Fréttir

Morgunblaðið - Að sjá fyrir lit

Njörður P. Njarðvík
Njörður P. Njarðvík

Alltaf öðru hverju birtist hér á fjósbitanum sá ljóti sálarpúi sem kallast kynþáttafordómar og lifir á því hugarfari manna að geta ekki litið þá réttu auga sem eru öðru vísi en þeir sjálfir. Í okkar heimshluta byggjast þessir fordómar oftast nær á útliti fólks, á litarhætti þess, á því hugboði að þar sem fari blökkumenn, arabar, eða fólk af hinum svokallaða gula kynstofni (þar með taldir indjánar og innúítar), þar megi búast við undirferli og illvirkjum. Af hinu dökka útliti er umsvifalaust dregin ályktun um skuggalegt innræti. 
Kynþáttafordómar geta einnig snert aðra þætti í mannlegum samskiptum, einkum lífsviðhorf sem tengd eru ósveigjanlegri trúarsannfæringu eða yfirdrottnun. Hið fyrrnefnda sjáum við víða í heimi múslima og hið síðarnefnda kemur t.d. fram í því að Kóreumenn eru litnir hvössu hornauga í Japan. Og margir Íslendingar hafa kvartað yfir því að Danir líti niður á þá. Sambland af togstreitu trúar og yfirdrottnunar sjáum við í hinni blóðugu illdeilu manna á Norður-Írlandi.
Þessir fordómar hafa fylgt mannskepnunni lengi og stafa nær ævinlega af því að menn neita að setja sig í spor annarra til að reyna að skilja þá, en heimta þess í stað að aðrir samlagis þeim sjálfum, verði eins og þeir. Þessu fylgir oft einkennilegur tvískinnungur eins og þegar við Íslendingar berum mikið lof á þá landa okkar sem flytjast burt og halda sem lengst í þjóðerni sitt, en heimtum svo að þeir útlendingar sem flytjast hingað, gleymi uppruna sínum umsvifalaust: til skamms tíma sviptum við þá meira að segja nafni sínu um leið og við kröfðumst þess að aðrar norrænar þjóðir virtu íslenska nafnhefð.
Samlögun litarháttanna er svo önnur saga. Hún gerist aðeins með blóðböndum og er kynþáttahatrinu mikill þyrnir í augum.

Alvarlegt mál
Þær fregnir berast nú frá Svíþjóð að kynþáttahatur hafi magnast svo mjög þar í landi, að farið sé að limlesta innflytjendur og jafnvel myrða þá vegna útlits. Sem betur fer hefur slíkt ekki gerst hér, en þó hefur oft verið veist að slíku fólki. Og nú nýverið eru tvö dæmi um birtingu sálarpúkans sem nærist á fordómum, þótt með ólíkum hætti sé.
Annað dæmið er sú kvörtun bandarískra hermanna að þeim hafi verið vísað út af skemmtistað vegna litarháttar. Nú hef ég ekki farið dult með þá skoðun mína, að ég er andvígur því að hér sé erlend herstöð. Ég tel það minnkun hverri sjálfstæðri þjóð að hafa í landi sínu erlenda hermenn, og gildir þá einu hvaðan þeir koma. Hins vegar snertir sú skoðun á engan hátt þá einstaklinga sem hér starfa í herstöðinni hverju sinni, enda ráða þeir engu um dvöl hersins. Okkur ber að umgangast þá sem einstaklinga á sama hátt og annað fólk sem gistir land okkar. Þess vegna skiptir engu í áðurnefndu dæmi hvort mennirnir sem halda því fram að þeim hafi verið vísað burt vegna litarháttar, eru hermann eða ekki. En ef svo er komið í Reykjavík, að mönnum sé vísað út af almennum skemmtistöðum eða veitingahúsum vegna litarháttar, þá er það alvarlegt mál og verður að taka föstum tökum þegar í stað. Það má engum líðast að fótumtroða þannig sjálfsögðustu mannréttindi.

Börnin okkar
Hitt dæmið er grein eftir Magnús Þorsteinsson bónda sem birtist í dálknum Velvakanda í lok nóvember og nefnist Þjóðarsjálfsvíg. Þar er því haldið fram að flestar norrænar þjóðir séu "á leiðinni til sjálfsvígs með takmarkalausum innflutningi fólks frá löndum þriðja heimsins".  Vill greinarhöfundur vernda atgervi og auðlegð íslenska kynstofnsins "með því að koma á löggjöf um verndun íslensks þjóðarstofns, en í þeirri löggjöf þarf að felast bann við innflutningi fólks frá löndum þriðja heimsins, ekki síst ættleiðingarbarna og kvenna frá Tælandi og Filippseyjum".
Þessi grein leiðir hugann að frægri kenningu sem nefnd var "Blut und Boden" í þriðja ríkinu sem átti að lifa í þúsund ár á hugsjóninni um hreinræktaðan yfirburðakynstofn hins norræna manns. Greinarhöfundi virðist hins vegar ekki kunnugt um að íslensk þjóð hefur aldrei getað "státað" af því að tilheyra hreinræktuðum norrænum kynstofni. Við erum frá upphafi blanda norrænna manna og kelta sem settust hér að, gáfust þessu landi og gerðu það að sínu, og gerðust ein þjóð með þeim lifnaðarháttum sem aðstæður í þessu landi kröfðust og gátu síðan af sér þann arf sem við köllum íslenska menningu og fest í samþættingu lands, þjóðar og tungu, hinni frægu þrenningu sem Snorri Hjartarson orðaði svo vel.
Það fólk sem síðan hefur flust hingað, sest hér að og gengið inn í þjóð okkar, hefur hvergi spillt henni, heldur miklu fremur auðgagð hana. Kannski er skýrasta dæmið að finna í tónlistarlífi okkar. Við höfum verið svo einstaklega heppin að hingað hafa flust tónlistarmann, sem margir hafa verið forystumenn á því sviði, og þeir hafa allir aukið líf okkar að fegurð listarinnar.
Kynlegt er að greinarhöfundur skuli veitast sérstaklega að ættleiðingarbörnum. Ekki veit ég hvort hann hefur reynslu af þeim. Það hef ég hins vegar. Meira en tuttugu ára reynslu. Það er stórkostlegt þegar tekst að leiða saman foreldra sem vilja eignast börn og börn sem vilja og þurfa að eignast foreldra. Þegar þessi börn koma hingað, eru þau Íslendingar. Íslenska er móðurmál þeirra og útilt skiptir engu í því sambandi. Þau eru þegar frá upphafi Íslendingar og geta aldrei orðið neitt annað. Þau eru einfaldlega börnin okkar.

Örstutt saga
Sagt er að þá fyrst séum við laus við kynþáttafordóma þegar við sjáum einstaklinginn en ekki litarháttinn. Ef barið er að dyrum okkar og við hugsum þegar við opnum: þetta er svertingi, - þá erum við enn með kynþáttafordóma. Ef við hins vegar hugsum ekkert eða hugsum ósjálfrátt: þetta er manneskja eða þetta er Jón - þá erum við laus undan bölvun fordómanna.
Og nú vil ég ljúka þessum orðum með örstuttri sögu. Veturinn 1956-57 bjó ég á stúdentaheimili í Munchen sem hét Internationales Haus og hafði á stefnuskrá sinni að þar byggju námsmenn frá sem flestum löndum heims í sátt og samlyndi. Við sem fyrir vorum, áttum að kynna nýja íbúa, og að því kom að mér var falið það verkefni. Þetta var ungur maður frá suðurríkum Bandaríkjanna. Allt gekk vel þar til við komum í matsalinn að fá okkur að borða. Við sóttum okkur mat á bakka, og ég gekk á undan honum og settist við borð. En hann kom ekki á eftir mér, heldur stóð á miðju gólfi eins og þvara. Ég veifaði honum að koma, enhann hreyfði sig ekki. Þá gekk ég til hans og spurði hvað væri að. Hann sagðist ekki geta sest við borðið. Ég leit þangað og tók þá eftir því að ég hafði sest á móti ungri stúlku frá Senegal, sem var að læra læknisfræði, biksvartri stúlku, stórglæsilegri sem var síbrosandi og hvers manns hugljúfi. Ungi maðurinn gat ekki sest við sama borð og svertingi. Ég sagði honum þá að hann þekkti reglur hússins. Annað hvort settist hann hjá stúlkunni umsvifalaust, eða flytti burt. Þessi saga endar vel. Ungi maðurinn settist hjá stúlkunni, og þau urðu mestu mátar. 

Að sjá fyrir lit


Svæði