DV - Íslendingar geta nú ættleitt frá Tógó
Sigurður Mikael Jónssonmikael@dv.is
Innanríkisráðuneytið hefur gefið út löggildingu fyrir félagið Íslenska ættleiðingu til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Tógó. Íslensk ættleiðing hefur unnið að því að koma á ættleiðingarsambandi við Tógó frá því félagið Alþjóðleg ættleiðing sameinaðist félaginu síðastliðið sumar.
Fram kemur í tilkynningu frá Íslenskri ættleiðingu að samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur frá formanni ættleiðingarnefndar Tógó má gera ráð fyrir að frá því umsókn um ættleiðingu berst til landsins og til þess að barn bjóðist sé líklegt að líði sex mánuðir og allt upp í ár. Frá því að væntanlegir foreldrar samþykkja að ættleiða barnið og til loka málsmeðferðar í Tógó þurfa að líða að minnsta kosti þrír mánuðir.
Nokkrir félagsmenn eru nú með beiðni um forsamþykki til ættleiðingar á barni frá Tógó, í vinnslu hjá sýslumannsembættinu í Búðardal. Búast má við því að þeirri afgreiðslu ljúki fljótt, nú þegar Íslensk ættleiðing hefur fengið löggildingu til ættleiðinga þaðan. Því má gera ráð fyrir að fyrsta beiðnin um ættleiðingu frá Tógó fari þangað á næstu dögum.
http://www.dv.is/frettir/2011/2/16/islendingar-geta-nu-aettleitt-fra-togo/