DV - Stefan var ættleiddur til Íslands og hefur lengi leitað blóðforeldra sinna
- Hittir foreldra sína í fyrsta sinn næsta vor
„Það er í raun einstakt að þetta skuli hafa tekist,“ segir Rúmeninn Stefan Octavian Gheorge, sem fæddur er 1997 og var ættleiddur til Íslands árið 2000 af íslenskum hjónum. Hann hefur lengi dreymt um að hafa uppi á rúmenskum blóðforeldrunum sínum.
Stefan hefur í nokkur ár leitað að þeim en ekki haft erindi sem erfiði. Stefan komst reyndar að því að þau voru einnig að leita að honum og núna fyrir skemmstu tókst þeim að komast í samband við Stefan. Hann er að vonum í sjöunda himni og hefur nú ákveðið að fara til Rúmeníu og hitta þau.
Stefan segir mikla skipulagningu á bak við ferðina en það sé alls ekki svo að hann fari bara uppi í flugvél til Rúmeníu og hitti blóðforeldra sína. Hann hafi sett sig í samband við lögfræðing og það sé í mörg horn að líta í svona ferli áður en lagt verður af stað. Þetta verði að vinna eftir settum reglum og það taki tíma. Ákveðið hefur verið að hann hitti blóðforeldra sína 4. maí næsta vor og segist hann vera afar spenntur. Hann sé í raun búinn að bíða eftir þessari stund alla sína ævi, móðir sín hafi verið 16 ára þegar hún átti hann.
Fór að gráta þegar þetta varð ljóst
„Það er í raun einstakt að þetta skuli hafa tekist, bara ef við hugsum um hve margir búa í þessum heimi. Þetta er stærsti draumur lífs mín og ótrúlegt að þetta sé að gerast. Ég fór að gráta þegar þetta varð ljóst. Það hefur gert málið svolítið erfitt að blóðforeldrar mínir tala ekki ensku og svo tala ég náttúrlega ekki rúmensku. Við höfum því þurft að notast við túlk en blóðforeldrar mínir búa rétt fyrir utan Búkarest. Mig hefur einnig lengi dreymt um að fara til Rúmeníu, þá til að skoða landið og sjá hvaðan ég er. En að fara út til að hitta blóðforeldrana gerir þetta allt svo magnað. Ég er mjög spenntur, þetta tekur allt saman sinn tíma, en mér líst miklu betur á að fara til Rúmeníu þegar vorið er komið en veturnir þar eru mjög kaldir,“ segir Stefan
Stefan segir enn fremur að amma hans og móðursystir hans hafi verið reyna að finna hann í 16 ár. Þær hafa meðal annars stuðst við Facebook í þeim efnum ásamt öðru.
„Það var síðan fyrir nokkrum mánuðum að þau fundu mig og þá setti pabbi minn hér á Íslandi sig í samband við lögfræðing svo allt færi fram eftir settum reglum,“ segir Stefan.
Fer í barskóla í Las Vegas í vetur
„Ég ætla að bjóða fólki að fylgjast með þessu máli á Facebook og Snapchat og núna eftir að ég setti þetta inn hefur vinum mínum á Snapchat fjölgað til muna. Í dag vinn ég sem vaktstjóri á eina samkynhneigða staðnum á Íslandi, Kiki-yueer bar við Laugaveginn. Einnig þar hefur fólk fengið að fylgjast með þessu máli en staðinn sækja einnig margir útlendingar. Ég ætla að fara til Las Vegas í nóvember í nám í barskóla og kem aftur heim í janúar,“ sagði Stefan.
DV - Stefan var ættleiddur til Íslands og hefur lengi leitað blóðforeldra sinna