Fréttir

Pressan - Er tími ættleiðinga liðinn?

Laugardagur 07.12.2013 - 11:00 - Ummæli (2)

Fyrirtæki sem annast ættleiðingar barna eru aðþrengd þessa dagana því ættleiðingum hefur fækkað mikið og nú er orðið mun erfiðara að ættleiða börn á milli landa en áður. Í Svíþjóð hefur alþjóðlegum ættleiðingum fækkað um meira en helming á aðeins 10 árum.

Í Svíþjóð voru 1.008 börn ættleidd erlendis frá árið 2002 en á síðasta ári voru þau aðeins 466. Í Danmörku er sömu sögu að segja, árið 2002 voru 609 börn ættleidd erlendis frá en í fyrra voru þau aðeins 219. En þetta er ekki aðeins bundið við Svíþjóð og Danmörku því svona er staðan um allan heim. 2003 voru 43.710 börn ættleidd á heimsvísu en 2011 var fjöldinn kominn niður 23.609 börn.

Staðan er allsstaðar sú sama og eftirspurnin eftir börnum til ættleiðingar er miklu meiri en framboðið af börnum. Svo virðist sem tími ættleiðinganna sé að renna sitt skeið á enda.

„Alþjóðlegar ættleiðingar eru eins og sól sem steig hátt upp á himininn en féll svo hratt til jarðar.“

Þetta sagði Tobia Hübinette, hjá Mångkulturelt Centrum og Södertörns háskólanum í Stokkhólmi sem rannsakar alþjóðlegar ættleiðingar, í samtali við dagblaðið Information. Hann hefur séð hvert landið á fætur öðru loka fyrir ættleiðingar, opna svo aðeins fyrir þær aftur eftir að lög og reglur hafa verið hert.

„Þessu er lokið. Löndin loka eitt af öðru en Afríkulöndin komust aldrei í gang. Eina Afríkulandið sem komst í gang var Eþíópía en þaðan streymdu börn í 6-8 ár en svo komu hneykslismálin upp.“

Meðal hneykslismálanna er að í Bandaríkjunum auglýsti fólk sem hafði ættleitt börn þau til annarar ættleiðingar eftir að hafa gefist upp á að hafa þau. Slíkar auglýsingar birtust á lokuðum spjallhóp á Yahoo um það bil einu sinni í viku, til dæmis eins og þar sem auglýst var eftir góðri og kærleiksríkri fjölskyldu til að taka við 14 ára ættleiddri stúlku sem hafði verið hjá nýju fjölskyldunni sinni í tæplega eitt ár. „Í alvöru talað þá er hún næstum því hið fullkomna barn.“

Afríka er þó sú heimsálfa sem stendur undir megninu af ættleiðingum í dag en þaðan komu 20 prósent þeirra barna sem voru ættleidd á heimsvísu 2010 en 2003 var hlutfallið um 5 prósent.

Mekonnen Yehualashet, hjá African Child Policy Forum í Addis Ababa í Eþíópíu, sagði að auðvitað vissu Afríkubúar hvað væri í gangi. „Þetta hefur allt snúist um viðskipti. Það eru peningar sem hafa knúið þetta áfram en ekki hagsmunir barnanna. Þegar það eru svo miklir peningar í spilunum eins og er í ættleiðingargeiranum þá er mjög erfitt að tryggja að hagsmunir og þarfir barnsins séu í fyrirrúmi.“

Hún sagði að það hafi oft komið fyrir að börn hafi verið ættleidd þó þau væru ekki munaðarlaus, þau hafi verið gefin til ættleiðingar af fjárhagsástæðum.

Tobias Hübinette sagðist telja að hneykslismálin eigi rætur sínar að rekja til viðskiptavæðingar ættleiðinganna. Að lokum hafi peningarnir eyðilagt greinina.

Er tími ættleiðinga liðinn?


Svæði