Kvöldfréttir Stöðvar 2 - Brynja Dan átti þann draum heitastan að hafa uppi á móður sinni
Ólöf Skaftadóttir skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld segir Brynja M. Dan Gunnarsdóttir sögu sína, en hún var ættleidd til Íslands frá Sri Lanka fyrir þrjátíu árum. Brynju hefur í áraraðir dreymt um að hafa uppi á móður sinni þar í landi og freistaði gæfunnar á dögunum.
Brynja er ein þriggja ungra, íslenskra kvenna sem voru ættleiddar til Íslands á barnsaldri, en leita nú uppruna síns með hjálp sjónvarpskonunnar Sigrúnar Óskar Kristjánsdóttur.
Sögur þeirra allra verða sagðar í nýjum þáttum, Leitinni að upprunanum, sem hefja göngu sína á sunnudag á Stöð 2.
Leitin ber þær meðal annars í afskekkt fjallaþorp í Tyrklandi og í fátækrahverfi í Sri Lanka.
Allar höfðu þessar ungu konur mjög takmarkaðar upplýsingar um forsögu sína, en auk þess eru gögnin sem þær höfðu til að leita eftir yfir þriggja áratuga gömul.