Fréttir

DV - Beið eftir barninu í tíu ár

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Beið eftir barninu í tíu ár

„Við vorum 20 ár í barnlausu hjónabandi – sem tölfræðin segir að eigi ekki að ganga“
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttiringibjorg@dv.is
07:00 › 20. desember 2013
 

Össur Skarphéðinsson barðist fyrir því að ættleiða dóttur sína frá Kólumbíu og það hafðist eftir tíu ára bið. Þau hjónin eiga nú tvær dætur sem þau ættleiddu þaðan en hann segir að það hafi breytt lífi sínu, ekkert hafi verið eins magnað og að fá dóttur sína í fangið í fyrsta sinn. Hann segir einnig frá barnæskunni, lífsháska á sjó en hann fylltist æðruleysi þegar hann féll útbyrðis og skipsfélagarnir voru ekki að ná honum aftur um borð, og gerir upp við síðustu ríkisstjórn.

Hér fyrir neðan er brot úr viðtalinu

„Við vorum 20 ár í barnlausu hjónabandi – sem tölfræðin segir að eigi ekki að ganga – og búin að fara í gegnum glasó og allt bixið nokkrum sinnum,“ segir Össur.

„Það tók tíu ár að fá Birtu. Þetta var fyrir daga almennilegra fjarskipta og ég held ég hafi skrifað á fleiri en 50 staði. Frá Bógóta í Kólumbíu kom allt í einu jákvætt svar. Það kom seinna í ljós að konunum sem þar réðu fannst merkilegt að ættleiða til landsins sem þær töldu jólasveininn koma frá.

Þetta var eins og í sögu eftir kólumbíska höfundinn Gabriel García Márquez. Við urðum uppnumin, skrifuðum reglulega, en þá báðu þær okkur að vera ekki að trufla sig með stöðugum bréfaskriftum, barnið kæmi. En það kom ekki.

Ég gafst ekki upp, fór niður eftir og mætti á staðinn. Þá ráku þær upp stór augu og sögðu: „En þið hættuð að skrifa!“ Það endaði með því að þær lofuðu að við fengjum dóttur eftir nokkra mánuði – og sögðu að hún myndi líta út eins og ég. Allt stóð það heima. Birta var breiðleit, með vestfirskar kinnar, og var sannarlega lík mér. Það breyttist allt með aldrinum og hún gengur og talar eins og mamma hennar meðan Ingveldur hefur tekið frá mér list hins kotroskna tilsvars.“


Svæði