austurfrett.is - Með börnunum hófst nýr og skemmilegur kafli
Höfundur: Kristborg Bóel Steindórsdóttir • Skrifað: 21. desember 2018.
„Okkur líður rosalega vel í dag, við erum orðin barnafjölskylda,“ segir Hulda Guðnadóttir á Reyðarfirði, sem var í viðtali við Austurgluggann fyrir stuttu. Þar sagði hún meðal annars frá erfiðu tækni- og glasafrjóvgunarferli sem þau hjónin gegnu í gegnum sem og ættleiðingarferli sem reyndi verulega á.
Hulda og Jón Hafliði Sigurjónsson búa með börnum sínum Nínu Dýrleifu og Baldri Hrafni á Reyðarfirði. Enn fjölgar í barnahópnum í vor, en von er á lítilli stúlku í mars. Þau þurftu þó að bíða lengi eftir því að verða foreldrar. Eftir fjölmargar árangurslausar tækni- og glasafrjóvgunarmeðferðir tóku þau ákvörðun um að eignast börn með öðrum hætti til að uppfylla draum sinn um að verða fjölskylda.
Dreymdi um að stofna fjölskyldu
Árið 2006 útskrifaðist Hulda úr Háskóla Íslands með BS-gráðu í ferðamálafræði og BA-gráðu í frönsku. Á þeim tíma átti Jón Hafliði tvö ár eftir í tannlæknanámi.
„Á þessum tíma vorum við farin að reyna að eignast börn en það gekk ekki vel. Ég var því alveg meira en tilbúin til þess að skipta um umhverfi. Allir í kringum mig voru að eignast börn og þó svo ég reyndi mitt besta til að samgleðjast reyndist mér það erfitt.
Það fannst ekkert að hjá mér og þetta var alveg ógeðslega erfiður tími. Ég var orðin mjög kvíðin í tengslum við þetta. Við vorum búin að fara í gegnum árangurslausar tækni- og glasameðferðir sem fer illa með heilsuna, bæði andlega og líkamlega. Erfiðast þótti mér að enginn vissi hvað var að, óvissan er langverst. Ég var loksins búin að finna ástina í lífi mínu en ekkert gerðist. Lífið bara stoppaði meðan það hélt áfram hjá öðrum, við vorum einhvernvegin alltaf föst í sama farinu. Svo fékk maður óumbeðið ráð á færibandi, eins og að ég ætti bara að njóta þess að halda áfram að djamma. Ég var löngu búin með þann pakka og langaði að stofna fjölskyldu,“ segir Hulda.
Genagalli spornaði þungun
Þegar Hulda og Jón voru búin að fara í gegnum ótal árangurslausar meðferðir fengu þau loks einhver svör. „Í ljós kom að ég er bara mjög sérstakt tilfelli. Skiptingin á fóstuvísunum er ekki eins og hún á að vera hjá mér, um genagalla er að ræða. Læknirinn sagði að okkar eini möguleiki væri að fá gjafaegg eða ættleiða. Ég fann að mér væri alveg saman hvaðan gott kæmi, hvort sem við myndum ættleiða eða fá gjafaegg, það yrði mitt barn. Þarna, árið 2007, vorum við búin að fá nóg af meðferðum og ég hreinlega treysti mér ekki í fleiri. Þrátt fyrir að þetta þetta ferli hafi tekið verulega á okkur Jón gerði það ekkert annað en að styrkja sambandið okkar enn frekar, en það er því miður ekki óalgengt að sambönd lifi slíka þolraun ekki af,“ segir Hulda, en þarna hófu þau ættleiðingaferlið, sem átti eftir að taka verulega á.
Misstu tvö og hálft ár út um gluggann í tóma vitleysu
Til þess að sækja um ættleiðingu þurfa pör að vera gift auk þess sem aldur umsækjenda ræður því hvaða lönd eru þeim opin , en í þeirra tilfelli var það Kólumbía. Hulda og Jón giftu sig sumarið 2008 en umsóknin þeirra var þó ekki samþykkt í Kólumbíu fyrr en 2010, vegna þess að hún var send ókláruð af stað og týndist í kerfinu.
„Við vorum ekki ánægð með það eftir allt sem á undan var gengið. Svo bara leið tíminn og við heyrðum ekki neitt. Við vorum númer 1500 á biðlistanum yfir allan heiminn og hann gekk mjög hægt.
Í byrjun árs 2011 vorum við orðin mjög þreytt á biðinni en þá hafði orðið breyting í kerfinu og fólki varð heimilt að ættleiða börn með sérþarfir, einkum frá Kína, en með því varð biðtíminn styttri. Við lögðum inn ósk um að fá að gera slíkt hið sama í Kólumbíu. Þá tók við önnur skönnun, en allir sem ættleiða börn frá Kólumbíu gangast undir sálfræðimat, viðtöl hjá félagsráðgjafa og allskonar önnur próf. Á þessum tíma vorum við flutt í Fjarðabyggð. Félagsráðgjafinn gaf okkur sín bestu meðmæli.
Sýslumaðurinn í Búðardal, sem veitir vilyrði fyrir forsamþykki um barn með sérþarfir, hafði beðið um að fjárhagur okkar yrði athugaður sérstaklega, enda hrunið nýafstaðið. Gögnin fóru svo til sýslumanns í Búðardal, sem á þessum tíma hafði umsjá með ættleiðingarmálum. Hann mat niðurstöður úttektarinnar ófullnægjandi vorið 2011.Rökstuðningurinn var sá að við værum með neikvæða eignastöðu.
Farið var fram á aðra úttekt og að við kæmum með frekari stuðning þess að fjárhagur okkar væri í lagi, sem hann og var. Allt var þetta mjög einkennilegt. Eru ekki allir með neikvæða eignastöðu, í það minnsta þeir sem eru í eigin húsnæði? Ég hafði samband við sýslumann og spurði hvað hann eiginlega vildi frá okkur. Þá var eins og það fyki í hana og hún svaraði því til að hún væri virkilega að hugsa um að taka af okkur forsamþykkið fyrir ættleiðingunni sem búið var að gefa út áður, ekki bara samþykkið fyrir barni með sérþarfir. Þarna var okkur öllum lokið, við virtumst alfarið komin út í kuldann og á byrjunarreit. Kvíðinn jókst og ég var hætt að geta sofið.Við lögðum fram allskonar pappíra þess efnis að við værum að borga niður lán, en athugasemdin lá í því að við ættum ekki þrjár milljónir inn á bankabók. Slík ákvæði voru hins vegar hvergi í umsókninni, en var hins vegar krafa ef ættleiða átti frá Kína. Við bentum á að það værum við ekki að gera en það virtist engu máli skipta.
Gögnin voru svo lögð fyrir ættleiðinganefnd, en alltaf leið um hálft ár milli skrefa. Í árslok 2011 kom loks svar frá þeirri nefnd og var það samhljóma sýslumannsins í Búðardal; okkur var hafnað á grundvelli neikvæðrar eignastöðu.
Hulda og Jón fengu lögfræðinga með sér í lið sem áttu ekki til orð yfir þessu öllu saman. „Í ljós kom að formaður ættleiðingarnefndar var einnig skrifstofustjóri sýslumannsins, sem sagt innherjadæmi sem engin fordæmi voru fyrir. Það endaði með því að við lögðum inn kæru til innanríkisráðuneytisins þar sem hún lá í heilt ár. Haustið 2013 kom loks svar frá þeim sem var alfarið sammála okkur. Við unnum málið en vorum líka búin að missa tvö og hálft ár út um gluggann í tóma vitleysu.“
Allt svo óraunverulegt
Meðan Hulda og Jón voru í ættleiðingaferlinu styttist biðtíminn eftir gjafaeggi hérlendis og var kominn niður í eitt ár. Haustið 2014 fóru þau í glasameðferð en á sama tíma voru þau á listanum yfir börn með sérþarfir í Kólumbíu.
„Ég gerði mér akkúrat engar vonir um að glasameðferðin heppnaðist en við ákváðum samt að láta á það reyna. Og viti menn, það tókst og úr varð Nína, sem fæddist 9. júlí 2015,“ segir Hulda, sem var mjög veik á meðgöngunni og ældi út í eitt. Undir lok hennar greindist hún svo með afar sjaldgæfa gigt sem nefnist Limited Systemic Scleroderma.
„Auk þess þótti mér þetta allt svo óraunverulegt að ég náði ekki að njóta meðgöngunnar sem skyldi, mér fannst þetta ekki vera að gerast, ég var búin að bíða eftir þessu í tíu ár. Líðanin var sú sama þegar ég fékk hana í fangið eftir fæðinguna, mér fannst þetta enn ekki vera raunverulegt og ég átti erfitt með að tengjast henni, en það kom þó fljótt. Kvíðinn, sem ég var búin að vinna mikið á, blossaði upp aftur, brjóstagjöfin reyndist mér erfið og ég var hrædd við ungbarnadauða. Nína var hins vegar dásamlegt ungabarn, svaf bara og hjalaði og var alveg yndislegur gleðigjafi. Þegar ég loks áttaði mig á því að ég væri orðin móðir sveif ég um á bleiku skýi,“ segir Hulda.
Voru pöruð saman við lítinn dreng í Kólumbíu
Þegar Nína var 16 mánaða fengu Hulda og Jón þær fréttir að búið væri að para þau saman við lítinn dreng í Kólumbíu.
„Á dauða mínum átti ég von, við héldum að umsóknin okkar hefði verið „sett í frost“ fyrst við vorum nýbakaðir foreldrar, en við höfum greinileg tikkað áfram á listanum. Við vorum á leið í aðra glasameðferð, ég var byrjuð á lyfjunum og uppsetningin var áætluð mánuði síðar,“ segir Hulda, en varð nú að fresta henni og sækja litla drenginn.
„Ég hugsaði mikið um það þegar ég var ófrísk, hvort við ættum að láta taka okkur af ættleiðingalistanum, ég óttaðist að ég myndi ekki ná að tengjast ættleiddu barni á sama hátt og barni sem ég hefði gengið með. Þær áhyggjur urðu að engu þegar við fengum fyrstu myndina af Baldri okkar og ég sá hann fyrst, það lá við að ég finndi strenginn vaxa á milli okkar,“ segir Hulda, en drengurinn var að verða þriggja ára þegar þau fengu hann.
„Þetta var strákurinn minn“
Hulda og Jón Hafliði héldu svo til Kólumbíu til að sækja drenginn. Eftir að hafa dvalið nokkra daga í borginni Bogotá fóru þau til Arauca, sem liggur á landamærum Venesúela og Kólumbíu, þar sem hann var.
„Í Arauca er maður bara kominn inn í frumskóg, það var rosalega mikill munur á þessum tveimur svæðum. Við flugum þangað í lítilli vél og lentum á enn minni flugvelli þar sem við mættum fjúgandi risapöddum þegar við stigum út í myrkrið. Bærinn er á frumskógarjaðrinum og búið var að segja okkur að það væri varhugavert að vera ein á ferli. Hótelið sem við vorum á var á sex hæðum og gnæfði yfir allt þannig að maður sá vel yfir svæðið sem samanstóð af lágreistum húsum, hálfgerðum hjöllum.“
Loks rann stóra stundin upp, en Baldur hafði dvalið hjá fósturfjölskyldu ásamt öðrum dreng frá því hann var rúmlega ársgamall.
„Við byrjuðum á því að tala við félagsráðgjafa og þann aðila sem sér um ættleiðingar í Arauca. Á þessum tíma voru þættirnir „Leitin að upprunanum“ í sýningu á Stöð 2 og við sáum hversu mikilvægt er að fá allar grunnupplýsingar. Auk þess höfðum við talað við gamlan bekkjabróður Jóns, sem sjálfur er ættleiddur frá Kólumbíu, og spurt hann út í hvaða upplýsingar við þyrftum að fá og hvað hann sjálfur hefði viljað vita. Við vorum því með ítarlegan spurningalista og gáfum okkur góðan tíma í að safna eins miklum upplýsingum og hægt var. Svörin voru þó hálf loðin, ekki var vitað hversu mörg systkini hann ætti eða hvað móðir hans væri gömul, en við fengum þó hennar kennitölu uppgefna. Ekki voru til neinar fæðingar- eða sjúkraskrár um Baldur, enda er hann frumbyggi (indíáni) og því bara mikil heppni að hann skyldi yfir höfuð hafa komist inn í ættleiðingakerfið, en það er ekki algengt meðal frumbyggja í Kólumbíu. Ég spurði túlkinn okkar af hverju þessi börn væru ekki í kerfinu og hann svarði því til að þau væru bara svo mörg og að Baldur hefði verið ótrúlega heppinn.
Mér fannst gríðarlega sárt að hugsa til þess að það eru svo margir sem myndu með glöðu geði vilja ættleiða þessi börn.
Baldur er svo leiddur inn til okkar alveg logandi hræddur. Það var ást við fyrstu sýn, stóru dökkbrúnu augun hans toga mann til sín. Við þurftum heldur ekki annað en að draga upp lítinn leikfangabíl og þar með var björninn unninn. Segja má að hann sé búinn að vera í fanginu á okkur síðan. Þetta er ekkert öðurvísi en að fá nýfætt barn í fangið, mér leið ekkert öðruvísi, tilfinningin var sú sama, þetta var strákurinn minn.“
Þurfti leyfi höfðingjans fyrir ættleiðingu Baldurs
Hulda segist hafa fengið áfall þegar þau skoðuðu sig um á heimaslóðum Baldurs áður en þau fóru aftur til Íslands.
„Við fórum út að kvöldi til og ég fékk algert sjokk þegar ég áttaði mig á því hvernig þetta er. Fátæktin er gífurleg og við sáum hvernig frumbyggjarnir komu berfættir út úr skóginum til að betla, allt niður í lítil munaðarlaus börn. Ég man sérstaklega eftir litlum dreng sem kom til okkar að betla, það vantaði allan lífsneista í augun á honum, þau voru alveg tóm, bara eins og að horfa á draug. Við horfðum líka á unga móður með þrjú lítil börn snúa aftur í skóginn eftir betltúr, öll voru þau berfætt, aðeins í lörfum og mjög vannærð. Ég fylltist gífurlegu þakklæti yfir þeirri heppni að Baldur skyldi hafa lent inn í kerfinu, hann hefði getað verið eitt þessara barna. Það þurfti sérstakt leyfi frá höfðingjanum til þess að taka hann úr umsjá móður sinnar og ættleiða hann, en sjálfur var Baldur mjög vannærður þegar hann kom til fósturfjölskyldu sinnar.“
Eins og áður sagði var Baldur á lista barna með sérþarfir. „Það stóð að hann væri með plattfót og ætti erfitt með framburð. Hann er bara með einhvern smá plattfót og ég hef aldrei kynnst neinum sem er eins fljótur að læra tungumál og hann. Eftir á að hyggja held ég að hann hafi verið þannig vegna þjóðfélagsstöðu sinnar, en frumbyggjarnir eru lægstir í þjóðfélgsstiganum . Hvíti maðurinn er efst, svo sá hispanski, þá svarti og frumbyggjarnir neðstir. Lögfræðingarnir úti spáðu mikið í þessu og fannst Baldur „lítið frumbyggjalegur“ í útliti, ekki með flatt nef eða hitt og þetta, en þeir vilja helst ekki ættleiða frumbyggja. Okkur gat ekki verið meira sama um hvernig barnið liti út, svona fyrir utan það að finnast hann eitt af fallegustu börnum heims, hann er alveg æðislegur.“
Hafa alltaf rætt málin opinskátt
Hulda og Jón Hafliði gengust undir glasameðferð í Tékklandi í sumar. Hún segir þau alltaf hafa talað opinskátt um allt sitt ferli hvað barneignir varðar, bæði við börnin sín sem og fólkið í kringum sig. „Frá fyrsta degi höfum við talað um „Kólimbíu-mömmu“ við Baldur og sagt honum að hann hafi verið í mallanum á henni, en hún hafi verið svo lasin að hún hafi ekki getað annast hann. Það sama með Nínu, að það hafi verið góð kona á Íslandi sem gaf mömmu egg og það sama með barnið sem ég geng með núna, að það hafi verið kona frá Tékklandi sem gaf okkur það egg svo við getum eignast litla barnið. Svo veit maður aldrei hvernig samfélagið á eftir að tækla þetta með krökkunum, en við viljum allavega að þau séu vel undirbúin ef þau eru spurð út í þetta og að þessi mál séu bara hin eðlilegustu í heimi.“
austurfrett.is - Með börnunum hófst nýr og skemmilegur kafli