuleg útgjöld", og þar sem ættleidd börn njóta samkvæmt lögum jafnræðis á við önnur íslensk börn, þá hljóta þessi útgjöld ríkisins vegna meðgöngu og fæðinga, sem greidd eru sem styrkur til foreldra gegnum heilbrigðiskerfið, að teljast jafnskattskyld og styrkurinn sem við fengum frá stéttarfélögum okkar á sínum tíma, allur kostnaður vegna barneigna á Íslandi hlýtur að teljast til "persónulegra útgjalda". Þarna er því komin fyrirtaksleið til að auka tekjur ríkissjóðs og það þarf eingöngu að beita jafnræðisreglunni til þess að opna fyrir hana.
Önnur leið til að uppfylla jafnræðisregluna væri auðvitað sú að koma til móts við foreldra ættleiddra barna með einhverjum hætti, hætta a.m.k. að skattleggja stéttarfélagsstyrki sem veittir eru vegna ættleiðinga. En miðað við þá afgreiðslu sem þingsályktunartillaga þessa efnis hefur fengið á löggjafarsamkomunni hingað til, þá hugnast ríkisvaldinu ekki sú leið. Ég vænti þess því að hin leiðin verði talin álitlegri. Í það minnsta sætti ég mig ekki við það að mín barneign njóti ekki jafnræðis á við aðrar barneignir Íslendinga og því síður við það að með því að þetta ójafnræði ríkir, sé gefið í skyn að dóttir mín sé ekki jafnvelkomin í hóp Íslendinga og önnur börn.
Höfundur er móðir íslenskrar telpu, og starfar sem framkvæmdastjóri stjórnsýslunefndar.