Fréttir

DV - Sjö nýir Íslendingar frá Kína

Mynd: Mynd Photos
Mynd: Mynd Photos

Sjö kínversk börn voru nýlega ættleidd af íslenskum fjölskyldum. Fjölskyldurnar komu heim í gær. Ættleiðingarfélagið Íslensk ættleiðing hafði milligöngu um ættleiðinguna. Fimm stúlkur og tveir drengir voru ættleidd.

„Núna eru ættleiðingar með milligöngu Íslenskra ættleiðingar orðnar jafn margar og þær voru allt árið í fyrra en eins og kunnugt er hefur ættleiðingum til landsins fækkað nokkuð undanfarin ár,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri ættleiðingu.

„Sum barnanna sem nú eru ættleidd koma til landsins vegna þess að sjálfboðaliðar á vegum Íslenskrar ættleiðingar hafa lagt það á sig að vaka að næturlagi yfir listum sem Kínversk ættleiðingaryfirvöld senda frá sér þegar það er morgunn í Kína. Vegna ósérhlífni þessara einstaklinga sem unnið hafa launalaust á næturnar við að para saman, samkvæmt ströngum reglum, munaðarlaust barn í Kína og íslenska fjölskyldu er hópurinn sem nú kemur til landsins stærri en hann hefði annars orðið,“ segir einnig í tilkynningunni.

Tilkynningin í heild sinni

Síðla dags í gær komu heim til landsins sjö íslenskar fjölskyldur sem dvalið höfðu í tvær vikur Kína fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar. Með í för voru sjö nýir Íslendingar, fimm stúlkur og tveir drengir sem fjölskyldurnar ættleiddu.

 

Það er alltaf gleðiefni þegar fjölskyldur sameinast með þeim hætti að barn er ættleitt og hamingja fjölskyldnanna sjö er vafalaust ómælanleg. En þessi viðburður er líka fréttnæmur fyrir fleiri sakir.

 

Nú eru liðin nærri þrjú ár síðan jafn stór hópur barna var ættleiddur til landsins í einu, en það var í september 2007 sem 8 stúlkur komu með nýjum fjölskyldum sínum frá Hubei í Kína.

 

Núna eru ættleiðingar með milligöngu Íslenskra ættleiðingar orðnar jafn margar og þær voru allt árið í fyrra en eins og kunnugt er hefur ættleiðingum til landsins fækkað nokkuð undanfarin ár. Undanfarin fjögur ár hafa ættleiðingar að jafnaði verið þrettán á ári en árin þar á undan voru börn sem ættleidd voru til landsins að jafnaði um þrjátíu talsins. Nú eru börnin sem ættleidd hafa verið til landsins á árinu fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar orðin fjórtán en það eru jafn margir einstaklingar og ættleiddir voru allt árið í fyrra. Börnin sem komið hafa til landsins á þessu ári eru frá Kólumbíu, Tékklandi, Indlandi og Kína en flest koma þau frá Kína.

 

Sum barnanna sem nú eru ættleidd koma til landsins vegna þess að sjálfboðaliðar á vegum Íslenskrar ættleiðingar hafa lagt það á sig að vaka að næturlagi yfir listum sem Kínversk ættleiðingaryfirvöld senda frá sér þegar það er morgunn í Kína. Vegna ósérhlífni þessara einstaklinga sem unnið hafa launalaust á næturnar við að para saman, samkvæmt ströngum reglum, munaðarlaust barn í Kína og íslenska fjölskyldu er hópurinn sem nú kemur til landsins stærri en hann hefði annars orðið.


Svæði