Morgunblaðið - Einhleypir geta ættleitt
Íslendingar fá að ættleiða tíu börn frá Nepal *Ísland með fyrstu löndum sem gera samning *Mjög hefur hægt á ættleiðingum frá Kína að undanförnu
Nýlega fékk Íslensk ættleiðing löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingu á börnum frá Nepal, en reglurnar þar gera einhleypum loks aftur fært að ættleiða börn.
„ÞAÐ er sannarlega mjög ánægjulegt að Nepal skuli leyfa einstæðum að sækja um að ættleiða barn. En það hefur engin einstæður sótt um að ættleiða barn frá því þau góðu tíðindi bárust fyrr í mánuðinum að Íslensk ættleiðing hefði fengið löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Nepal, enda er þetta svo nýtilkomið að margir vita ekki enn af þessu,“ segir Hörður Svavarsson formaður stjórnar Íslenskrar ættleiðingar.
Hörður segist vita til þess að einhverjir einstæðir séu í startholunum. Þeir hafi ekki lagt út í það að sækja um síðustu tvö árin af því lokað var fyrir þann möguleika hjá Kína 1. maí árið 2007 að einstæðir gætu ættleitt börn.
Eru enn á biðlista
„Kína var eina landið sem við vorum í samstarfi við sem leyfði það. En þeir einstæðu sem voru komnir með beiðni inn í kerfið í Kína áður en reglurnar breyttust, þeir eru enn á biðlista og munu fá afgreiðslu samkvæmt reglunum sem þá voru og munu því fá barn frá Kína. En því miður hefur hægt mjög á ættleiðingum frá Kína og þar sem þeir eru svo stórir í þessu samhengi þá hefur líka hægt á afgreiðslum annarsstaðar í heiminum.“
Hörður segir að Nepal sé nú að opna aftur fyrir ættleiðingar á börnum út úr landinu, eftir að hafa lokað fyrir þær í tvö ár. „Það er ekki óalgengt að lönd geri það til að endurskoða reglur og endurskipuleggja kerfið. Við erum reyndar með fyrstu löndunum sem náum samstarfssamningi við Nepal í þessum málum og sem betur fer þá miðar Nepal ekki við höfðatölu, sem er mjög ánægjulegt fyrir okkur hér í fámenninu. Við höfum því sömu möguleika og önnur lönd. Bandaríkjamenn fá til dæmis að ættleiða tíu börn frá Nepal þetta árið og sama er að segja um Íslendinga.“ Hann segir að þrjú fyrstu börnin séu nú þegar á leið til Bandaríkjanna, þannig að þetta gerist frekar hratt. „Ég á því von á að afgreiðsla umsókna héðan gangi líka hratt og vel fyrir sig. Um leið og við fáum formlegar umsóknir frá fólki, þá getum við sagt betur til um það. En það lítur ekki út fyrir að það séu neinar sérstakar hindranir í veginum.“ Hörður segir að Íslendingar séu víðsýnir þegar kemur að einstæðum foreldrum, því sum lönd hafa ekki leyft þegnum sínum sem eru einstæðir að sækja um að ættleiða barn annarsstaðar frá.
Tvö ættleiðingarfélög á Íslandi
*Löggilt ættleiðingarfélög hafa þann megintilgang að hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum milli landa og aðstoða væntanlega kjörforeldra í ættleiðingarferlinu.
*Íslensk ættleiðing hefur heimildíslenskra stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá sjö löndum:
*Kína
*Kólumbíu
*Indlandi
*Tékklandi
*Makedóníu
*Taílandi
*Nepal
Fyrr í þessum mánuði gaf dóms- og kirkjumálaráðherra út löggildingu fyrir nýtt ættleiðingarfélag hér á landi, Alþjóðlega ættleiðingu, en það annast milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
Morgunblaðið - Einhleypir geta ættleitt