Áhætta fylgir ættleiðingu barns af stofnun
"Á öllum munaðarleysingjahælum er skortur og vanræksla, umsjónarmenn eru alltof fáir miðað við fjölda barna, sum barnanna njóta betri aðbúnaðar en önnur en hættan á misnotkun, hirðuleysi og skorti á næringu er til staðar á flestum stöðunum. Eftir því sem börnin dvelja lengur í þessu umhverfi þeim mun lengur vara áhrifin. Sumum börnum vegnar mjög vel og þau ná sér fljótar en önnur. Sum þurfa lengri tíma til að ná sér og sum ná sér aldrei. En okkar markmið er að reyna að þjálfa foreldra í að eiga við börnin sín, sama hvar þau eru í bataferlinu."
Mismunandi aðbúnaður munaðarlausra barna
En liggur aðalvandinn á munaðarleysingjahælunum sjálfum?
"Vissulega verða vandamálin til á stofnununum en við þurfum að fara eitt skref til baka," segir Federici. "Það er umönnun foreldra barnsins. Ekki var hugsað um foreldrana á erfiðum tímum, stundum var lögð mikil áhersla á fólksfjölgun á tímum kommúnismans, þá voru mæður hvattar til að eignast fleiri börn þrátt fyrir að læknishjálp væri af skornum skammti. Það varð til þess að mörg barnanna fæddust fötluð eða glímdu við aðra líkamlega kvilla. Börnin voru þá sett á stofnanir."
Ástríkt heimili er ekki alltaf nóg
Hann ítrekar að því fyrr sem meðferð hefst, þeim mun meiri líkur séu á að barnið nái sér og aðlagist nýjum aðstæðum eðlilega. "Foreldrar eiga auðvelt með að fást við vandamál sem tengjast lærdómi en það sem er erfiðast fyrir foreldrana er þegar þeir ráða ekki við barnið, það er stjórnlaust. Ef við getum náð stjórn á barninu snemma verður útkoman góð."