Fréttatíminn - Fengu fullkominn dreng
11.11 2011
Eftir nokkurra ára raunir, misheppnaðar tækni- og glasafrjóvganir, í von um barn mætti Ingibjörg Ólafsdóttir með hnút í maga í vinnu sína á Reykjalundi um miðjan júní 2010. Hún vissi að þennan dag fengi hún hugsanlega símtal um að barn biði þeirra Valdimars Hjaltasonar, eiginmanns hennar, í Kína. Starfsmenn Íslenskrar ættleiðingar sátu alla nóttina og leituðu barna með skilgreindar sérþarfir á listum kínverskra stjórnvalda eftir forskrift væntanlegra foreldra.
„Svo var hringt,“ segir hún. „Yfirmaður minn sagði að hann hefði viljað skutla mér heim um leið og ég fékk fréttirnar, en hann sá bara undir iljarnar á mér þar sem ég hljóp í gegnum trjálendið beinustu leið heim. Ég gat ekki beðið eftir því að greina manninum mínum frá fréttunum,“ segir hún þar sem við sitjum við eldhúsborðið á heimili þeirra í Mosfellsbæ. Sonur þeirra Eysteinn Orri sötrar heitt kakó við hlið hennar. Hann varð þriggja ára í byrjun maí. Ingibjörg lýsir því þegar hún vissi fyrst af Eysteini.
„Á fimm vikna fresti eða svo skoðar Íslensk ættleiðing uppfærðan lista yfir kínversk börn með sérþarfir. Ekki er hægt að búast við að barn finnist strax við fyrstu skoðun fyrir væntanlega foreldra, en þannig var það í okkar tilfelli. Kristinn [framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar] hringdi í mig í vinnuna um klukkan ellefu og sagði greindi mér frá upplýsingum um barn sem við gætum skoðað. Spennan og tilhlökkunin var mikil. Þegar við sáum gögnin ákváðum við strax að barnið yrði okkar.“
Drengur beið þeirra í Kína
Fullkominn strákur, eins og Ingibjörg segir, beið þeirra í Kína. „Við fengum mynd af honum og gengum með hana á okkur og sýndum öllum. Þetta gerðist allt svo hratt hjá okkur. Umsókn okkar fór út í mars 2010, við fengum forsamþykki fyrir því að ættleiða barn með sérþarfir hér heima í lok maí og myndina af drengnum 22. júní sama ár. Ég fann að nánasta fólkið okkar óttaðist – eðlilega kannski – að ættleiðingin gengi ekki í gegn og að við yrðum fyrir vonbrigðum eins gerst hafði áður.“
Litli drengurinn var tveggja ára þegar þau fengu vitneskju um hann. Hann hafði verið vistaður á munaðarleysingjaheimili í borginni Jinan í Shandong-héraði. Það er í klukkustundar flugleið frá Peking, höfuðborg landsins. Hann hafði fundist hálfs árs gamall fyrir utan stofnun í borginni. „Í Kína geta foreldrar ekki gefið börn sín til ættleiðingar. Þau finnast því flest þar sem mannmergðin er mikil; á torgum eða fyrir utan félagsmálastofnanir, vilji foreldrar þeirra að börnunum verði búin góð ævi,“ segir Ingibjörg.
„Á barnaheimilinu var aðbúnaðurinn eins góður og mögulegt er á svona stað. Þau voru fimm í herbergi og það virtist hafa verið hugsað vel um þau,“ segir Ingibjörg sem skoðaði heimilið með Valdimar og Eysteini tveimur dögum eftir að hafa fengið hann í hendur. „Heimsóknin var gífurlega erfið. En jafnframt er mjög dýrmætt að hafa haft tækifæri til þess að heimsækja það og sjá hvernig hann bjó. Á heimilinu voru börn allt upp í átján ára aldur, en þá býðst þeim að fara í háskóla. Ég get ekki metið hvort þau sæki í slíkt nám eða hafi fengið þá örvun sem þarf eða stuðning til þess,“ segir hún.
„Í þessari heimsókn virtist Eysteinn ekki vilja sjá eða heyra af börnunum eða fóstrunum sem þar voru. Hann kúrði sig upp að okkur, en pabbi hans var með hann í poka framan á sér. Hann hélt mjög fast í pabba sinn,“ segir hún áður en hún lýsir tilfinningarússíbananum þegar hún fékk Eystein fyrst í hendurnar.
Fyrstu kynni erfið
„Kínverski fararstjórinn hringdi í okkur upp á hótelherbergi og sagði að þau væru á leiðinni upp. Svo bankaði hún. Eysteinn vildi náttúrulega ekkert með okkur hafa. Þessi stund er hrikalega erfið fyrir þessi litlu grey. Hann öskraði úr sér lungun í einhverjar mínútur og sjálf grét ég tregafullum tárum, bæði af gleði en einnig meðaumkun því þetta er gífurlegt sjokk fyrir litlu skinnin sem vita ekki á þessari stundu hvað þau eru að fá, bara missa.“ Ingibjörg segir þau hjónin hafa talið sig nægilega undirbúin fyrir þetta augnablik enda setið námskeið Íslenskrar ættleiðingar áður en þau fóru út og rætt við foreldra með reynslu af ættleiðingum.
„En það er ekki hægt að undirbúa sig fullkomlega fyrir slíka stund. Hún var hrikalega erfið. En Eysteinn var fljótur að tengjast okkur, strax þennan fyrsta dag,“ segir hún. Það má líka sjá á myndböndum sem sýna drenginn kubba á hótelherberginu þennan fyrsta dag fjölskyldunnar, enda rétt tveggja og hálfs árs gamall.
„Hann var fyrsta klukkutímann í algjöru sjokki. En við gáfum honum að drekka og hann jafnaði sig. Við fengum klukkustund með honum og þurftum þá að fara í myndatöku. Það gekk fínt, en þegar við komum aftur upp á hótelherbergi, klæddum við hann í léttari föt, því hann var allur sveittur og þá fór hann að hlæja. Hann var glaður og náði að sofna um kvöldið og svaf í tólf tíma. Við sváfum hins vegar ekki mikið, enda hafði adrenalínið flætt um æðarnar þennan dag,“ segir hún
Sex vikna leikskólaaðlögun
„Gengið hefur vonum framar að tengjast Eysteini. Miklu betur en maður þorði að vona. Stundum afneita ættleidd börn öðru foreldrinu fyrst um sinn. Við vorum svo heppin að það varð ekki. Hann varð strax mjög háður okkur og passar upp á okkur. Hann hefur treyst á okkur og ekki sótt til annarra eftir hjálp. En auðvitað er það ferli sem við vinnum í í mörg ár. Við sjáum það nú þegar hann fer á leikskóla að það er stutt í vantraustið. Hann óttast að við sækjum sig ekki. Hann var það stálpaður þegar við sóttum hann og við skynjum að hann man ýmislegt. Við sjáum að leikskólinn minnir hann á barnaheimilið. Við þurftum því að segja honum að hann ætti ekki að sofa á leikskólanum, engin börn svæfu þar og að mamma og pabbi kæmu alltaf að sækja hann í lok dags.“ Þetta fékk Eysteinn Orri að heyra dag hvern í þær sex vikur sem aðlögunin stóð yfir.
„Síðar komst ég að því að hann vildi vita allt um leikskólakennarana og vissi jafnvel hvernig bílum þær óku. Hann vildi vita allt áður en hann gat treyst umhverfinu og því að við kæmum að sækja hann.“
Ingibjörg og Valdimar hafa verið saman í níu ár. „Það var mikill léttir að ákveða að ættleiða barn, því þá vissum við að við myndum eignast barn, spurningin væri aðeins hvenær, en ekki hvort,“ segir hún. Þau hafa nú ákveðið að ættleiða aftur barn með sérþarfir frá Kína. Biðin er þeim auðveldari nú en áður, þótt Ingibjörg segi það sérstaka tilhugsun að barnið sem þau fái vonandi í hendur á næsta ári sé að öllum líkindum þegar fætt.
Minniháttar og horfinn kvilli
„Það skiptir í raun engu máli hvaðan barnið er, en það einfaldar málin mikið séu þau bæði þaðan. Okkur langar að halda tengslunum við landið og líka finnst okkur mikilvægt að þau eigi sama uppruna og þannig meira sameiginlegt. Við teljum það mikinn kost,“ segir hún. „Svo erum við ánægð með ferlið úti og hér heima og viljum ekki breyta því. Við höfum líka tekið Kína inn á heimilið. Kína er landið sem er í fjölskyldunni og okkur þykir virkilega vænt um Kína og erum stolt af landi Eysteins Orra og þjóð.“
Ingibjörg og Valdimar vilja ekki segja hvað varð til þess að Eysteinn Orri lenti á lista yfir börn með sérþarfir. „Við merktum við þó nokkur atriði yfir minniháttar sérþarfir og ákváðum að halda því fyrir okkur hverjar þær voru. Kvillinn hrjáir hann ekki í dag og mun ekki hrjá hann. Við erum svo heppin að hann er algjörlega fullkominn og að hér heima hefði hann aldrei flokkast sem barn með sérþarfir,“ segir Ingibjörg.
„Foreldrar vita aldrei hvernig barni reiðir af eftir að það fæðist eða hvort eitthvað óvænt sé að. Sumt kemur strax fram. Annað seinna. Eins er með ættleidd börn, maður veit aldrei. Ég hafði því ekki áhyggjur af því að hann gæti haft aðra kvilla eða þarfir en nefndir voru í læknaskýrslum og hika ekki eina mínútu að fara sömu leið við ættleiðingu næsta barns.“
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
gag@frettatiminn.is