Mbl - Ættleiðingar kínverskra barna ættu að geta hafist í haust
Samkomulag er í burðarliðnum á milli dómsmálaráðuneytisins og kínverska félagsmálaráðuneytisins um ættleiðingar milli landanna. Samkomulagið mun hafa þá þýðingu að íslenskir kjörforeldrar munu geta ættleitt börn í Kína en mörg kínversk börn bíða ættleiðingar og mun það því opna mikla möguleika á ættleiðingu barna erlendis frá.
Önnur Norðurlönd hafa góða reynslu af samskiptum við Kínverja í ættleiðingarmálum, skv. upplýsingum Kristrúnar Kristinsdóttur, lögfræðings í einkamálaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins.
Fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar til Kína í september Að hennar sögn hafa Ólafur Egilsson sendiherra og Auður Edda Jökulsdóttir, starfsmaður sendiráðsins í Kína, haft veg og vanda af undirbúningi málsins og milligöngu um samskiptin við kínversk stjórnvöld.
Óformlegum bréfaskiptum á milli landanna er lokið og er gert ráð fyrir að samkomulagið komist formlega á í næsta mánuði. Er ráðgert að fulltrúar félagsins Íslensk ættleiðing, sem hefur milligöngu um ættleiðingu barna erlendis frá, fari til Kína í septembermánuði og í framhaldi af því geta ættleiðingar kínverskra barna hafist, að sögn Kristrúnar.
Ein af meginforsendum þess að samkomlagið hefur náðst, er að Kínverjar hafa nýlega gerst aðilar að Haag-samningnum frá 1993 um vernd barna og samvinnu um ættleiðingu barna, sem Íslendingar gerðust aðilar að á síðasta ári.
Þá skipti einnig miklu máli að sögn Kristrúnar, að ný ættleiðingarlög tóku gildi hér á landi í júlí í fyrra, en Kínverjar gátu ekki fallist á ákvæði í eldri ættleiðingarlögum.
Framfylgja ströngum reglum um ættleiðingar Meginreglan verður sú, að væntanlegir kjörforeldrar sem vilja ættleiða börn í Kína munu þurfa að fara sjálfir til landsins til að sækja börnin. Að sögn Kristrúnar eru vinnubrögð í ættleiðingarmálum í Kína mjög vönduð og framfylgja þeir ströngum reglum m.a. til að koma í veg fyrir greiðslur fyrir börn sem eru ættleidd.
Samkomulagið við Kínverja mun opna mikilvæga möguleika fyrir íslensk kjörforeldri sem hafa áhuga á að ættleiða börn, en mikil bið hefur verið eftir ættleiðingu barna erlendis frá á undanförnum árum. Að undanförnu hafa margir sýnt áhuga á að ættleiða börn frá Kína.
Mbl - Ættleiðingar kínverskra barna ættu að geta hafist í haust