DV - Gátu ekki eignast barn
„Náttúran er ekki alltaf sanngjörn“
Guðmundur Andri Thorsson segir það rétt hvers barns að eignast foreldra, en hann ættleiddi tvær dætur frá Indlandi. Það var mesta gæfa lífsins og ekkert getur lýst því þegar hann fékk dætur sínar í fangið, eftir að hafa horft á myndir af þeim og látið sig dreyma um líf þeirra saman. Hann segir einnig frá uppvaxtarárunum og foreldrum sínum, þeim Margréti Indriðadóttur og Thor Vilhjálmssyni, sem hann þurfti gjarna að svara fyrir. Sjálfur gæti hann ekki hugsað sér líf án skáldskapar en segist eiga eftir að skrifa bókina sem muni skipta sköpum fyrir hann sem höfund.
Guðmundur Andri á eiginkonu, Ingibjörgu Eyþórsdóttur, og tvær dætur sem hann ættleiddi frá Indlandi, þær Svandísi Roshni og Sólrúnu Lizu. „Við vorum barnlaus og gátum ekki eignast barn saman. Eftir nokkur ár ákváðum við að fara þessu leið, hætta að reyna og hjálpa munaðarlausum börnum að komast á legg frekar en að láta þetta snúast um ástina á eigin genum.
Um leið og við áttuðum okkur á þessum möguleika stukkum við á það og vorum svo lánsöm að það var eins og forsjónin stæði með okkur í bæði skiptin. Við sóttum Svandísi til Kolkata árið 1995. Hún var bara nokkurra mánaða og var á barnaheimili. Við fengum hana í gegnum félagið Íslenska ættleiðingu. Það var síðan árið 2000 sem við ættleiddum Sólrúnu.
„Fólk talar stundum eins og það séu réttindi fólks að eignast börn en náttúran er ekki alltaf sanngjörn.“
Mér skilst að þetta sé allt orðið erfiðara núna. Það er miður, því þörfin er svo sannarlega til staðar. Þótt það séu ekki mannréttindi að eignast barn þá eru það mannréttindi hvers barns að eignast foreldra. Fólk talar stundum eins og það séu réttindi fólks að eignast börn en náttúran er ekki alltaf sanngjörn. Fólk getur ekki alltaf fengið allt sem það þráir. Það er eðli lífsins og það er veruleikinn sem ég bjó við um tíma.“
http://www.dv.is/folk/2013/12/31/skapadi-ast-og-kaerleika-ur-sorginni-IUH28V/