Fréttir

MBL - Bíða í mörg ár eftir barni

Frá Kína. AFP
Frá Kína. AFP
Innlent | mbl | 16.1.2014 | 21:01 | Uppfært 17.1.2014 8:39
 

Sjötíu fjölskyldur eru nú á biðlista hjá Íslenskri ættleiðingu vegna ættleiðingar barns erlendis frá. Átta börn voru ættleidd hingað til lands í gegnum félagið á síðasta ári og eru það heldur færri en á síðustu árum. Nokkrar fjölskyldur hafa beðið eftir barni frá árinu 2007. Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir félagið líta björtum augum til framtíðar og fagnar nýjum þjónustusamningi sem gerður var í lok síðasta árs. 

„Upprunalönd barnanna stýra fjölda ættleiðinga,“ segir Kristinn. „Mjög mörg upprunalönd hafa dregið talsvert úr ættleiðingum og því hefur ættleiðingum farið fækkandi í heiminum undanfarin ár.“ Hann bendir á að áður hafi mörg börn verið ættleidd frá sumum löndum, en nú hafi löndin dregið saman seglin og færri börn komi þaðan.

Kristinn segir einnig að nú sé meira um að börn hafi skilgreindar þarfir, meira sé um eldri börn og umsækjendum hafi fækkað á heimsvísu. „Færri treysta sér í að ættleiða eldri börn eða börn með skilgreindar þarfir og er það afleiðing af því hvernig málaflokkurinn hefur breyst,“ segir Kristinn og bætir við að þetta hafi haft gríðarleg áhrif á starf ættleiðingafélaganna.

Börðust fyrir lífi félagsins

„Öll félög sem við þekkjum til í heiminum eru rekin eins og lítil fyrirtæki og þá hefur fjöldi ættleiðinga áhrif á rekstur fyrirtækisins,“ segir Kristinn.

Frá Tógó.

Frá Tógó. AFP

Hann segir að innanríkisráðuneytið hafi tekið undir með Íslenskri ættleiðingu að gæði ættleiðinga skipti miklu máli og grunnstoðin sé að faglegt starf sé viðhaft hjá ættleiðingafélaginu.
 

„Við getum ekki verið upp á fjölda ættleiðinga komin. Með þjónustusamningnum tökum við fyrstu skefin í því að vera án þeirra kvaða sem því fylgja“. Kristinn segir samninginn skipta félagið miklu máli og er hann til að mynda einstakur á Norðurlöndunum. Ekkert hinna landanna hafi gert slíkan samning og hafa ættleiðingafélög víða í heiminum þurft að segja upp fólki. 

Í dag eru um sjötíu fjölskyldur á biðlista hjá félaginu og í fyrra voru aðeins átta börn ættleidd hingað til lands með milligöngu félagsins. Kristinn bendir á að það sé óvenju lág tala.Árið 2004 komu 28 börn til landsins, 35 börn árið 2005, 8 árið 2006, 20 árið 2007, 13 börn árið 2008, 14 börn árið 2009, 18 börn árið 2010, 19 börn árið 2011 og sautján börn árið 2012.

Kristinn segir að árið 2012 hafi að miklu leyti farið í að berjast fyrir lífi félagsins, að hægt væri að vinna á faglegum forsendum.

Ösp Ásgeirsdóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Sebastian Johansson, Lisa Kanebäck og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Sebastian ...

Ösp Ásgeirsdóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Sebastian Johansson, Lisa Kanebäck og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Sebastian og Lisa komu hingað á síðasta ári og héldu fyrirlestur um upprunaleit. Ösp og Sigríður voru ættleiddar hingað til lands. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í lok árs árið 2012 var samþykkt að veita auknu fjármagni til Íslenskrar ættleiðingar í fjárlögum. „Við lögðum í framhaldinu mjög mikla vinnu í innri uppbyggingu félagsins og með hvaða hætti félagið gæti sem best staðið við bakið á umsækjendum um ættleiðingu og kjörfjölskyldum,“ segir Kristinn.
 

Í kjölfarið var gerður þjónustusamningur undir lok síðasta árs. „Við erum mjög bjartsýn á framtíðina,“ segir Kristinn. „Við teljum að við séum með mjög faglegt og gott starf. Upprunalöndin hafa hrósað okkur mikið og erum við gríðarlega ánægð með það.“

Sumar fjölskyldur hafa beðið í sex ár

Af þeim sjötíu fjölskyldum sem bíða eftir að fá að ættleiða barn frá útlöndum, hafa einhverjar beðið allt frá árinu 2007.

Mörg ættleiddu barnanna koma frá Kína.

Mörg ættleiddu barnanna koma frá Kína. AFP

Þetta eru fjölskyldur sem vilja ættleiða frá Kína og segir Kristinn að biðtími eftir barni þaðan geti verið nokkuð langur. „Nú í janúar var ættleiðingarstofnun Kína að para börn við umsækjendur sem sóttu um 21.nóvember 2006,“ segir Kristinn. Ekki þurfa allir að bíða svona lengi og eru dæmi um að biðtíminn sé mjög stuttur.
 

Stundum er biðtíminn aðeins örfáir mánuðir og jafnvel þannig að það sé talið í dögum. Í þessum tilvikum, þar sem umsækjendur þurfa að bíða mun skemur, er yfirleitt um að ræða ættleiðingar barna með skilgreindar þarfir, að sögn Kristins. Hann segir að þessi börn geti haft minniháttar sérþarfir, líkt og mjög væga hjartagalla eða skarð í vör, en síðan geti líka verið um aðrar og flóknari þarfir að ræða. Árið 2012 voru tólf börn ættleidd frá Kína og voru tíu af þeim með skilgreindar þarfir. „Meðalbiðtími á þessum lista er þrír mánuðir en getur farið niður í sólarhring,“ segir Kristinn.

Gera kröfu um traustan fjárhag og góða heilsu

Umsóknarferlið hefst með því að umsækjendur hafa samband og bóka viðtal við ráðgjafa.

AFP

Farið er í viðtal þar sem farið er yfir helstu atriði, umsækjendur sækja námskeið og ef ákveðið er að senda inn umsókn, þá er hún send til sýslumannsins í Reykjavík. Umsækjendur þurfa til að mynda að skila inn almennum upplýsingum um heilsufar, hjúskaparvottorði, læknisvottorði og skattskýrslu. Umsóknin er móttekin af sýslumanni í Reykjavík, yfirfarin og send til viðeigandi barnaverndar, en 27 slíkar eru á landinu.
 

Umsækjendur þurfa á vera á aldrinum 25 til 45 ára, gerð er krafa um traustan fjárhag og þá þurfa umsækjendur að vera líkamlega og andlega heilsuhraustir. Þeir mega ekki vera haldnir sjúkdómi eða vera þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma sem barnið er ekki sjálfráða. Sjúkdómar eða líkamsástand á borð við alnæmi, fötlun og hreyfihömlun, hjarta- og æðasjúkdóma, geðsjúkdóma og geðröskun og hjartasjúkdóma, geta til að mynda leitt til synjunar á umsókn um ættleiðingu eða um synjun á forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni . 

Við undirbúning umsóknarinnar fara umsækjendur í viðtal hjá félagsráðgjafa viðeigandi barnaverndarnefndar.

Skrifað undir þjónustusamninginn í desember. (F.v.) Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og ...

Skrifað undir þjónustusamninginn í desember. (F.v.) Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Hörður Svavarsson formaður.

Kristinn segir að ákjósanlegra væri að skipað væri sérfræðiteymi sem hefði þetta hlutverk í stað nefndanna. „Með þessu fengju allir sömu vinnubrögð. Þetta skiptir sérstaklega máli varðandi lönd eins og Tékkland og Tógo, en þar er verið að para saman börn og foreldra, þá skiptir máli að félagsráðgjafinn hafi reynslu af því að gera þessa úttekt,“ segir Kristinn og bætir við að umsögn barnaverndarnefndarinnar sé lykilgagn í umsókninni. Hann segir afar misjafnt hversu mörg viðtöl fjölskyldurnar fá. Sumir fá aðeins eitt viðtal en aðrir jafnvel fjögur.
 

Hefur dregið gífurlega úr afgreiðsluhraða

Áður sá sýslumaðurinn í Búðardal um afgreiðslu umsókna um ættleiðingu en í lok árs 2011 færðist hlutverkið til sýslumannsins í Reykjavík. Kristinn segir að verulega hafi dregist úr afgreiðsluhraða umsókna eftir þessa breytingu. „Það hefur hægt gríðarlega á því hversu langan tíma tekur að fá forsamþykki og höfum við fengið margar ábendingar frá umsækjendum vegna þessa. Þetta veldur okkur miklum áhyggjum og höfum við sent fyrirspurn til embættisins vegna málsins,“ segir Kristinn. 

Í ár ætlar Íslensk ættleiðing að leggja áherslu á að fjölga samstarfslöndum. Kristinn segir að það geti tekið allt frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár að koma því í gang. Búið er að reyna að koma á samskiptum við nokkur lönd síðastliðin ár og verður því starfi haldið áfram. Aðspurður segir hann að hvert upprunaland hafi sína löggjöf og reglur og geri kröfur eftir því. „Við þurfum að senda ítarleg gögn um það hver við erum og hvernig við störfum,“ segir Kristinn.

Upprunalöndin gera ítarlega úttekt á samstarfslöndum sínum og vilja til setja sig inn í íslenska löggjöf, vita hvernig umsækjendur eru valdir og hvernig staðið er að fræðslu og stuðningi við ættleidd börn og fjölskyldur þeirra. Þá er einnig lögð áhersla á að hitta fulltrúa upprunalandanna. „Þessi málaflokkur snýst um traust og til að ná árangri þurfum við einnig að hitta fólkið,“ segir Kristinn. Íslensk ættleiðing hefur til að mynda unnið að því að gera samning við Rússland síðastliðin fjögur ár. Kristinn segir boltann vera hjá Rússlandi og vonast hann til þess að samningur komist á á næstunni.

Bíða í mörg ár eftir barni

 


Svæði