Fréttir

FRÉTTATÍMINN - Þau buguðust aldrei

„Hjónin hafa sýnt mikinn styrk í þessu erfiða og flókna ferli og þau buguðust aldrei, sama hvað á dundi“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri íslenskrar ættleiðingar, um hjónin Bjarnhildi Hrönn Níelsdóttur og Friðrik Kristinsson, sem hafa verið föst í Kólumbíu með dætur sínar tvær frá því 20. desember í fyrra, en eru loks á leið heim til Íslands. Þau hafa háð einstaka baráttu við kólumbískt réttarkerfi og höfðu loks sigur og þurfa því ekki að brjóta loforðið sem þau gáfu dætrum sínum daginn sem þau hittu þær fyrst: „Við munum alltaf, alltaf, vera fjölskylda.“

Bjarnhildur og Friðrik sóttu um að fá að ættleiða barn fyrir rúmum sex árum. Fyrir rúmu ári fengu þau þær upplýsingar að þau gætu fengið að ættleiða tvær stúlkur í Kólumbíu, fæddar 2007 og 2009. Þau fóru út í desember til að sækja dætur sínar fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar. Hefðbundið ættleiðingarferli í Kólumbíu er þannig að eftir að foreldrar taka við börnunum sínum í landinu fer ættleiðingarmálið fyrir dómstóla þar sem nýir foreldrar fá börnin dæmd sín. Í framhaldinu fá börnin útgefin vegabréf og loks vegabréfsáritun til Íslands og tekur ferlið venjulega um 6 vikur, samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu.

„Þungu fargi er af okkur létt. Mál Bjarnhildar og Friðriks og dætra þeirra er einsdæmi í sögu kólumbísks réttar,“ segir Kristinn. „Við höfum eftir fremsta megni reynt að styðja við bakið á þeim í þessu ferli og hefur lögfræðingur okkar í Kólumbíu Olga María Velásques De Bernal reynst þeim einstklega vel. Hún hefur lagt gríðarlega mikið á sig og hafði óbilandi trú á því að það væri þessi eini tiltekni dómari sem var ástæðan fyrir töfunum. Það var ekkert óeðlilegt í málinu, umsókninni né ferlinu og það hefur komið í ljós núna enda hefur þessi dómari verið tekinn úr ættleiðingarmálum og mun ekki dæma í þeim héðan í frá,“ segir Kristinn. Ættleiðingarstofnunin í Kólumbíu undirbýr nú formlega kvörtun á hendur dómaranum og hefur yfirréttur í héraðinu ávítt hann fyrir framgang hans í þessu máli.

Stúlkurnar tvær eru orðnar altalandi á íslensku og eru hættar að tala spænsku því þær hafa eingöngu verið í umsjá foreldra sinna síðastliðna ellefu mánuði. Að sögn Kristins hefur farið vel um þau og aðbúnaður þeirra hefur verið góður þótt þau hafi að sjálfsögðu þurft að þola fjölda áfalla á undanförnum mánuðum. „Ef við reynum að horfa á björtu hliðarnar þá hefur fjölskyldan fengið ómetanlegan tíma til að tengjast og kemur fullsköpuð til landsins,“ segir Kristinn.

Stúlkurnar fengu, að sögn Kristins, vegabréf sín afhent á miðvikudag. Þau voru skönnuð inn og send til Útlendingastofnunar á Íslandi sem veitir þeim Schengen-áritun sem verður send í pósti og berst þeim vonandi upp úr helgi. „Þá eru þau á leiðinni heim,“ segir Kristinn.

http://www.frettatiminn.is/frettir/thau_bugudust_aldrei/


Svæði