Fréttir

Áhætta fylgir ættleiðingu barns af stofnun

Geðlæknirinn Ron Federici
Geðlæknirinn Ron Federici
21. janúar 2005 | Innlendar fréttir | 493 orð | 1 mynd
 
Geðlæknirinn Ron Federici hefur sérhæft sig í lækningum á stofnanaskaða ættleiddra barna. — Morgunblaðið/Jim Smart
Ættleidd börn, sem alist hafa upp á stofnunum, geta átt við ýmis hegðunarvandamál að stríða sem og líkamleg, m.a. vegna vannæringar. Nauðsynlegt er fyrir foreldra að gera sér grein fyrir áhættunni og sjá til þess að barnið fái mjög reglulegt eftirlit allt frá fyrsta degi. Sé það gert eru góðar líkur á að barnið aðlagist nýju umhverfi. Hér er rætt við bandaríska geðlækna og íslenska móður.
ANDLEG vannæring er ekki síður áhrifamikil en líkamleg vannæring. Þetta sanna dæmi um börn sem alist hafa upp fyrstu mánuði og jafnvel ár ævinnar á stofnunum en eru síðan ættleidd til annarra landa. Vandinn er hvað mestur í löndum Austur-Evrópu, sérstaklega í Rúmeníu. "Sum munaðarleysingahæli líta betur út en önnur en það er ekki til neitt sem heitir gott munaðarleysingahæli," segir bandaríski barnageðlæknirinn dr. Ron Federici, aðspurður hvað það sé sem orsaki það að börn sem alast upp á stofnun verði fyrir skaða. Federici mun halda fyrirlestur á námstefnu um tengslaröskun í dag sem Velferðarsjóður barna styrkir en Samtök um tengslaröskun standa að. Þá flutti hann fyrirlestur á Læknadögum í gær.

"Á öllum munaðarleysingjahælum er skortur og vanræksla, umsjónarmenn eru alltof fáir miðað við fjölda barna, sum barnanna njóta betri aðbúnaðar en önnur en hættan á misnotkun, hirðuleysi og skorti á næringu er til staðar á flestum stöðunum. Eftir því sem börnin dvelja lengur í þessu umhverfi þeim mun lengur vara áhrifin. Sumum börnum vegnar mjög vel og þau ná sér fljótar en önnur. Sum þurfa lengri tíma til að ná sér og sum ná sér aldrei. En okkar markmið er að reyna að þjálfa foreldra í að eiga við börnin sín, sama hvar þau eru í bataferlinu."

Mismunandi aðbúnaður munaðarlausra barna

Federici segir að í fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna t.d. hafi stefna í barnauppeldismálum á stofnunum verið mjög léleg. Það varð m.a. til þess að börnin voru vanrækt. Federici tekur fram að stefna í uppeldismálum munaðarlausra barna sé t.d. góð flestum löndum Suður-Ameríku og víða í Suðaustur-Asíu, þar sem reynt er að koma þeim fyrir í fóstur. En í öðrum löndum er stefnan önnur og börnin mörg. Bandarískum ættleiðingarstofnunum er óheimilt að taka við börnum frá þessum löndum þar til stefna og reglur hafa verið bættar.
 

En liggur aðalvandinn á munaðarleysingjahælunum sjálfum?

"Vissulega verða vandamálin til á stofnununum en við þurfum að fara eitt skref til baka," segir Federici. "Það er umönnun foreldra barnsins. Ekki var hugsað um foreldrana á erfiðum tímum, stundum var lögð mikil áhersla á fólksfjölgun á tímum kommúnismans, þá voru mæður hvattar til að eignast fleiri börn þrátt fyrir að læknishjálp væri af skornum skammti. Það varð til þess að mörg barnanna fæddust fötluð eða glímdu við aðra líkamlega kvilla. Börnin voru þá sett á stofnanir." 

Ástríkt heimili er ekki alltaf nóg

Nauðsynlegt er að börnin fái ítarlega læknisskoðun reglulega. "Með þessu er hægt að fylgjast með framförum barnsins eða skorti á framförum. En því miður bíða mjög margar fjölskyldur með þetta og vona að ástríkt heimili muni bæta allt. En það gerist nú ekki alltaf. Best upplýstu foreldrarnir hefja greiningu og meðferð strax."
 

Hann ítrekar að því fyrr sem meðferð hefst, þeim mun meiri líkur séu á að barnið nái sér og aðlagist nýjum aðstæðum eðlilega. "Foreldrar eiga auðvelt með að fást við vandamál sem tengjast lærdómi en það sem er erfiðast fyrir foreldrana er þegar þeir ráða ekki við barnið, það er stjórnlaust. Ef við getum náð stjórn á barninu snemma verður útkoman góð."

Áhætta fylgir ættleiðingu barns af stofnun


Svæði