Fréttatíminn - Gafst upp á ættleiðingum vegna afskipta ráðuneytis
13.01 2012
„Ég get ekkert tjáð mig um þetta og vísa til bréfsins sem ég skrifaði innanríkisráðherra. Þú verður að fá það hjá ráðuneytinu,“ segir Áslaug Þórarinsdóttir, sýslumaður í Búðardal, í samtali við Fréttatímann þegar hún var innt nánar um óánægju hennar með afskipti starfsmanna innanríkisráðuneytisins af ættleiðingamáli sem voru á hennar forræði á liðnu sumri. Áslaug taldi afskipti starfsmannanna vega að sjálfstæði embættisins gagnvart æðra stjórnvaldi sem og starfsheiðri hennar sjálfrar og við það gæti hún ekki unað. Hún fór einnig fram á það að miðstöð ættleiðinga, sem hefur verið á forræði sýslumannsins í Búðardal frá ársbyrjun 2007, yrði flutt frá embættinu eins fljótt og kostur væri. Í bréfi Áslaugar kemur fram að hún hafi afgreitt um 700 ættleiðingarmál frá árinu 2007 og í skýrslu ráðuneytisins frá 2010 sé það sérstaklega tiltekið að sýslumaður hafi unnið verkefnin af heilindum og fagmennsku.
Áslaug rekur í bréfinu aðkomu skrifstofustjóra í innanríkisráðuneytinu að máli sem varðaði ættleiðingu barns frá Kína á liðnu sumri. Sýslumanni barst umsókn um forsamþykki ættleiðingarinnar 6. júní 2011 og sama dag var það sent til umsagnar barnaverndarnefndar í umdæmi umsækjenda. Föstudaginn 1. júlí fékk Áslaug sýslumaður símtal frá skrifstofustjóra í innanríkisráðuneytinu sem spurðist fyrir um málið. Sama dag eftir símtalið barst sýslumanni umsögn barnaverndarnefndar þar sem mælt var með því umsækjenda yrði veitt forsamþykki. Vegna verulegrar neikvæðrar eiginfjárstöðu umsækjenda ákvað sýslumaður að senda málið til umsagnar Ættleiðingarnefndar eins og gert hafði verið í mörgum slíkum málum þar á undan. Var málið sent til Ættleiðingarnefndar strax mánudaginn 4. júlí. Stuttu fyrir hádegi föstudaginn 8. júlí barst tölvubréf frá skrifstofustjóranum ásamt bréfi frá framkvæmdastjóra félagsins Íslensk ættleiðing þar sem farið fram á að afgreiðslu málsins yrði flýtt. Í símtali sýslumanns við skrifstofustjórann kom fram sú ósk skrifstofustjórans að málið yrði afgreitt strax án úrskurðar Ættleiðingarnefndar. Svo fór þó ekki og treysti nefndin sér ekki til að meta umsækjandann traustan. Sá úrskurður var kærður til ráðuneytisins og þótti sýslumanni sá frestur sem honum var veittur til koma athugasemdum að of skammur.
Í svarbréfi ráðuneytisins tæplega tveimur og hálfum mánuði eftir að Áslaug sendi sitt bréf er því algjörlega hafnað að afskipti ráðuneytisins og starfsmanna þess hafi verið óeðlileg. Málið hafi verið þess eðlis að hraða þurfti afgreiðslunni. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir í samtali við Fréttatímann að aðkoma ráðuneytisins hafi verið fagleg, formleg og eðlileg að hans mati. „Ég er sáttur við vinnubrögð ráðuneytisins. Hún verður að svara fyrir það hvað fær hana til að láta jafn stór og sver orð falla. Mér þykir það miður en þetta er að mínu mati fullkomlega eðlileg framganga. Ég yfirfór málið og endanum er þetta mín ábyrgð,“ segir Ögmundur sem flutti Miðstöð ættleiðinga yfir til sýslumannsins í Reykjavík nú um áramótin eftir beiðni frá Áslaugu.
Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is