Mbl - Getur ekki haldið námskeið
Íslensk ættleiðing hefur tilkynnt innanríkisráðuneytinu að við ríkjandi aðstæður geti Íslensk ættleiðing ekki haldið námskeið fyrir verðandi kjörforeldra með sama hætti og áður.
Námskeiðin eru samkvæmt reglugerð grundvöllur ættleiðinga erlendis frá. Ákvæði reglna um undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra eiga sér stoð í lögum um ættleiðingar og eru í fullu samræmi við Haagsamninginn um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa og handbókar við þann samning, enda er undirbúningur væntanlegra kjörforeldra einn af mikilvægustu þáttunum í að tryggja velferð kjörbarns. Það er niðurstaða fjölda rannsókna að góð þjálfun og fræðsla væntanlegra kjörforeldra sé lykilatriði.
Á fjórða tug fjölskyldna eru nú á biðlista hjá félaginu eftir undirbúningsnámskeiði. Námskeið sem vera átti síðar í mánuðinum hefur verið fellt niður og umsækjendum hefur verið greint frá því.
Í tilkynningu ÍÆ til ráðuneytisins segir meðal annars: „Innanríkisráðuneytinu er vel kunnugt um þröngan fjárhag ættleiðingarfélagsins. Frá árinu 2009 hafa fulltrúar félagsins verið í viðræðum við ráðuneytið og forvera þess um breytingar á fjárframlagi til félagsins. Fyrir liggja drög að þjónustusamningi milli Innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar en ekki hefur tekist að tryggja fjárframlag svo ljúka megi samningsgerðinni. Á þessum tíma hafa aðstæður félagsins versnað eins og kunnugt er og skemmst er að minnast þess að fresta varð aðalfundi félagsins vegna óvissu um gerð þjónustusamnings.
Aðstæður ættleiðingarfélagsins eru nú þannig að ekki er svigrúm til að endurnýja samning við höfund námsefnis, ekki eru aðstæður til að velja nýja leiðbeinendur og þjálfa þá og þar að auki er ekki réttlætanlegt að taka fjárhagslega áhættu af námskeiðshaldi meðan óvissa ríkir um gerð þjónustusamnings milli Innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar.”
Nákvæmlega eitthundrað fjölskyldur eru nú á biðlista eftir ættleiðingu hjá Íslenskri ættleiðingu, þar af eru 44 þeirra í umsóknarferli hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík sem gefur út svokallað forsamþykki til að ættleiða barn erlendis frá. 34 fjölskyldur sem eru í umsóknarferlinu eiga eftir að sitja undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra og geta ekki lokið því ferli fyrr en eftir þátttöku á slíku námskeiði, eins og kveðið er á um í reglugerðinni.“