Morgunblaðið - Notkun orðsins ættleiðing
Eftir Gíslínu Vilborgu Ólafsdóttur
Á HEIMASÍÐU Hrafnistu – www.hrafnista.is – og einnig í grein í Morgunblaðinu þann 12. júní síðastliðinn er að finna ljúfa sögu af fallegum álfadúkkum sem þurfa á nýjum heimilum að halda og hvernig leirlistarkonan Jóhanna Jakobsdóttir og íbúar Hrafnistu bregðast við til að koma þeim í góðar hendur. Í þessari viðleitni leirlistarkonunnar og íbúa Hrafnistu til að koma álfadúkkunum til manna er talað um að fá fólk til að ættleiða álfadúkkurnar. Samkvæmt íslenskri orðabók fyrir skóla og skrifstofur er merking orðsins: Ættleiðing: 1 taka sér í sonar (dóttur) stað, gera að kjörbarni sínu, veita óskilgetnu barni réttindi skilgreinds barns, 2 rekja uppruna og skyldleika (t.d. orða).
Ættleiðing er þegar fullorðnir taka sér það hlutverk að vera foreldrar barns sem er ekki líffræðilegt afkvæmi þeirra, samkvæmt lögum þar um. Þau ættleiðingarskjöl sem staðfesta ættleiðinguna eru löglegir pappírar gefnir út af viðeigandi yfirvöldum.
Það er okkur, foreldrum ættleiddra barna, hugleikið að orðið ættleiðing sé ekki ranglega notað í íslensku máli. Erum við þá meðal annars að hugsa um börnin okkar, því með rangri notkun orðsins geta þau fengið rangar hugmyndir um ástæður þess að þau eru gefin til ættleiðingar.
Í umræddri grein í Morgunblaðinu stendur meðal annars um þetta verkefni með álfbörnin: „Svo ákváðum við að leyfa þeim sem vildu kaupa brúðurnar að ættleiða þær og ég bjó til sérstök ættleiðingarskjöl fyrir hvert og eitt álfabarn.“
Af fréttinni geta börnin dregið þá ályktun að þau hafi verið seld til okkar, foreldra sinna. Það að vera ættleitt barn getur oft verið viðkvæmt og sjálfsmynd barnanna er stundum brothætt. Því getur verið erfitt fyrir börnin að lesa svona frétt sem gefur í alla staði ranga mynd af því hvernig þau eignuðust nýja foreldra. Einnig má benda á að það að gefa barn til ættleiðingar er öllum foreldrum erfið ákvörðun og í langflestum tilfellum gert í neyð. Því ber að virða þá ákvörðun en ekki gefa því undir vænginn að þeir hafi selt börnin sín, þótt ómeðvitað sé.
Jafnframt má benda á að önnur börn sem lesa þetta geta líka fengið ranghugmyndir um framkvæmd ættleiðingar og til dæmis borið það upp á ættleidda skólafélaga og vini að þau hafi verið keypt, sem getur verið mjög sárt fyrir ættleidd börn.
Ættleiðing er ferli þar sem sorg kynforeldra og hamingja kjörforeldra mætast yfir afdrifum lítils barns, sem sjálft fær ekkert um framtíð sína að segja. Bera skal virð- ingu fyrir því ferli og varast að draga upp ranga mynd af því.
Við teljum augljóst að meining leirlistarkonunnar og íbúa Hrafnistu hafi ekki verið að særa neinn með notkun á orðinu ættleiðing í þessu samhengi og biðjum þau því góðfúslega að taka upp annað orð yfir þá framkvæmd að viðskiptavinir þeirra kaupi þessar fallegu dúkkur. Getum við bent á að það að taka í fóstur hefur víðtækari merkingu og er ef til vill meira viðeigandi í þessu tilfelli.
F.h. stjórnar Foreldrafélags ættleiddra barna.
Höfundur er móðir tveggja stúlkna ættleiddra frá Kína.