DV.is - „Ég veit ekki hvort hún sé dáin eða á lífi“
Sigurður Mikael Jónsson
mikael@dv.is
Brynja leitar að upprunanum á Srí Lanka – Sjokk að fá óvænt upplýsingar um heimilisfang
„Ég var að undirbúa tónleika fyrir söngnemendur mína núna í byrjun desember og kíkti á tölvupóstinn minn. Þar sá ég póst frá Srí Lanka með titilinn: Leitin að móður þinni. Ég missti símann og hjartað byrjaði að slá á yfirsnúningi. Án þess að hugsa opnaði ég póstinn – þótt ég væri alls ekki tilbúin að lesa það sem í honum stóð. Þar kom fram að leit væri hafin að móður minni sem búi „hér“ – og síðan stóð heimilisfangið hjá henni. Það var sjokk. Þarna fannst mér ég vera komin mjög langt áfram. Svona litlar upplýsingar, sem eru í raun mjög miklar,“ segir Brynja Valdimarsdóttir, síðastliðið ár hefur unnið að því að hafa uppi á líffræðilegri móður sinni. Rætt er við Brynju um það sem gerst hefur í upprunaleit hennar síðastliðið ár í jólablaði DV.
Færist skrefi nær móður sinni með hverjum pósti
DV ræddi við Brynju fyrir ári þegar hún stóð á krossgötum og var að vega og meta hvort hún ætti að gefa grænt ljós á formlega upprunaleit. Þá hafði hún nýlega fengið fæðingarvottorð sitt og önnur skjöl sem hún hafði eftir áralanga forvitni, ákveðið að kalla eftir upp á von og óvon um að þau væru til. Brynja fæddist á Srí Lanka en það var þann 14. desember 1985 sem móðir hennar hér á landi sótti hana sex vikna gamla og veikburða og bjó henni öruggara og betra líf hér á landi.
Eftir sjokkið sem fylgdi tölvupóstinum frá ræðismanninum nú í byrjun desember voru tilfinningar Brynju blendnar. „Ég var ánægð en gerði mér líka grein fyrir að ég myndi fá þessar upplýsingar í pörtum, sem er mjög erfitt. Eiginlega verra en að fá þetta allt í einu, því þá þarf maður ekki að bíða. Ég er því eiginlega bara að bíða eftir næsta pósti, ég veit ekki hvaða svör þar verður að finna en það er eitthvert annað skref.“
Bið eftir svörum erfið
Aðspurð hvort heimilisfangið sem leitarteymið á Srí Lanka hafði upp á sé síðasta þekkta heimilisfang eða núverandi heimilisfang móður hennar, segir Brynja að hún viti það í raun ekki.
„Ég veit ekki hvort hún sé dáin eða á lífi og það kemur örugglega í ljós í næsta pósti. En hún hefur búið á þessu heimilisfangi og það kemur fram í fæðingarskjölunum mínum, þótt það hafi ekki verið heimilisfang. Þetta er bærinn, rétta nafnið á henni. Þau eru svo rosalega klár þarna úti, þau finna fólk sem er búið að skipta um nafn og hvað eina. Þarna búa 20 milljónir manna og ekki helmingur er skráður hjá Þjóðskrá. Ég skil ekki hvernig þau fara að þessu. Þetta er magnað og þau eru vön að gera þetta. Þannig að ég legg bara allt mitt traust á þeirra vinnu. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þeirra vinnu, þau eru ekki að fá neitt fyrir þetta. Þau eru bara að hjálpa. En þetta heimilisfang er eitthvað sem móðir mín hefur búið á, en hvort hún býr þar í dag verður að koma í ljós. Ég verð bara að bíða og það er það erfiðasta í þessu ferli.“
Næsti póstur og hver póstur eftir það færir hana því hugsanlega nær líffræðilegri móður sinni og svörum við spurningunum sem brunnið hafa á henni um árabil. Brynja segir að henni hafi ekki dottið í hug fyrir ári að hún myndi komast svona langt af sjálfsdáðum og á eigin forsendum. Hún ætlar sér út til Srí Lanka á næsta ári, en ef allt gengur að óskum þá reiknar hún með að fara fyrr út. Allt veltur þó á næsta pósti og nýjum upplýsingum.
Lesa má viðtalið við Brynju í heild sinni í jólablaði DV.