Mbl - Um 400 ættleidd börn hér á landi
Heilsufar barna við ættleiðingu og aðlögun og skólaganga kjörbarna verða á meðal viðfangsefna málþings sem Íslensk ættleiðing stendur fyrir á laugardag í safnaðarheimili Hallgrímskirkju kl. 13-17.
Málþingið er haldið í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að ættleiðingar frá útlöndum hófust hér formlega, að sögn Ingibjargar Birgisdóttur, eins skipuleggjanda málþingsins og fyrrverandi stjórnarmanns í félaginu.
"Um 400 ættleidd börn eru nú hér á landi en í byrjun var aðallega um að ræða ættleiðingar frá Kóreu og síðan Gvatemala," segir Ingibjörg. Félagið hefur nú leyfi til að hafa milligöngu um ættleiðingar frá Indlandi, Kína, Kólumbíu, Taílandi og Tékklandi.
Hún segir að auk þess að sjá um ættleiðingar sé talsvert félagsstarf á vegum Íslenskrar ættleiðingar, eins og jólaböll og útilegur. Í gegnum félagið geti fjölskyldurnar haldið sambandi og miðlað af reynslu sinni. Ingibjörg bendir á að mikilvægur liður í að byggja upp sjálfsmynd barnsins sé að foreldrar séu frá upphafi heiðarlegir, segi t.d. strax frá uppruna. "Stundum getur verið óvissa um einhverja hluti en við ráðleggjum fólki alltaf að skýra rétt frá. Ágæt regla er að tala þannig við barnið að öruggt sé að þú þurfir ekki að leiðrétta neitt seinna."
Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Monica Dalen, prófessor við háskólann í Osló, sem fjallar um rannsókn sína á skólagöngu og aðlögun kjörbarna í Noregi, Baldur Kristjánsson, lektor í sálfræði, og Gestur Pálsson barnalæknir.