Mbl.is - Enginn einhleypur karlmaður hefur ættleitt
Lára Halla Sigurðardóttir
larahalla@mbl.is
Enginn einhleypur karlmaður hefur óskað eftir að fá að ættleiða barn í gegnum félagið Íslenska ættleiðingu.
Nokkrir einhleypir karlmenn hafa haft samband við samtökin Staðgöngu að undanförnu og sýnt möguleikanum á því að eignast barn með hjálp staðgöngumóður áhuga. Gerð frumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er á lokastigi.
Einhleypum var gert kleift að ættleiða með breytingu á lögum árið 1999 en í lögunum segir að einstaklingunum sé það heimilt ef sérstaklega stendur á og ættleiðing sé ótvírætt talin barninu til hagsbóta.
mbl.is hefur að undanförnu fjallað um málefni einhleypra kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu. Með þessari grein er sjónum beint að stöðu einhleypra karlmanna og möguleikum þeirra til að eignast barn einir.
Tuttugu og fimm einhleypar konur hafa ættleitt
Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu hafa tuttugu og fimm einhleypar konur ættleitt í gegnum félagið. Börnin kom frá fjórum löndum; Indlandi, Tógó, Tékklandi og Kína. Nokkrar konur hafa hafið ættleiðingarferlið og munu ættleiða börn frá þessum löndum ef allt gengur að óskum.
Tuttugu og fimm einhleypar konur ættleitt í gegnum Íslenska ættleiðingu en enginn karlmaður.mbl.is/Ómar Óskarsson
Öll samstarfslönd Íslenskrar ættleiðingar taka á móti umsóknum einhleypra einstaklinga. Eftir að breyting var gerð á reglum í Kína árið 2007 var talið að félagið gæti ekki sent umsóknir frá einhleypum til nokkurs lands. Við nánari skoðun var ákveðið að láta á það reyna og ættleiddu að minnsta kosti tvær einhleypar konur börn frá Tógó og Tékklandi árið 2012.
Frá árinu 2007 var umsóknum frá einhleypum raðað á svokallaðan hliðarlista. Voru þeir til staðar í fjögur ár eða fram á mitt ár 2010. Á þessu tímabili söfnuðust upp nöfn um þrjátíu einhleypra kvenna sem höfðu áhuga á að ættleiða barn en fengu ekki tækifæri til að hefja ættleiðingarferlið.
Áhugasamir, einhleypir karlmenn
Síðastliðin ár hafa nokkrir einhleypir karlmenn haft samband við samtökin Staðgöngu. Þeir hafa sýnt möguleikanum á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni áhuga og vilja vita meira.
Að sögn Soffíu Fransisku Rafnsdóttur Hede, talskonu samtakanna, veltu karlmennirnir meðal annars fyrir sér hvort úrræðið verði einnig fyrir einhleypa karlmenn, verði frumvarpið sem stendur til að leggja fram á Alþingi að lögum. Engin einhleyp kona hefur haft samband við félagið.
Alþingi samþykkti fyrir rétt rúmum þremur árum þingsályktunartillögu um að skipaður yrði starfshópur sem undirbúi frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Vinnsla frumvarpsins er á lokasprettinum og verður því skilað til ráðherra eftir mánaðamót.
Færri úrræði fyrir einhleypa karlmenn
Soffía bendir á að einhleypir karlmenn hafi heldur færri úrræði en einhleypar konur, vilji þeir eignast barn einir. Þær geta nýtt sér tæknifrjóvgun og ættleiðingu en karlmennirnir aðeins ættleiðingu.
Í drögum frumvarpsins er gert ráð fyrir að einhleypir geti nýtt sér úrræðið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einhleypa konan eða maðurinn verða að leggja fram kynfrumu, ekki er hægt að nýta bæði gjafaegg og gjafasæði.
Aðspurð segir Soffía að dæmi séu um að einhleypir karlmenn nýti sér staðgöngumæðrun erlendis þar sem hún er heimil með lögum. Guardian ræddi við nokkra einhleypa feður árið 2013 sem nýttu sér staðgöngumæðrun.
Félagið Staðganga, stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi, var stofnað síðla árs árið 2009. Markmið félagsins er að stuðla að umræðu um staðgöngumæðrun og að staðgöngumæðrun verði leyfð á Íslandi í velgjörðarskyni.