Fréttir

Færri ættleiða frá Kína vegna hertra krafna

Fyrst birt: 19.07.2007 18:03, Síðast uppfært: 15.01.2010 17:22

Flokkar: Innlent
 
Kínverjar gera minni kröfur til umsækjenda sem vilja ættleiða fötluð börn, en til þeirra sem vilja ættleiða heilbrigð börn. Umsóknum hefur fækkað eftir að kröfur til umsækjenda voru hertar í maí síðatliðnum.

Nýjar Kínverskar reglur sem tóku gildi 1.maí síðastliðinn gera mun meiri kröfur en áður var til foreldra sem vilja ættleiða börn þaðan. Í ágúst næstkomandi verður í fyrsta skipti tekið á móti börnum frá Kína sem eru með einhverskonar sérþarfir eða fatlanir, en minni kröfur eru gerðar til foreldra sem taka á móti fötluðum börnum en heilbrigðum.

Frá árinu 2002, þegar ættleiðingar barna frá Kína til Íslands hófust, og þar til nú, hafa komið hingað til lands 91 stúlka, og einn drengur. Síðastliðið ár komu einungis 6 stúlkur frá Kína, en 32 komu árið áður. Það sem af er þessu ári hafa komið 6 stúlkur frá Kína og væntanlegar eru 11 til viðbótar auk tveggja drengja.

Kínverjar bjóða fötluð börn til ættleiðingar og gera minni kröfur til þeirra foreldra sem taka á móti þeim, en þegar um heilbrigð börn er að ræða. Sem dæmi mega foreldrar heilbrigðra barna ekki vera eldri en 50 ára, en foreldrar sem vilja ættleiða fatlað barn geta verið allt að 55 ára gamlir. Í ágúst og september eru væntanleg 5 börn með einhverskonar sérþarfir frá Kína, þar á meðal 2 drengir. Einnig eru væntanlegar 8 stúlkur heilbrigðar, þannig að alls gerast 18 börn frá Kína íslendingar á næstu mánuðum.

Biðtími eftir kínverskum börnum hefur lengst jafnt og þétt síðastliðið ár og er nú um 2 ár. Þessum tíma til viðbótar kemur 6 mánaða ferli innan stjórnsýslunnar hér á landi. Í maí síðastliðnum hertu Kínverjar reglur sínar um ættleiðingar til muna og gera nú til dæmis kröfur um 2 ára hjónaband umsækjenda og kröfur um 5 ára hjónaband þeirra sem eiga hjónaskilnað að baki. Einhleypir geta ekki lengur ættleitt börn frá Kína og krafist er að lágmarki 12 ára menntunar auk þess sem miklar kröfur eru gerðar til heilsufars umsækjanda. Tveimur mánuðum eftir gildistöku nýrra reglna hefur umsóknum til Kína fækkað hér á landi.

Færri ættleiða frá Kína vegna hertra krafna


Svæði