mbl.is - „Gleymi því stundum að ég er ættleidd“
Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir hefur búið hér á Íslandi frá því hún var 14 mánaða gömul. Mamma hennar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, ættleiddi hana frá Kína árið 2003 en Hrafnhildur heldur fyrirlestur í dag um hvernig það hefur verið fyrir hana að búa á Íslandi, hafandi annað útlit og annan bakgrunn en flestir Íslendingar.
Fyrstu minningar Hrafnhildar af því að hafa verið mismunað fyrir útlit sitt eru úr leikskóla. „Ég man eftir því úr leikskóla að þá bönnuðu krakkarnir mér að leika einhver ákveðin hlutverk því þau voru ekki asísk,“ segir Hrafnhildur í viðtali við mbl.is.
„Svo var mér strítt í ballett á sínum tíma af því ég var sem sagt með kúkabrúnan húðlit,“ segir Hrafnhildur. Þrátt fyrir svona minningar úr æsku segir Hrafnhildur að hún gleymi því oft að hún sé ættleidd eða „öðruvísi“ á einhvern hátt.
Verstu fordómana sem hún hefur upplifað eru atvik eftir að hún fór út á vinnumarkaðinn. Hún segir að þessi atvik geri hana mjög reiða og hún skilji ekki af hverju að fólk komi svona fram enn í dag. Hrafnhildur hefur unnið á kaffihúsi á síðustu árum og segir kúnna stundum biðja hana um að „óhreinka ekki matinn“. Hún segir líka að stundum byrji fólk að tala ensku við hana.
Árið 2011 fóru mæðgurnar Hrafnhildur og Þórunn aftur til Kína þar sem þær heimsóttu gamlar slóðir. Þær fóru á barnaheimilið þar sem Hrafnhildur átti heima þegar hún var ungbarn. Hún man ekkert eftir að hafa verið þar, enda rúmlega eins árs gömul þegar hún fór, en var sagt að aðstæður hefðu breyst mikið á þeim 17 árum sem liðin eru frá því að hún var þar. Í dag eru mikið færri börn á barnaheimilinu og aðstæður betri.
Allt ættleiðingarferlið tók mömmu hennar um 3 ár, frá því að hún sótti fyrst um að ættleiða þangað til hún fékk Hrafnhildi í fangið.
Hrafnhildur heldur kynningu í Veröld — húsi Vigdísar í dag klukkan 17:30. Nánari upplýsingar má finna á Facebook.